Leikkonan Gena Rowlands lést 14. ágúst síðastliðinn. Hún var níutíu og fjögurra ára gömul og þjáðist af alzheimer. Sonur hennar og leikstjórans John Cassavetes, Nick, tilkynnti andlátið. Á ferlinum lék Gena iðulega í kvikmyndum fyrrum manns síns, sterkar konur í leit að ást þar sem þær yrðu metnar jafningjar elskhugans. Hún þótti óskaplega falleg en ólíkt mörgum samtíðakonum sínum var hún aldrei stimpluð kyntákn. Hlutverkaval hennar hafði mest með það að gera.
Gena vann þrenn Emmy-verðlaun og tvo Gullna hnetti en þótt hún hafi verið tilnefnd til Óskarsverðlauna tvisvar sinnum vann hún þau ekki á meira en sextíu ára ferli í kvikmyndum. Yngri kynslóðin minnist hennar helst fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Notebook, þar sem henni var leikstýrt af syni sínum Nick, muna þeir sem eldri eru eftir henni úr þáttunum um Columbo lögregluforingja og ekki síst úr myndum Johns Cassavetes meðal annars, Faces, Opening Night, Gloria, Woman under the Influence. Eftir henni var einnig tekið í kvikmyndinni Strangers þar sem hún lék á móti Bette Davis.
Kannski má segja að það sé kaldhæðnislegt að Gena hafi túlkað konu langt leidda af alzheimer í The Notebook því hún glímdi sjálf við elliglöp síðustu fimm árin. Nick sonur hennar sagði í viðtali við tímaritið People að þegar hann leikstýrði henni í myndinni hafi þau talað mikið um þennan erfiða sjúkdóm. Hún hafi viljað ná fram fínustu blæbrigðum þess hvernig viðbrögð alzheimers-sjúklinga væru til að geta skilað eins einlægum leik og hægt væri.
Hikaði ekki við að leika smáhlutverk
Virginia Cathryn Rowlands fæddist 19. júní árið 1930. Foreldrar hennar voru Mary Ellen og Edwin Myrwyn og þau voru búsett í Wisconsin. Hún lauk prófi frá Wisconsin-háskóla og hélt síðan til New York í leiklistarnám í The American Academy of Dramatic Arts. Hún kynntist John meðan hún var enn í námi og þau giftu sig árið 1954. Alls áttu þau eftir að gera tíu kvikmyndir saman en Gena tók einnig að sér hlutverk í kvikmyndum annarra leikstjóra. Þrátt fyrir að njóta virðingar í Hollywood var hún ein þeirra sem hikaði ekki við að taka að sér smáhlutverk og hún vann í sjónvarpi og á sviði þegar það bauðst. Meðal annars kom hún fram í þáttunum NCIS og Monk. Hún vann allt þar til sjúkdómur hennar fór að há henni en síðasta hlutverk hennar var í kvikmyndinni Unfortunate Circumstance árið 2017.
Hún þótti einkar góð í sýna viðkvæmni sterkra persónuleika og iðulega lék konur í leit að betra lífi, ást og viðurkenningu. Hjónaband hennar og Johns varði í þrjátíu og fimm ár og eftir því var tekið hversu gott samband þeirra var ætíð. Þau áttu þrjú börn saman, Zoe, Alexöndru (Xan) og Nick. Þau unnu mikið saman og John leitaði oft ráða hjá henni þegar hann var að vinna að kvikmyndum. Hún hefur sjálf lýst því í viðtölum hversu mjög hún naut þess að leika og hversu heillandi henni finnist allar hliðar kvikmyndagerðar. John lést árið 1989.
Margir hafa borið Genu saman við Bette Davis og sagt að hún hafi sama hæfileika og hún til að sýna allan tilfinningaskalann og gera persónur trúverðugar. Þær léku báðar konur að glíma við sterkar ástríður og andleg veikindi og gerðu þeim einstaklega góð skil. Meðan samtíðakonur hennar, Faye Dunaway, Jane Fonda og Diane Keaton stigu allar sín fyrstu skref sem kyntákn og konur í veröld karla fór Gena ævinlega eigin leiðir og kannski þess vegna var hún aldrei eins framarlega í sviðsljósinu og þær.
Tveimur árum eftir lát Johns tók Gena saman Robert Forrest kaupsýslumann. Hann var mikill vinur þeirra hjóna og þau þekktust mjög vel. Þau giftu sig árið 2012 og hann, ásamt börnum hennar, sat við dánarbeð hennar þann 14. ágúst síðastliðinn.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.