Húsið að Grundarstíg 10 í Reykjavík, Hannesarholt, var síðasta heimili Hannesar Hafstein, fyrsta íslenska ráðherrans en þar hefur verið rekið menningarsetur í áratug. Einn eigenda hússins, Ragnheiður Jónsdóttir, segir að vel hafi gengið að ná markmiðum sem lagt var upp með frá byrjun: Að opna húsið almenningi, að standa fyrir og hýsa uppbyggjandi viðburði þar sem menning, listir og fræði eiga stefnumót við fólk á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum. Að hlúa að sögulegu samhengi, að taka þátt í sameiginlegum viðburðum og hátíðum í borginni og að þiggja andblæ að utan í anda Hannesar.
Ragnheiður segir að hún og eiginmaður hennar, Arnór Víkingsson, hafi verið leidd inn í húsið fyrir tilviljun í nóvember 2007. „Húsið var lúið og við vildum bjarga því. Ég hafði fengið arf úr fjölskyldufyrirtæki og gat því ráðist í þetta verkefni.“
Eftir gagngerar endurbætur var Hannesarholt opnað 8. febrúar 2013 hlaut endurgerð hússins viðurkenningu Reykjavíkurborgar 2014. Hjónin hafa staðið straum af kostnaði við húsið og starfsemi þess frá upphafi. Svo gekk það ekki lengur. Hannesarholt passaði ekki inn í viðspyrnustyrki vegna Covid-faraldursins, viðræður við yfirvöld skiluðu engu samkomulagi og Hannesarholti var lokað sumarið 2021. Framtíðin er enn óljós, en það var mörgum fagnaðarefni þegar Hannesarholt var opnað aftur haustið 2022.
„Það kom óvænt opnunarstyrkur frá góðgerðarsjóði í New York sem styrkir fyrst og fremst samfélagslega mikilvæg verkefni. Fulltrúi sjóðsins kom hingað og heillaðist af því sem við höfum verið að gera.. Við erum óendanlega þakklát og stolt yfir þessum liðsauka.“
Verkefni sem kom á réttum tíma
Ragnheiður sem er með BA-gráðu í bókmenntafræði og ensku og kennsluréttindi frá HÍ. Meistaragráðu í enskum bókmenntum og doktorspróf í menntunarfræðum frá University of Wisconsin, Madison, segir að menntun sín hafi nýst vel í starfinu og að hún hafi alltaf verið upptekin af velferð þjóðarsálarinnar. Þeim hjónum hafi fundist Íslendingar villast af leið á uppgangsárunum fyrir hrunið 2008, nokkuð sem líklega margir geta tekið undir.
Ragnheiður segir að þetta verkefni hafi komið á eina tímapunktinum sem hún hefði getað tekist á við það. Það hafi verið ævintýri líkast að byggja upp starfið í Hannesarholti og óendanlega gefandi, þótt það hafi líka tekið á. „Ég valdi kennarastarfið til að bæta heiminn og hér í Hannesarholti finnst mér ég hafa unnið við að bæta samfélagið. Frá fyrsta augnabliki fannst mér þessu hafa verið stýrt, við værum ekki ein í þessu. Þegar ég gekk inn í lúið húsið kallaði það á mig að bregðast við.“
Hverning finnst þér hafa tekist til? „Miklu betur en ég þorði nokkurn tíma að vona. Allan tímann hefur verið einhver blessun yfir þessu verkefni. Ég væri ekki að segja satt ef ég segði að þetta hafi ekki verið erfitt en verið miklu meira blessun. Öll mín sýn hefur verið með heildina í huga. Hannesarholt byggir á þessari þverfaglegu hugsun sem býður okkur að koma saman og velta fyrir okkur hvert við förum eða viljum fara. Við sækjum söguna hér. Að tengja saman fortíð, nútíð og framtíð er það sem allt snýst um í Hannesarholti, að tengja saman kynslóðirnar og nýta sameiginlega reynslu okkar.“
Lifandi safn og menningarhús
Ragnheiður segist þakklát fyrir að Hannesarholt hafi stækkað sviðið fyrir samborgarana og gefið mörgum tækifæri til að stíga á stokk og deila andlegri auðlegð sinni. „Ýmsir hafa komið fram á viðburðum sem gera það ekki alla jafna og þannig hlúir Hannesarholt að alþýðumenningu. Myndlistarmenn sem hafa sýnt í húsinu hafa verið á aldrinum 23 til 92 ára og spannað allt frá því að vera með sínar fyrstu sýningar til sinna síðustu og sama er að segja um tónlistarmenn, þeir hafa verið á öllum aldri og á öllum stigum.
