Þórunn Gísladóttir var fædd að Ytri-Ásum í Skaftártungu í Vestur-Skaftafellssýslu árið 1846. Hún var af mikilli ljósmóður- og grasalæknaætt. Hún giftist Filippusi Stefánssyni sem var bóndi og góður silfursmiður og bjuggu þau í Kálfafellskoti í Fljótshverfi í Vestur-Skaftafellssýslu þar sem Filippus hafði alist upp, á Austurlandi og loks í Reykjavík. Þórunn var ljósmóðir en stundaði einnig grasalækningar og var oftast nefnd Þórunn grasakona en móður hennar var Grasa-Þórunn en um hana spunnust margar þjóðsögur.
Ljósmóðir og læknir
Þórunn lærði ljóðmóðurfræði hjá Oddi Johnsen, lækni í Odda, og tók þaðan próf 1870. Líklega hefur Þórunn fengið áhugann á ljósmóðurstarfinu í gegnum móður sína en hún var yfirsetukona og var sagt að aldrei hefði þurft að kalla til lækni þegar hún var að störfum. Þórunn hóf ljósmóðurstörf í Fljótshverfi og á Austur-Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu en svæðið var mjög erfitt yfirferðar, eldvötn, sandar o.fl. sem þurfti að fara yfir. En Þórunni var ekki fisjað saman, hún lærði að lesa í vötnin, sem hún sundreið á hesti, og umhverfið og fór um svæðið í öllum veðrum og aðstæðum. Hún starfaði sem ljósmóðir í 20 ár og við grasalækningar meðan heilsan leyfði. Þórunn sótti um leyfi til að nota fæðingartangir en fékk ekki á þeim forsendum að slíkar tangir tíðkuðust hvergi í danska ríkinu. Hún notaðist við silkiklút t.d. til að snúa börnum sem sátu vitlaust í móðurkviði og notaðist einnig við grasalækningar í ljósmóðurstörfunum taldi hún þess þurfa.
Læknislaust var í héraði Þórunnar, og raunar afskekktum héruðum í Vestur-Skaftafellssýslu, þegar hún bjó þar og kom það í verkahring hennar að annast læknisstörf þar en hún hafði óopinbert lækningaleyfi yfirvalda og Schierbeck landlæknis sem sendi henni lyf og sýnir það traustið sem borið var til hennar. Það var ekki það eina sem Schierbeck sendi. Hann sendi henni matjurtafræ en Þórunn var mikið fyrir garðrækt, ræktaði kál og hún var einnig frumkvöðull í kartöflurækt. Skipströnd í Skaftafellssýslum færðu fólki margt og þannig hóf Þórunn sína ræktun þegar hún fékk kartöflur úr franskri skútu sem strandaði við strendur Vestur-Skaftafellssýslu. Þá ræktaði hún einnig kál og aðrar matjurtir.
Þórunn og Filippus, maður hennar, bjuggu í um 30 ár í Kálfafellskoti og eignuðust 14 börn. Níu barnanna komust á legg. Laun Þórunnar voru afar lág, eins og gilti um ljósmæður þess tíma. Jörðin í Kálfafellskoti var ekki stór, einhver hlunnindi voru þó eins og lax í ám, en við það bættist að erlend skip sóttu á miðin við strendurnar þar sem mikil matarkista var og fólkið sem þarna bjó í sveitunum hafði ekki skipakostinn til að fara eftir fiski. Árið 1882 varð mikill fjárfellir og grasleysi á landinu auk þess sem fleira olli erfiðleikum eins og mislingafaraldur en þau hjón misstu dóttur sína Jóhönnu í honum.
Afkoma fólks var erfið og gilti það einnig um Þórunni og Filippus. Þau afréðu því að flytja á Austfirði, nánar tiltekið að Ormsstöðum í Eiðaþingi á Fljótdalshéraði árið 1897 í von um betra líf. Fjórir synir þeirra hjóna fóru á undan til að reka féð, tveir um fermingu og hinir tveir rúmlega tvítugir og voru upp frá því kallaðir Brúnavíkurbræðurnir. Árið 1897 hófust flutningarnir yfir heiðar, ár og dali og þeir komust á Austfirðina án þess að missa fé. Þegar komið var að Ormsstöðum kom í ljós að jörðinni hafði verið lofað til annars bónda og urðu hjónin því að selja allt fé og fara í lausamennsku. Í henni voru þau þar til þau gátu keypt jörðina Brúnavík í Borgarfirði eystra tveimur árum eftir komuna á Austfirði. Þar var fjölskyldan um nokkurt skeið þar sem Þórunn sinnti grasalækningum en flutti þá til Seyðisfjarðar og loks til Reykjavíkur.
