Ótal margt hent sem enginn myndi trúa

Hjónin, Steinunn E. Jónsdóttir og Sigmundur M. Andrésson hafa siglt um nánast öllheimsins höf og heimsótt allar álfur nema Suðurskautslandið. Flestir teldu nú að varla myndi þeim endast ævin til að fara svo víða en þau hafa ekki eingöngu flogið út í heim heldur einnig kannað nánast hvern fermetra á Íslandi. Sigmundur hefur starfað sem fararstjóri um árabil á vegum ýmissa ferðaskrifstofa um allan heim ásamt Steinunni. Þau hljóta að hafa frá mörgu að segja og séð margt áhugavert.

Steinunn og Sigmundur við Taj Mahal á Indlandi.

Hafið þið starfað lengi við fararstjórn? „Ég get nú ekki sagt það,“ segir Sigmundur. „Eftir sameiningu Samvinnuferða og Landsýnar tók ég við bókhaldi og fjármálum. Þá kynntist ég fyrst þessum bransa en fór svo í annað, verksmiðjurekstur og fleira. Ég ætlaði aldrei út í ferðabransann en það var Ingólfur Guðbrandsson sem var valdur að því.“

„Já, þetta hófst allt þegar við fórum í hnattferð á Suðurhveli með Ingólfi Guðbrandssyni árið 1998,“ segir Steinunn.

„Ég fór töluvert að hjálpa gamla manninum,“ heldur maður hennar áfram. „Ég fann til með honum. Hann var orðinn gamall. Það var ekki vel þegið svona til að byrja með. Hann vildi ekki að borgandi farþegi væri að vesenast í hlutunum en svo breyttist það. Fyrir dyrum stóð svo ein af þessum megaferðum hans til Suður-Afríku og hann hringir í mig og spyr hvort ég vilji ekki vera fararstjóri. Hann hafi ekkert fólk á sínum snærum sem hafi komið til Suður-Afríku. Við vorum búin að vera þar í þessari ferð. Ég sagði honum að ég hefði ekkert í það. Ég hafði aldrei spáð í fararstjórn. Hann þagði smástund og sagði svo: „Þú veist ekkert um það. Ég veit það.“ Og það var byrjunin, ég sló til.“

Við Angkor Wat í Kambódíu.

Fyrsta ævintýraferðin 1982

Höfðuð þið þá farið margar ævintýraferðir áður en að þessu kom? „Við vorum búin að flakka víða en fyrsta ævintýraferðin okkar var árið 1982,“ segir Sigmundur. „Ég hef í gegnum árin kennt svifflug og flug meðfram annarri vinnu. Ég fór aldrei út í þetta sjálfur en fannst gott að hafa aukavinnu sem var gerólík skrifstofuvinnunni. Á þeim árum var ekki gott að fá vinnu í fluginu hér og menn fóru fyrst til flugfélaganna sem siglingafræðingar, yfir sumartímann í einhver ár. Síðan fengu þeir að setjast í  aðstoðarflugmannsstólinn og voru ráðnir að vori og reknir að hausti. Ég nennti ekki að vera í þeirri stöðu, var í ágætisstarfi, ætlaði aldrei í atvinnuflugmannsprófið en var kominn með tímana og skellti mér í prófið. Svona eins og ég geri marga hluti og svo beint á eftir því í kennaraprófið. Ég kenndi í mörg ár atvinnumönnum sem ekki fóru svo glatt í vinnu hér en réðu sig til Cargolux í Lúxemborg þegar það var stofnað. Þessir kunningjar mínir buðu okkur að fljúga með Cargolux og við fórum til Taipei.“

Ha Long Bay í Víetnam.

Hittu óvænt frænku í Bangkok

Þau komust fljótt að því Vesturlandabúar voru sjaldséðir í Taipei á þessum árum og enginn talaði annað mál en kínversku. Þeim tókst engu að síður að klóra sig fram úr öllu og heimsóknin var lærdómsrík.

