Hnausar eru gamalt höfuðból í Meðallandi í Skaftárhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu. Þar eru fornar búsetuminjar og gömul torfhús sem Byggðasafnið í Skógum og Vilhjálmur Eyjólfsson, síðasti ábúandi á Hnausum, létu endurgera með styrk frá Húsafriðunarsjóði og fleirum. Hnausar eru sögulega og landfræðilega nátengdir strandsögunni í Meðallandi en húsakosturinn á Hnausum hefur einnig mikið minjagildi. Landgræðsla ríkisins fékk jörðina að gjöf frá síðasta ábúanda, Vilhjálmi Eyjólfssyni sem lést 2016, en hann átti enga afkomendur.
Nú standa vonir til að komið verði upp safni á Hnausum, þar sem m.a. fólk gæti kynnt sér sögu skipskaða í Meðallandi.
Lítið hefur farið fyrir umfjöllun sem snýr að skipskaða sem var samofinn daglegu lífi íbúa sýslunnar, sérstaklega í Meðallandi. Þarna er merk saga og menningararfur sem þyrfti bæði að varðveita og miðla, auk þess sem slíkt myndi koma til móts við ferðamenn sem fara um sýsluna og hafa áhuga á sögu svæðisins en ekkert er þar nú að finna sem gefur vísbendingu um þennan þátt í sögu sýslunnar.
Merk saga sem lítið fer fyrir
Þjóðminjasafnið hefur tekið við vörslu húsanna á Hnausum. Þau eru allt frá 1783 að talið er þegar Eldhraunið rann sem Jón Steingrímsson eldklerkur lýsti en að baki húsunum og bænum má sjá bæði Eldhraunið og Eldvatnið í Meðallandi. Gömlu húsin á Hnausum hýstu oft skipbrotsmenn og þar er saga strandskipa og margir munir úr skipsströndum en jafnframt er það einkennandi fyrir skaftfellska bæi að þar er gjarnan að finna strandgóss. Þeirri sögu hefur ekki verið haldið á lofti en full ástæða til, því hún er áhrifarík átakasaga.
Vilhjálmur Eyjólfsson sagði að húsin væru að stofni til mörg hundruð ára gömul en hafi verð löguð og byggð upp. Það er vitað að baðstofan er ein af sárafáum fjósbaðstofum sem varðveist hafi á landinu. Hugmyndin um safn á Hnausum er því mun stærri en bara saga skipstrandanna og skipskaðanna en þó samofin.
Vera Roth og Lilja Magnúsdóttir kynntu sér sögu skipskaða á þessu svæði þegar þær störfuðu hjá Kirkjubæjarstofu og segja hana nátengda sögu svæðisins. Á síðari hluta 19. aldar voru skipskaðar tíðir einkum við suðurströndina og voru margir þeirra á Meðallandsfjörum. Ef skip hafði strandað þurfti að hafa hraðar hendur og skipti þá engu hvort heyannir voru eða annað, karlmenn drifu sig til að freista þess að bjarga því sem bjarga mátti en kvenfólkið undirbjó komu skipverja heim á bæ. Stundum varð mannbjörg og munum og vörum náð úr skipinu og þótti það þá vera „gott strand“. Svo voru skip sem hurfu í heldjúpan sæ með manni og mús.
Þær Lilja og Vera segja að í starfi þeirra á Kirkjubæjarstofu hafi þær byrjað að tína til ýmislegt sem tengdist Hnausum.