Læknaði og bjargaði börnum
Þórunn mun hafa eignast a.m.k. tvær bækur um lækningagrös, Grasanytjar síra Björns í Sauðlauksdal og Grasafræði Hjaltalíns en í bókunum er getið allra helstu íslenskra lækningagrasa. Þórunn gerði margs konar smyrsl úr grösum sem hún setti á slæm sár og græddi og hún gerði líka meðöl úr grösunum. Ýmsar sögur eru til að afrekum Þórunnar bæði sem ljósmóður og sem grasalæknis. Þórunn var farsæl í starfi, hún var síkvik og dugleg og næm í störfum sínum. Það var ekki hún sem kallaði til lækni, það voru læknarnir sem sendu eftir henni til ef illa gekk og þekkingu þeirra þraut.
Þórunn var eitt sinn kölluð til þar sem konu gekk illa að fæða og sneri barnið öfugt í móðurkviði. Þegar hún kom til konunnar, bað læknirinn hana að taka við því nú gæti hann ekki meira: „Nú skalt þú taka við, Þórunn mín. Ef þú getur eitthvað gert, skaltu gera það,“ sagði hann. Þórunn greip til þess ráðs að leggja silkiklút yfir höfuð barnsins og gat með þessu snúið því. Fæðingin gekk vel eftir það.
Árið 1912 var fjölskyldan í Vestmannaeyjum. Gissur sonur Þórunnar og Filippusar var þá að vinna við vélsmíði. Svo vildi til þegar hann varað vinna við vél í mótorbáti að eldur blossaði skyndilega upp sem læsti sig í fatnað Gissurar. Þá voru góð ráð dýr. Læknir var kallaður strax til en hann gaf litlar eða engar vonir um bata Gissurar. Þórunn reiddist, rak hann á dyr og tók til sinna ráða. Hún hafði tæki og tól í jurtasmyrslum sínum og með þeim græddi hún sár sonar síns næstu vikurnar þar til hann öðlaðist bata. Sárin gréru á tveimur mánuðum.
Jóhanna Jóhannsdóttir á Seyðisfirði segir á einum stað frá vinkonu sinni sem hafði lengi verið veik af brjósthimnubólgu árið 1916. Hún hafði leitað lækninga í Reykjavík en ekki gengið betur en svo að hún var orðin rúmliggjandi. Þórunn var þá á Seyðisfirði og var kölluð til að skoða sjúklinginn. Hún reyndi brunabakstur á hina veiku. Vinkonan segist hafa heimsótt hina veiku daglega og því getað fylgst vel með störfum Þórunnar. Hún vatt hreint léreftsstykki upp úr steinolíu og lagði á sárin og síðan sjúkradúk og loks rekkjuvoð. Sjúklingurinn var látinn liggja með þetta í fjórar klukkustundir þar til brunaverkurinn var farinn og liggja áfram í góða stund. Þá voru umbúðirnar teknar og voru þær með gulum vessum eftir sárin. Síðan voru græðismyrsl borin á sem Þórunn hafði gert úr jurtafeiti, vallhumli og jurt sem þurrkar upp vessa. Léreftsdúkur vættur í fljótandi ylvolgum smyrslum var lagður yfir sárin og aftur sjúkrahreinn dúkur þar yfir og loks rekkjuvoð sem vafið var um sjúklinginn. Þetta var gert í nokkra daga og náði sjúklingurinn bata þá. Þórunni leið vel á Seyðisfirði enda var stutt í grösin í fjallinu Bjólfi.
Sjúklingar Þórunnar drukku að hennar fyrirmælum jurtaseyði daglega og hún var ávallt boðin og búin að hjálpa og tók ekkert fyrir þar sem fólki hafi lítið á milli handanna, aðalatriði fyrir henni var að hjálpa. Hún lá ekki á þekkingu sinni heldur miðlaði henni og kenndi fólki m.a. að búa til grasaöl en í því voru soðnar og vel þvegnar jurtir og var seyðið látið geymast í 2 vikur áður en það var drukkið.
Þórunn lést 19. júlí 1937, 92 ára að aldri eftir farsælt og gjöfult ævistarf. Hún var trúuð kona og þótti draumspök. Það kemur á óvart að sumu leyti en ekki öllu, því vel hefði mátt máta Þórunni í karlmannsföt, að hún lýsti því yfir í viðtali sem öldruð kona að sig hefði langað til að gerast sjómaður en Þórunn fór á sjó á unglingsárum og var formaður eina vorvertíð. Óhætt er að segja að Þórunn hafi farið langt út fyrir ramma hinna hefðbundnu kvennastarfa og er saga þessarar fíngerðu dugmiklu konu merkileg fyrir margra hluta sakir. Arfleifð þekkingar Þórunnar á lækningajurtum hefur haldist hjá afkomendum. Þekktust eru Erlingur Filippusson og Ásta grasalæknir og er einnig talað um Grasaættina þegar vísað er til afkomenda Þórunnar.
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.