Innihald ljóðabókarinnar Veður í æðum eftir Ragnheiði Lárusdóttur er átakanlegt en um leið óskaplega fallegt. Ragnheiður lýsir því á meitlaðan hátt í ljóðunum hvernig það er að horfa á eftir barni sínu í fíknefnaneyslu og geta ekki rönd við reist. Hún segir líka frá því hvernig henni hefur tekist að lifa hryllinginn af en nú eru liðin 11 ár frá því þetta tímabil í lífi Ragnheiðar hófst. Hún heldur samt enn í vonina um að dóttir hennar nái bata. ,,Ég hef reynt að tala hátt, hrista hana og gráta en ég er hætt því núna,“ segir Ragnheiður. ,,Smám saman áttaði ég mig á því að ég var ekki að hjálpa henni með því að sökkva mér í sorgina. Það dugar nefnilega ekki bara að þrá að hjálpa þeim sem þarf augljóslega á hjálpinni að halda, sá sjúki þarf að vilja það sjálfur.“
Dóttir
flýr lífið
í brjósti sér
velur bjargsyllu
sem svefnstað
stýfir eitrið
úr hnefa
vakir sofandi
sefur vakandi
Barn í harðri neyslu
Ragnheiður segir að það sé undarleg tilfinning að eiga barn sem veikist af lífshættulegum fíknisjúkdómi, vitandi það að barnið búi yfir gífurlegum hæfileikum og getu. Fíkniefnin þurrki út allt sem heitir manneskja og eftir stendur tóm. ,,Sigurveig er búin að skrá sig í enn eina meðferðina á Vogi og við berum auðvitað öll þá von í brjósti að nú sé komið að því að hún átti sig. Ég hef svo oft orðið fyrir vonbrigðum að ég treysti auðvitað engu lengur en vonin er til staðar og hún er sterk. Þessi stelpa gat allt, hún lærði á píanó og kennarinn vildi gera hana að konsertpíanista því hún hefði allt í það, hún stundaði myndlist og var í MH þar sem námið gekk vel. Hún syngur auk þess eins og engill og var í Hamrahlíðarkórnum. Hún fór út úr sínum góða vinkvennahópi og fann þennan hóp sem kynnti eitrið fyrir henni. Við foreldrar hennar skildum um þetta leyti en það er ekki hægt að kenna því um. Hún var greinilega byrjuð á fikti áður og svo missti hún allt í einu tökin. Ég hef stundum hugsað að þetta hljóti að vera einhver karakterbrestur sem þurfi til svo að fólk gefi eftir fyrir svona hryllingi því það lenda auðvitað svo margir í því að foreldrarnir skilja án þess að missa tökin. Við höfum bæði verið til staðar fyrir hana allan tímann eins og við höfum getað en samt leitaði hún í þennan hræðilega heim.“
Í undirheimum
eins og Orfeus
leitar móðir
dóttur sinnar
í myrkri
meðal annarlegs fólks
í andlifun
líflausra efna
duft
sem gerir fólk
að dufti
Ættarsagan
Ragnheiður talar um að í sögu allra íslenskra fjölskyldna séu dæmi um gífurlega sorg sem hún trúi að geti borist á milli kynslóða. ,,Afi minn og amma misstu til dæmis þrjú börn og mér hefur fundist fygja þeirri fjölskyldu ákveðin sorg og mér hefur þótt ég finna þá sorg í sjálfri mér. Ég hugsaði með mér þegar ég var búin að eignast þrjú börn að nú væri ég búin að eignast sama fjölda barna og amma og afi misstu. Það er svo undarlegt að Sigurveig skuli hafa veikst svona alvarlega og ég fór á einhvern hátt að trúa því að í henni væri að koma fram öll þessi mikla sorg sem hún réði ekkert við. Þess vegna hafi hún leitað í þessi efni af því hún kunni ekki annað, eins ótrúlegt og það hljómar, en ég varð að finna einhverja skýringu.“