Vera segir að sér hafi verið ljóst hve skipskaði var stór hluti af lífi fólks þegar hún fór af stað með hnitsetningu örnefna í Skaftárhreppi. „Ég fór þá víða um sveitina og á nánast hverjum bæ blasti við mér einhver munur úr skipi sem hafði strandað þarna. Þetta hafði mikil áhrif á mig og ég undraðist hvað þetta var eðlilegt fyrir Skaftfellingum og þeir augljóslega höfðu alist upp við. Það kom svo í ljós að það er hafsjór af minjum og sögum tengdum skipsköðum á svæðinu.“
Skipakirkjugarður í Meðallandi
Vera segir aðspurð að Eyjólfur á Hnausum hafi verið hreppstjóri í embættistíð Gísla Sveinssonar sýslumanns, sem varði í um 30 ár. Í heimildum kemur fram að um 60 skip hafi strandað í Meðallandi í hreppstjórnartíð Eyjólfs.
„Það eru mjög mörg skip í sandinum sem ekki tókst að bjarga. Strönd voru mistíð milli ára. Miðin voru fengsæl og smám saman fóru skipin að koma fyrr, jafnvel í lok febrúar og mikið upp úr í því að hafa ef vel gekk. Þá urðu skipskaðahrinur sem urðu til þess að franskar fiskimannafjölskyldur fóru að mótmæla. Elín Pálmadóttir sem var blaðakona segir að 4.000 franskir fiskimenn og 400 skip hafi ekki snúið aftur heim af Íslandsmiðum á þremur öldum. Íslandssiglingum Frakka lauk 1939.“
Skipstrandasögurnar eru þó ekki allar svo gamlar. T.d. strönduðu skipin Van der Wayden 1957 og Baldvin Þorsteinsson 2004 úti fyrir Meðallandinu. Þarna er skipakirkjugarður og dæmi um að skip hafi starndað á öðru strandskipi.
Margir munir prýða kirkjur sveitarinnar
Vera segir að fólk hafi ekki tekið neitt úr skipunum, allt hafi verið skráð skv. lögum og reglum og síðan boðið upp. „Vaktmaður var yfir skipum, dag og nótt á meðan beðið var sýslumanns, búðum slegið upp meðan verið var að vinna við strandgóssið en reynt var að bjarga öllu. Sendiboði fór ríðandi til sýlsumanns sem kom svo með sitt föruneyti,“ segir Vera.
„Mjög margir vandaðir og fallegir munir hafa ratað í ýmsar kirkjur í sveitinni eins og Þykkvabæjarklausturskirkju þar sem ljósakróna og kertastjakar eru úr spítalaskipinu franska sem strandaði á Meðallandsfjörum,“ segir Lilja.
Fyrsti vorboðinn þegar seglin birtust við sjóndeildarhringinn
Nokkuð var um að menn komust frá borði og björguðust í land en dóu svo úr kulda og vosbúð ef hjálp barst ekki nógu fljótt. „Í einhverjum tilfellum fórust menn þegar var verið að setja línu í skip til að bjarga fólki eða ef menn höfðu kastað sér til að synda í land,“ segir Lilja. Hún nefnir einnig dæmi um að menn hafi farist eftir skipskaða. ,,Enginn kom til bjargar og þeir urðu úti sem gengu frá skipi en það var reyndar ekki í Meðallandi.“
Þær stöllur segja að fyrsta verk manna á degi hverjum hafi verið að líta til sjávar. „Þeir fundu útsýnisstað og gáðu til sjávar. Hvít segl voru vorboðinn,“ segir Vera.
Margir sigldu hingað, t.d. Frakkar, Bretar, Hollendingar og Þjóðverjar, fyrst á skútum en seinna á togurum. Að fylgjast með skipum var daglegur þáttur í lífi fólksins og að sinna öllu því sem tengdist skipskaða hefur án efa haft töluverð áhrif á líf fólks í Skaftafellssýslum. Ef skip strandaði lögðu menn á sig ómælt erfiði til að freista þess að bjarga áhöfn, munum og matvælum. Þá varð að koma skipbrotsmönnum í skjól, hlúa að þeim og ferja þá síðan á hestum til Reykjavíkur til þess að þeir kæmust aftur heim. Sjómennska var erfitt starf og því fylgdi ávallt hætta á að skip færust eða strönduðu. Sjómenn liðu oft næringarskort og þjáðust af kvillum sem rekja mátti til erfiðis. Við skipstrand þurfti að koma mönnum fyrir á bæjum og síðan til síns heima. Þá varð einnig að greiða björgunarlaun o.s.frv. Sum skip grófust í sanda þarna og gætu einhver skip verið þar enn en allt var reynt til að draga skipin upp. „Þetta varð að gera á hvaða tíma sem var, í miðjum heyskap eða að nóttu og þetta hafði áhrif á líf allra,“ segir Lilja.