„Við fórum svo þaðan til Hong Kong og frá Hong Kong til Bangkok og þaðan til Singapore,“ bætir Steinunn við. „Þetta var mikil upplifun.“

Í Bangkok stoppuðu þau allsendis óvænt lengur en til stóð. Þar sannaðist rækilega að Íslendingar eru alls staðar.

„Við stóðum í röð og vorum að bíða eftir að komast að á sýningu. Þá heyrum við allt í einu fyrir aftan okkur: „Nei, Íslendingar!“ Þetta var fyrir þá tíma að Íslendingar væru farnir að fara til Tælands. Ég leit við fékk heldur betur nikk frá konunni minni þegar ég spurði: „Hverra manna ert þú góða mín?“ Ég þekkti svipinn. Þetta var náfrænka mín sem ég vissi varla að væri til. Við vorum kyrrsett í Bangkok til að vera gestir hjá henni og þetta var ægilega gaman.“

Pagóða í Myanmar

„Já, það er mjög sterkur ættarsvipur í þessari fjölskyldu,“ heldur Steinunn áfram. „Við hittum hana á miðvikudegi en áttum flug til Singapore á laugardegi. Hún sagði okkur að breyta bara miðanum. Hjá henni voru gestir frá Englandi sem hún keyrði út á flugvöll klukkan sex þennan dag og kom svo að sækja okkur klukkan sjö. Hálfur dagurinn fór í að breyta farseðlunum en við áttum yndislegt kvöld og daga með henni. Hún á þrjú börn og yngsta barnið var heima en synir þeirra komnir í framhaldsnám til Bandaríkjanna. Þau höfðu búið um árabil á Englandi og víða um Asíu. Maðurinn hennar er olíuverkfræðingur og var bara sendur á vegum vinnunnar þangað sem hans var þörf. Ég spurði hana hvað börnunum hennar fyndist um að vera alltaf að flytjast milli landa, skipta um skóla og vini. Hún leit á mig og svaraði: „Veistu, ég hef bara aldrei spurt þau að því? Þetta er bara okkar líf. Annað hvort erum við saman sem fjölskylda eða ekki.“ Mér fannst þetta svolítið sniðugt svar hjá henni.“

Erg Chebbi eyðimörkin í Marokkó.

Með bílinn og tjaldvagn í handfarangri

Varð þetta til þess að þið fenguð einhverja bakteríu? „Algjörlega, maður bara smitaðist,“ segir Sigmundur. „Við höfum ferðast mjög mikið um Evrópu bara tvö eða með vinahjónum. Ég geri stundum grín að því að ég sé líklega eini Íslendingurinn sem hefur ferðast til Evrópu með bílinn minn og tjaldvagninn í handfarangri. Það var aftur gegnum flugið. Við vorum úti á flugvelli að gera við tjaldvagninn áður en við fórum. Við höfðum pantað far með Eimskip fyrir bílinn en þá var Íscargo-vél stödd á flugvellinum og einn yfirmaðurinn, kunningi okkar, kemur til okkar þar sem við erum að vinna og segir: „Þið verðið aldrei búnir með tjaldvagninn tímalega fyrir brottför skipsins. Við tökum hann bara fyrir ykkur. Við erum með tóma vélina.“ Ég leit á hann og spurði: „Viltu ekki taka bílinn líka?“ „Ja, það væri nú gaman að sjá hvort hann kemst inn,“ svaraði hann og bíllinn komst inn og það er jú handfarangurinn sem er aftur í. Það var alveg frábært að keyra frá flugvellinum í Rotterdam. Vélin missti einn mótorinn fyrir lendingu, slíkt gerðist.“

Skarfafiskimaður í Kína.

Steinunn lauk prófi frá Kvennaskólanum og Sigmundur Verzlunarskólaprófi. Hún hóf störf hjá Sambandinu, bæði unnu í banka um tíma en lengst af vann Sigmundur í Seðlabankanum. Steinunn vann einnig hjá Sveini Egilssyni en lauk formlegum starfsferli hjá Bandalagi íslenskra farfugla. Þau keyptu Max, Vinnufatagerð Íslands, Angórufatnað og nokkur fleiri minni fyrirtæki sem þau sameinuðu og ráku. Að sögn Sigmundar gekk það vel þótt rekstur þessara litlu eininga hafi verið erfiður gekk það betur þegar þau voru öll komin saman undir einn hatt. Þau seldu fyrirtækið fyrir aldamótin og þá hófst ferill í fararstjórn.