„Hannesarholt er fyrst og fremst menningarheimili og griðastaður. Hvort sem þú kemur með vinkonu í kaffi eða til annars þá stígurðu inn í faðmlag fortíðar. Hér var heimili fólks í tæp hundrað ár og húsmunir spanna þennan tíma. Það sem ég er stoltust af er grunnurinn. Þú getur komið í alls konar erindagjörðum en svo gæti eitthvað kveikt forvitni þína, í ljósmyndum, húsgögnum, bókum eða sögulegum upplýsingum. Hannesarholt er lifandi safn. Umræðuefnin eru óþrjótandi um þetta ferðalag frá 1904 þegar við vorum ekki lengur alfarið dönsk nýlenduþjóð yfir í það að geta búið til okkar eigið samfélag og þróast á ógnarhraða.
Hannesarholt er brú milli gamla tímans og nýja, bæði í byggingarsögulegu tilliti – við eru góð í torfhúsasögunni, stolt af seiglu forfeðranna og þar liggur sjálfsmynd okkar en við getum engu að síður verið mjög stolt af heimastjórnartímanum og Hannes Hafstein færði okkur margt af því sem líf okkar í dag byggir á.
Þegar húsið var byggt 1915 bjó nær helmingur landsmanna í torfhúsum. Hannesarholt var fyrsta húsið með steyptum stiga og steyptum gólfplötum milli hæða. Stórbruni í miðbæ Reykjavíkur var hvati að byggingu hússins, Hannes vildi koma móðurlausum börnum sínum í brunahelt hús,“ segir hún.
Minningar kvikna
„Hér er boðið upp á að sækja menningarminnið,“ heldur Ragnheiður áfram. „Þegar þú ert kominn inn á heimili eins og þetta kvikna minningabrot úr æskunni. Tilfinningarnar sem tengast minningunum leiða svo gjarnan yfir í forvitni eða áhuga fyrir samfélagslegum þáttum frá þessum tíma í tengingu við nútímann. Hannesarholt er alhliða menningarhús, svolítið eins og vefsíða, þú hakar við það sem kallar á þig hverju sinni, en svörunin er ekki rafræn heldur mannleg.
Við höfum hýst og staðið fyrir viðburðum af ýmsum toga, flestum í tónlistarsalnum Hljóðbergi sem er rómaður tónlistarsalur fyrir kammertónlist og smærri tónleika og viðburði. Í Hljóðbergi er Steinway-flygill sem er meðal þeirra bestu á landinu, sérvalinn af Víkingi Heiðari Ólafssyni píanóleikara. Heimspekispjöll, bókmenntaspjöll, heilsuspjöll, kvöldstundir með gestum og fleiri viðburðir hafa verið á dagskránni, allt að hundrað viðburðir á ári þegar mest lét. Syngjum saman er verkefni sem við höfum staðið fyrir í Hannesarholti reglulega frá upphafi og lít ég á það sem forvarnarstarf en tónlistarfólk í nágrannalöndunum hefur bent á tekur aðeins tvær kynslóðir að týna söngarfinum.
Við sungum gjarnan saman hversdags hér áður fyrr, en nú gerist það varla lengur, nema helst á stórafmælum og í útilegum. Þarna er samveran lykilatriði en það býr líka svo mikill orðaforði í söngtextum og ljóðum. Kynslóðirnar læra hver af annarri texta og lög. Við höfum því lagt mikið á okkur þennan áratug að halda úti Syngjum saman. Textar birtast á tjaldi og allir geta sungið með. Við höfum líka streymt frá þessum stundum og byrjuðum á því löngu fyrir heimsfaraldur, áður en streymi var orðið almennt. Þannig getur fólk notið og sungið með úti um heim og á hafi úti og flett upp á söngstundunum löngu eftir að þær eru liðnar. Það kom okkur ánægjulega á óvart hvað áhorf var mikið.“
Góður andi
Blaðamaður hefur á orði hvað gott sé að vera í Hannesarholti. „Fólki líður vel hér, það tala margir um það. Við erum með starfsfólk til að veita fræðslu um söguna og heimsmarkmiðin. Við létum gera stuttmynd um Hannes Hafstein og mótunarár borgarinnar og minnir á ýmislegt sem við erum búin að gleyma. Við bjóðum leiðsögn um húsið og upplýsingar á prenti. Á 2. hæðinni má hlýða á leiklesinn bút úr ræðu Hannesar þegar hann vígði símann 1907 og þar er afrit af fyrstu símaskránni. Sú taldi 200 númer og símanúmerið í húsinu var 5. Nú er símanúmerið í húsinu 511-1904 og gettu nú hvers vegna? Á flestum veitingastöðum er matseðill, en hér er líka menningarseðill, þar sem fólk fær yfirlit yfir það sem býðst að upplifa í húsinu í menningunni.“
