Brjóstsviði getur verið ansi óþægilegur og sár. Ástæður þess að hann herjar á fólk geta verið margar en flestar tengjast mataræði. Brjóstsviði eða nábítur er sár sviði undir bringu og uppi í háls. Hann stafar af bakflæði matar frá maga upp í vélinda. Í maganum blandast fæðan sýrum sem valda sviðanum. Með því að neyta trefjaríkrar fæðu má draga verulega úr bakflæði. Haframjöl, gróft brauð, múslí, bygggrautar eða annar trefjaríkur matur á morgnana getur hjálpað mikið.
Brjóstsviði er oftast verstur á kvöldin en getur komið ef fólk þarf að beygja sig fram eða þegar það leggst út af. Mælt er með að borða ekki í tvo til þrjá tíma áður en fólk fer í rúmið til að sofa. Þá ætti meltingin að vera það langt komin að minni hætta er á bakflæði. Bananar, bláber og jarðarber innihalda alkali og það getur dregið úr sýrumyndun. Kantalópur og hunangsmelónur eru einnig með lágt sýrustig og geta því unnið gegn því að brjóstsviði eigi sér stað.
Engiferte mýkir slímhúð magans og getur hjálpað mikið við að draga úr meltingarvandamálum sem stafa af vægum bólgum. Rótargrænmeti er einnig meinhollt og gott fyrir meltinguna. Í þeim flokki eru gulrófur, sætar kartöflur, gulrætur, rauðrófur og kartöflur.
Ef brjóstsviði herjar á fólk ætti það að íhuga að borða fisk í kvöldmatinn. Fiskurinn er auðmeltari og því fljótari gegnum meltingarveginn. Mjólk og mjólkurvörur veita einnig slímhúð meltingarfæranna ákveðna vörn en síendurtekið bakflæði getur valdið skemmdum á vélindanu. Mjólk, jógúrt eða skyr á kvöldin mynda húð innan á vélindanu og draga þannig úr ertingu vegna bakflæðis og brjóstsviðinn svíður því ekki eins sárt.
Ef fólki hættir við brjóstsviða ætti það að forðast feitan mat, djúpsteiktan og sítrusávexti, tómata, myntu, gosdrykki, alkóhól og kaffi.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.