6 góðar ástæður til að breyta erfðaskránni

Margir telja óþarft að gera erfðaskrá. Þeir eiga ekki miklar eignir og það liggur ljóst fyrir hverjir erfingjar þeirra eru. En þó að svo sé geta ótrúlegustu flækjur skapast og það er alltaf góður siður að skilja þannig við að vilji manns sé skýr og ekki skapist leiðindi vegna þess að svo er ekki. Hins vegar er ekki nóg að gera bara erfðaskrá. Hana þarf að uppfæra verði breytingar á lífi fólks og hér kom sex góðar ástæður til að endurskoða erfðaskrána.

1. Breyting á fjölskylduhögum

Ef fólk skilur þarf það að huga að erfðaskrá sinni hafi hjón gert sameiginlega erfðaskrá. Skilnaðartíðni er lægri meðal eldra fólks en yngra en þeir samt til. Í sumum tilfellum finnur fólk svo nýjan maka og þá þarf aftur að uppfæra erfðaskrá sína. Hið sama gildir ef einhver nákominn fellur frá sem hefur verið meðal erfingja eða nýr fjölskyldumeðlimur bætist við.

2.Líf einhverra erfingja þinna breytist til muna

Ef einhver erfingja þinna gerir miklar breytingar á lífi sínu kann að vera nauðsynlegt fyrir þig að breyta erfðaskránni. Foreldrar geta gert erfðaskrá sem tryggir að arfur þeirra verði einkaeign barna þeirra, þ.e. verði ekki hjúskapareign sem börnin deila með maka sínum. Eins kann að vera að einhver veikist eða lendi í erfiðleikum sem gera það að verkum að þú teljir viðkomandi þurfa á að halda meiri arfi eða einhvers konar stuðningi.

3. Skipt um húsnæði

Margir minnka við sig húsnæði þegar þeir eru komnir á efri ár og minnka við sig. Hugsanlega miðast erfðaskráin við fyrri eign. Ef fólk hefur kosið að kaupa sér eign í öðru landi til að njóta betra veðurfars þarf að kynna sér lög þess lands hvað erfðir varðar og hvort eða hvernig ganga þarf frá því að þínir erfingjar geti gengið að þeirri eign.

4. Eignir þínar aukast eða rýrna

Ef eignir fólks aukast eða rýrna þarf að taka tillit til þess í erfðaskrá og aðlaga hana að breyttri fjárhagsstöðu.

5. Skipt um skoðun varðandi einhvern tiltekinn hlut

Þótt þú hafir ánafnað einhverjum erfingja þínum einhverjum tilteknum hlut í erfðaskrá þýðir það ekki að þú getir ekki skipt um skoðun. Ef sú staða kemur upp að þér finnist sá hlutur eiga betur heima hjá öðrum er þér frjálst að breyta erfðaskránni til að tryggja að hann lendi á réttum stað.

6. Þú hefur ekki skoðað erfðaskrána árum saman

Jafnvel þótt engar stórar breytingar hafi orðið á lífi þínu eða erfingja þinna ættir þú að lesa erfðaskrána reglulega og rifja upp hvernig þú skiptir eignum þínum. Margt gleymist og það er einnig gott að vera viss um að allt sé skýrt og ekkert rúm fyrir vafa um hver vilji þinn er.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 25, 2024 07:00