„Ég tók aldrei ferðir á sumrin því ég ætlaði að vera heima báða góðu dagana sem gæfust, segir Sigmundur og hlær við.

„Ég segi stundum að hann þekki hverja þúfu hér á landi,“ segir Steinunn. „Við höfum farið um allt hálendið. Stundum settist hann upp í húsbílinn og ég í jeppann. Svo var keyrt þangað sem vegurinn endar og húsbílnum lagt. Hann kom svo yfir og við keyrðum á jeppanum um slóðana sem tóku við.“

Hjá Himb-þjóðflokknum í Namibíu. Steinunn og Sigmundur segja Afríkubúa óvenjulega hlýlegt fólk.

Lúxusleiðina til Afríku

Í vor fóru þau í hópi farþega í einstaka ferð um sunnanverða Afríku. Suður-Afríka, Namibía, Botswana og Zimbabwe voru heimsótt og þar er einstök náttúrufegurð.

„Í staðinn fyrir að fara þessa venjulegu leið gegnum London með British Airways fórum við lúxusleiðina með Emirates frá Ósló í gegnum Dubai og vorum þrjá daga í Dubai í bakaleiðinni,“ segir Sigmundur. „Við þekktum bæði Dubai og Suður-Afríku mjög vel en hin löndin voru ný fyrir okkur.“

„Það er svo merkilegt hvernig tilviljanirnar gerast,“ segir Steinunn. „Við erum í gönguhóp og í fyrra vor, þ.e. fyrir rúmu ári, vorum við á göngu og það var svo mikil rigningin að einn úr hópnum bauð okkur inn heima hjá sér í kaffi. Hann fer svo að segja mér frá því að systursonur konunnar hans hafi farið með mömmu sína í ferð til Namibíu og Botswana. Sá maður býr hálft árið í Suður-Afríku. Ég segi: „Oh, hann Sigmundur minn er búinn að þrá í mörg ár að komast til Zimbabwe og Botswana.“ Hann leit á mig og svaraði: „Við látum hann bara útbúa ferð fyrir okkur og förum þangað.““

Sigmundur flaug í loftbelg yfir eyðimörkina í Namibíu. Steinunn kaus að bíða á jörðu niðri.

Afríka engu lík

 Og það varð úr en merkilegt nokk reyndist ferðin Sigmundi auðveld, því hann hafði áður skipulagt ferð um Namibíu, Botswana og Zimbabwe sem hætt var við á síðustu stundu. Grunnurinn var því kominn og lítið mál að bæta einu landi við.

„Alveg stórkostleg ferð,“ segir Steinunn. „Við fórum þarna til þriggja ættbálka og þetta var einstakt. Fólkið einhvern veginn umvafði mann.“

Sólsetur í Botswana

„Afríka er engu lík. Hún er held ég í mestu uppáhaldi hjá mér af álfum heimsins. Afríkufólkið er svo hlýtt og notalegt. Það hefur svo góða nærveru og svo gott að vera í kringum það. En maður verður að nálgast það á sömu forsendum sýna sama viðmót á móti,“ segir Sigmundur. „Við áttum von á því í Namibíu að vera ekki vinsæl, verandi Íslendingar, en það var þvert á móti. Við heyrðum það, okkur til undrunar, á einum þremur stöðum að Namibíumenn séu okkur þakklátir fyrir að koma af stað umræðunni um spillinguna sem enginn þorir að tala um þar í landi. Ég fór að athuga betur hvað væri á spýtunni. Þá eru Kínverjarnir komnir þarna inn farnir að byggja vegi og kaupa námur. Eru bara að gleypa þá og spillingin heldur áfram. En nú er þjóðin komin með aðra vitund og farin að rísa upp og berjast við spillinguna og þakkar Íslendingum það. Þetta var alveg óvænt. Allir voru líka ánægðir með þróunarhjálpina meðan hún var.“

Kínamúrinn, eitt af sjö undrum veraldar.

