Tengdar greinar

Að hrapa að ályktunum kann ekki góðri lukku að stýra

Sjónvarpsþættirnir Disclaimer hafa verið sýndir undanfarið á Apple TV+. Það er Alfonso Cuarón sem leikstýrir og líkt og aðdáendur hans þekkja er við að búast frumlegum og afburðavel unnum þáttum. Söguþráðurinn flókinn og spennandi og leikur aðalleikaranna frábær, enda ekki neinir byrjendur hér á ferð, Cate Blanchett, Kevin Kline. Lesley Manville og Sacha Baron Cohen.

Cate Blancett leikur heimildakvikmyndagerðarkonuna, Catherine Ravenscroft. Hún hefur nýlega fengið verðlaun fyrir vinnu sína, er í hjónabandi með kaupsýslumanninum Robert. Sonur þeirra, Nick, er svolítill vingull og ekki alveg eins metnaðarfullur og foreldrar hans hefðu kannski óskað. Hann er þó í fastri vinnu og nýlega fluttur að heiman, eftir að móðir hans ýttu honum út. En þá kemur út bók, The Perfect Stranger. Höfundur hennar er skráður fyrrverandi kennari, Stephen Brigstocke.

Hann hefur nýlega verið neyddur til að hætta að vinna eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu í kennslustund. Hann er einmana, hefur misst bæði konu sína og son. Jonathan Brigstocke lést aðeins nítján ára gamall á ferðalagi á Ítalíu, drukknaði við að bjarga barni frá drukknun. Það eru tuttugu ár síðan en eiginkona Stephens jafnaði sig aldrei á sonarmissinum og eiginlega veslaðist upp. Í kjölfarið fer Stephen að fara í gegnum eigu konu sinnar og finnur handrit að skáldsögu sem hún hafði skrifað. Hann gerir sér strax grein fyrir að það er frásögn af hvernig dauða sonar þeirra bar að og byggir að miklu leyti á síðustu myndum hans. Þær eru allar af Catherine Ravenscroft og sumar þeirra ansi djarfar. Stephen ályktar rétt eins og kona hans að Cathrine hafi átt þátt í dauða sonar síns, einkum vegna þess að það var sonur hennar sem Jonathan bjargaði. Hann hefur úthugsaða og grimmdarlega hefndaraðgerð gagnvart henni og fyrsta skrefið er að gefa út bókina.

Illskan magnast

Smátt og smátt brotnar Cathrine niður og illska Stephens magnast en ekki minnkar. Í lokin verður hins vegar ljóst að ekki borgar sig að dæma bókina eftir kápunni og myndir segja ekki alltaf sannleikann. Það er mjög áhugavert hér hversu femínískt sjónarhorn Alfonsos er. Hann skrifar sjálfur handritið eftir skáldsögu Renée Knight og þótt þættirnir hafi fengið misjafna dóma gagnrýnenda eru áhorfendur hrifnir. Þótt samtölin séu vissulega stundum stíf og halda þau og draga upp trúverðuga mynd af persónum sem eru vissulega staðalmyndir á margan hátt en engu að síður eitthvað sem venjulegir áhorfendur geta tengt við. Þau Cathrine og Robert dæmigerðir efri stéttar Bretar sem halda í kurteisina og tilfinningabælinguna hvað sem á gengur.

Sagan er áhrifamikil og eftirminnileg. Hér leikur höfundur sér með það hvernig menn dæma konur ævinlega harðar en karla. Hversu auðvelt þeir eiga með að trúa verri hlutum um þær en karlmenn. Það er líka svo auðvelt að hrapa að ályktunum og gefa sér forsendur sem síðan reynast alls ekki til staðar. Það gleymist nefnilega oft að skoða frá hvers sjónarhorni sagan er sögð. Nei, einfaldasta skýring er ekki alltaf sú rétta og menn ættu ávallt að kann vel málið áður en þeir hefja vegferð sem eyðileggur orðspor annarra.  Þegar einu sinni er búið að ásaka manneskju um einhvers konar ávirðingar er ekki hægt að taka það til baka. Jafnvel þótt sakleysi þeirra sé sannað situr efinn ævinlega í sumum og aðrir vilja einfaldlega bara trúa hinu versta upp á aðra. Þessir þættir eru vel þess virði að horfa á. Leikurinn er frábær og þótt stundum séu þeir langdregnir halda þeir manni alveg.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 12, 2024 07:00