Hvernig var samband þessara sjómanna og fólksins á bæjunum, tengdust sjómennirnir fólkinu einhverjum vinaböndum? „Það eru til myndir af skipsmönnum og fjölskyldum á bæjunum og fólk skrifaðist á við þessa menn. Það hefur verið nokkuð um að ættingjar hafi komið og farið í fjöru þar sem ástvinir fórust og eða björguðust. Fólk hefur farið pílagrímsferðir í Meðalland til þessa. Það var ekki vinsælt að fá þessa menn í baðstofurnar, þeir voru með kynsjúkdóma, margir voru alkóhólistar og þeir voru illa farnir,“ segir Lilja.
„Elín Pálmadóttir segir að það sé engin staðfesting á að þeir hafi verið með kynsjúkdóma t.d. fransósu, eins og var talað um. Þeir sjómenn sem fengu kynsjúkdóma hafi líklega fengið þá á heimleið þegar skipin stoppuðu í Hollandi og á meginlandinu. Það voru þá yngri menn og dæmin sárafá, það sýna sjúkraskýrslur. Það hefur því trúlega fyrst og fremst verið óttinn sem skapaði þessi umyrði, en hann var mikill meðal Skaftfellinga. Samgangurinn var ólíklegur og einnig að það séu afkomendur þessara manna hér. Mönnum var haldið einangruðum og samskipti við konur ekki inni í myndinni. Ströndin voru einu skiptin sem þessir menn komu í land,“ segir Vera.
Menn reyndu að hafa dvöl skipverja á bæjunum sem skemmsta en oft varð að bíða eftir að veður og færð leyfðu ferðalög. Þá var riðið með þá til Reykjavíkur, að sögn Lilju en ferðin var löng og ströng á hestum og hvað þá fyrir menn sem höfðu jafnvel ekki setið hest áður. Jóhannes á Söndum segir á einhverjum stað að hann hafi flutt með sér menn sem hann taldi að ekki þyldu kulda og voru dökkir. Það voru menn frá Suður-Afríku,“ segir Lilja.
Pílagrímsferðir í Meðalland
„Margir vilja leita að slóðum þar sem ættingjar fórust. Það væri gaman að geta sagt þá sögu um hvað við vorum tengd þessum mönnum og það eru sjómenn jarðaðir hér, t.d. í Langholtskirkjugarði og á Prestsbakka á Síðu,“ segir Lilja.
„Það væri ánægjulegt ef hægt væri að setja upp sýningu um sjóskaða á Hnausum, þetta varðar varðveislu og miðlun á menningararfi þjóðarinnar ásamt því að koma til móts við vaxandi þörf við menningartengda ferðamennsku. Mikil ásókn hefur verið á viðkvæm svæði í Skaftárhreppi og mikið í húfi að dreifa álagi vegna heimsókna ferðamanna. Við viljum koma á slow travelling, að fólk fari svolítið djúpt í söguna frekar en að þeysast um allt og taka selfies,“ segir Vera.
„Það er ekkert safn á svæðinu fyrir fólk að sækja. Við viljum auka menningartengda ferðaþjónustu á veturna sérstaklega,“ segir Lilja.
Og Vera bætir við að núna geti fólk keyrt í gegnum sýsluna og það sjái ekkert sem segi að þessir atburðir hafi átt sér stað.