Annar andi í Botswana

Þetta þróast út í umræður um stjórnmál Afríku og Sigmundur reynist margfróður um allt er að þeim lýtur en einnig gjörþekkir hann landslagið og hagi landanna.

„Botswana er meira en eyðimörk, þar er svakalegt vatnasvæði,“ segir hann. „Þarna er um 1.000 metra hæð yfir sjó og þangað renna ár sem eiga sinn endi þar. Þarna eru 16.000 ferkílómetrar árósar uppi í fjöllunum. Þar eiga dýrin í milljónatali leið um tvisvar á  ári og dýrin sem við erum vön að sjá á sléttum og í skógi eru þarna mikið í vatni. Þar og í Namibíu sér maður líka gresjudýr í eyðimörk.“

„Mér fannst afskaplega lítinn gróður að sjá í Namibíu,“ segir Steinunn, „en það er allt annað í Zimbabwe. Við stoppuðum að vísu ekki lengi þar. Fórum að Viktoríufossunum og það var stórkostlegt. En við höfum séð fallegri fossa. Iguazu á landamærum Argentínu og Brasilíu. 275 fallegir fossar, stærsta fossakerfi í heimi. Þeir eru dreifðir yfir stórt svæði. Það var samt, guð minn góður, stórkostlegt að sjá Viktoríufossana.“

„Gallinn við Viktoríufossana er að þeir renna í svo þröngu gljúfri að stundum fyllir úði gljúfrið og ekki sést nema lítill hluti fossana. En ég fór í þyrlu,“ segir hann. „Ég náði að mynda þá þannig. Ég fór líka í loftbelg yfir eyðimörkina í Namibíu. Ég lít á allt sem tækifæri.“

Gardner Bay á Galapagos.

Ólík en bæta hvort annað upp

Sigmundur hikar ekkert við að taka óhefðbundna ferðamáta þegar þeir bjóðast og sækist kannski eftir þeim frekar en hitt. Fyrsta þyrluferðin hans var út í Surtsey meðan hún gaus. Hann fékk leyfi frá Rannsóknarráði til að fara þangað út og mynda. Hann gisti eina nótt í eynni og er þar með komin í tölu örfárra manna í heiminum sem hafa gist þar. Steinunn heldur sig til baka og bíður þegar þannig upplifanir eru á döfinni.

„Ég var bara í rólegheitum,“ segir hún. „Ég er ekki ævintýragjörn. Ég ætlaði ekki að taka neina áhættu. Ég hefði aldrei trúað að maður ætti eftir að lifa svona lífi. En svo var ég svo ljónheppin að eignast svona mann sem hvetur mig. Ég er góð þegar ég er komin af stað en ég er stundum sein af stað.“

„Við erum ólík,“ bætir hann við. „En bætum hvort annað upp,“ segir hún þá og þau horfast ástúðlega í augu.

Nefapi á Borneó.

Því hrifnari af Íslandi því víðar sem farið er

Og svo sannarlega hefur hann dregið hana víða. Þau hafa siglt um öll heimsins höf að Suður-Íshafinu undanskildu og heimsótt ótal ríki. Sigmundur segir gamla Sovíetið það stærsta sem eftir sé. Þau eru líka mjög hrifin af nágrannalöndum okkar Færeyjum og Grænlandi.