Ragnheiður segir Heimastjórnartímann frá 1904 hafa verið mesta uppgangstíma í sögu þjóðarinnar, þegar borgarsamfélag varð til á fáeinum árum. „Á þessum tíma var lagður grunnur að velferðarsamfélagi okkar. Það er mikilvægt fyrir okkur að rifja þetta upp og muna fólkið sem ruddi brautina fyrir okkur. Sem fyrsti ráðherrann var Hannes Hafstein lykilmaður í þessari vegferð og því mikilvægur í sögulegu samhengi. Hannesarholt býður fólki að hægja á hlaupunum og líta til baka. Rifja upp hvaðan við komum, muna fólkið sem kom okkur þangað þar sem við erum. Það er gaman að fá börn hingað í hús í skólaheimsóknir, þau drekka í sig fróðleikinn.“
Menningarleg nýsköpun
Ragnheiður segir að þegar maður horfi á söguna með nýjum augum verði til eitthvað nýtt. „Við höfum fengið til liðs við okkur skapandi fólk sem gerir eitthvað nýtt. Lagasamkeppnin sem við stóðum fyrir ásamt Stöð 2 haustið 2020 í miðjum heimsfaraldri er gott dæmi. Fólk las yfir hundrað ára gömul ljóð og enduruppgötvaði fjársjóðinn í ljóðum Hannesar. Við fengum 205 lög við 48 ljóð sem spanna allan tilfinningaskalann og allar mögulegar tónlistartegundir. Þetta er gullnáma, gömul menningarleg auðæfi auðga líf okkar.“
Framtíð Hannesarholts
Eins og áður segir fjármögnuðu Ragnheiður og fjölskylda hennar Hannesarholt í tæpan áratug, þar til það gekk ekki lengur upp og staðnum var lokað í kjölfar Covid. Styrkurinn áðurnefndi frá góðgerðarstjóði Anne-Marie og Stephen Kellen Foundation, gerði þeim kleift að opna aftur og sú fjármögnun dugar út þetta ár.
„Það er mikilvægt að renna frekari stoðum undir fjármögnun Hannesarholts og okkar verkefni núna að sækja fjölbreyttari stuðning fyrir áframhaldandi rekstri. Hollvinafélag Hannesarholts hefur stutt starfsemina, en það telur um 300 meðlimi sem greiða 5.000 króna árgjald. Nýlega kom inn fyrsta fyrirtækið sem hollvinur og greiðir 100 þúsund krónur á ári. Hollvinafélagið styður við ýmis verðug verkefni, eins og tvímálabók með þýðingum á 35 ljóðum Hannesar Hafstein, sem kom út á100 ára ártíð Hannesar Hafstein. Berglind Björk Jónsdóttir systir mín hefur einnig veitt okkur ómetanlegan stuðning í Hannesarholti alla tíð.
Ýmislegt er á döfinni. Hannesarholt vill stíga fram sem Heimili Heimsmarkmiðanna, þar sem fólk getur átt samtal og fengið fræðslu um heimsmarkmiðin, og hvað fólk getur gert heima sem liðsmenn heimsmarkmiðanna. Í stað loftslagskvíða komi virkni, að við stöndum saman öll sem eitt eins og maurarnir sem flytja fjöll þótt smáir séu. Við höfum ráðið verkefnastjóra fyrir Heimili Heimsmarkmiðanna, Magnús Hall Jónsson og erum að bretta upp ermar. Ný heimasíða í vinnslu og viðburðaröð tengd heimsmarkmiðunum með haustinu.
Annar Magnús leggur okkur lið um tónlistarflutning, Magnús Jóhann Jónsson, sem er með tvær tónleikaraðir í vinnslu á vorönn. Syngjum saman verður haldið reglulega. Mikil aðsókn er á myndlistarsýningar í húsinu og gestaíbúðin í Hannesarhorni er mikið notuð m.a. fyrir erlenda tónlistarmenn. Til viðbótar við hádegisverð sem eldaður er í Hannesarholti hefur hafist samstarf við Sindra og Sigurjón í Flóru veisluþjónustu um veitingaþjónustu í kvöldveislum. Framtíðin er björt með heimsmarkmiðin sautján að vopni.“
Ragnheiður Linnet skrifar fyrir Lifðu núna.