í forgörðum feigðar
horfir móðir
upp á himinháan mann
steytir hnefann
hrópandi
ég vil fá dóttur mína
þú ræður
engu
dóttirin að baki mannsins
lítur undan
Hefur skrifað sig frá erfiðleikum
Ragnheiður hefur skrifað alla ævi og á fullorðinsárum hefur hún notað þann hæfileika sinn til að skrifa sig frá erfiðleikum sem hafa mætt henni. Hún fékk Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handritið að fyrstu bók sinni 1900 og eitthvað 2020. Síðan hefur hún gefið út þrjár ljóðabækur, Glerflísakliður var önnur í röðinni en sú bók fjallar annars vegar um persónulega reynslu af skilnaðarsorg og hins vegar sorginni sem fylgir því að sjá móður sína hverfa inn í alzheimer-sjúkdóminn og deyja. ,,Ljóðin í þeirri bók fjalla um að syrgja eiginmann sem deyr ekki en kýs líf með annarri konu og svo um það að kveðja móður sem deyr eftir erfið veikindi. Þriðja bókin heitir Kona spendýr þar sem Ragnheiðúr fjallar um stöðu konunnar út frá hennar eigin reynslu. ,,Mér hefur þótt gott að skrifa um það sem hendir mig í lífinu og þannig reyni ég að ná utanum það sem ég skil ekki nógu vel og það hefur gagnast mér vel. Ég skrifa líka um það fallega og það er sannarlega líka í nýju bókinni minni Veður í æðum. Ég skrifa alltaf í einhvers konar fléttum og nú er ég til dæmis líka að tala um sólarlagið sem er jafnfallegt þótt dóttir mín sé ekki hjá mér því hjá mér eru aðrir. Ég hef til dæmis fengið bót á sjúkdómi sem herjaði á mig og það er sannarlega gleðiefni og sum ljóðin eru um það,“ segir Ragnheiður.
Formæðurnar koma líka við sögu
Ragnheiður hefur ríka kímnigáfu og leyfir henni að skína þrátt fyrir allt. Hún segir að auk sársaukans sem einkenni sum ljóðanna innihaldi bókin, Veður í æðum, ýmis gleðilegri og meira spennandi efni svo lesendur drepist nú ekki úr leiðindum og sorg við lesturinn. ,,Saga einnar formóður minnar er til dæmis betri en nokkur skáldsaga en hún eignaðist tvö börn í leyni og gaf þau frá sér. Fyrra barnið átti hún mjög ung í Danmörku. Barnsfaðir hennar var giftur maður og kom henni fyrir á Jótlandi á meðgöngunni undir því yfirskini að hún væri að læra hárgreiðslu og síðan var barnið ættleitt þar og enginn vissi af tilvist þess. Síðar lærði hún hjúkrun. Svo kom hún heim til Íslands fyrir jól eitt árið og var þá barnshafandi en sagði engum frá því. Á jóladag kom hún svo upp með barn á handleggnum og hafði þá eignast það ein og sjálf á neðri hæðinni. Þá átti að gefa það barn líka en langamma mín neitaði því og drengurinn var síðan alinn upp af ömmu minni og afa sem ættleiddu hann. Mér hefur þótt gott að sökkva mér í þessa sögu líka því hún er ekki öll sorgarsaga þótt tíðarandinn hafi verið ,,ömmusystur minni mótdrægur,“ segir Raghnheiður og er bjartsýn á framtíðina þrátt fyrir allt.
Löngu síðar
snýr hún aftur
litla stelpan mín
ung kona
harmmörkuð augu
skyggð dökkum baugum
tekið andlit
horaður líkami
gleði, sorg, grátur, reiði
teppa háls móður
hvað á að segja?
gera?
grátur
hinn náttúrulegi stíflueyðir
löngu uppþornaður
dóttir komin heim
með snjáða taupoka
fulla af sorg
enn er þó von um von
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.