„Því meira sem ég ferðast því hrifnari er ég af eigin landi og nýt þess meira að ferðast hér heima,“ segir Sigmundur. „Allar upplifanir á ferðalögum eru gríðarlega mikilvægar. Fólk sem kýs að ferðast til framandi og fjarlægra landa eru farþegar sem njóta þess að skoða sig um í heiminum. Við höfum alltaf verið með mjög ánægða farþega og þetta er gefandi vinna.“

„Að hafa séð heiminn og kynnst þessum stöðum sem við höfum farið til skilur mikið eftir,“ segir Steinunn. „Að hafa farið til Taj Mahal og séð grafhýsið eigin augum er ógleymanlegt og margt fleira sambærilegt.“

„Til dæmis að hafa komið í kínverska þjóðminjasafnið í Taipei, sem Chiang Kai-shek tók með sér þangað frá Peking. Þar sáum við þann fræga fílabeinsturn, sem oft er vitnað í, það tók þúsund mannár að byggja hann. Mig langaði að sýna farþegum hann þegar ég fór þangað fararstjóri seinna. Ég spurði hvar fílabeinsturninn væri og svarið var: „Við lánuðum hann til Kína.“ Þeir voru þvingaðir til þess og fá hann sennilega aldrei til baka.“

Steinunn við leirhermennina í Xian í Kína.

Ótrúlega heppin

Þau segjast hafa verið ótrúlega heppin á öllum sínum ferðum. Aldrei lent í vandræðum sem ekki hafa verið leyst.

„Meira að segja með alla þessa farþega og þennan stóra hóp sem við höfum haft í kringum okkur, því við fórum stundum 5-6 ferðir á ári,“ segir Steinunn. „Aldrei nein stór vandamál. Við erum með fólk sem ferðast af gleði.“

Eitt sinn lét þó nærri að illa færi. Innlendur leiðsögumaður í Suður-Afríku reyndist ekki starfi sínu vaxinn og ýmislegt hafði farið úrskeiðis hjá þeim sem áttu að panta fyrir þau staði og ferðir. Sigmundur beitti einfaldlega persónutöfrum sínum og bauðst til að hjálpa við að leggja á borð ef það liðkaði fyrir máltíð á þekktum fiskiveitingastað. Honum tókst einnig að fá fyrir þau ferð í Cango-hellana þótt það ætti alls ekki að vera hægt þar sem pöntunin kom ekki fram.

Sossusvlei í Namibíu.

„Við fengum leiðsögumann sem reyndist vera söngvari líka. Hann fór með okkur í fjóra hella, lengra inn en venja er og þegar við komum að stað í hellunum þar sem er alveg hvítt og á einum stað dálítill stór kinn mjólkurlit og gagnsæ. Hann gengur þarna að trommar þarna á og syngur fyrir okkur. Ótal hlutir hafa hent okkur sem þótt maður væri að í milljón ár myndi maður ekki trúa. Við höfum reynt í hverri ferð að skipuleggja eina óvænta uppákomu sem enginn veit af. Í einni ferð vorum við í Jaipur í Indlandi og maharajinn sem réði þar fyrrum átti nokkrar konur en eina uppáhalds. Hann hafði byggt fyrir hana höll og þar er rekið 5 stjörnu hótel í dag.

Ég fékk bílstjórann til að keyra okkur þangað niður eftir og pantaði fyrir okkur mat með skemmtiatriðum í hallargarðinum. Það byrjar á því að þeir koma á fílum og úlföldum tóku okkur á móti okkur í rauðu búningunum sínum og með túrbana. Við fengum svo að skoða höllina og borðuðum síðan í garðinum. Þar voru flott skemmtiatriði og svo endaði með flugeldasýningu. Á Indlandi er það þannig að rafmagnið er afskaplega óáreiðanlegur hlutur og fer oft af. Maðurinn gengur að flugeldunum og tendrar og um leið fer rafmagnið af milljónaborginni og við fengum prívat show þarna þar sem flugeldarnir nutu sín í botn. Ein konan gekk til mín og spurði: „Hvernig fórstu að þessu?“. Mitt viðhorf hefur alltaf verið það að ég er að vinna fyrir ferðaskrifstofu en hún er ekki í fyrsta sæti. Það er fólkið í ferðinni en með því set ég ferðaskrifstofuna í fyrsta sæti, segir Sigmundur en það er kominn tími til að kveðja þessi víðförulu hjón.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 10, 2024 07:00