Halda erfðamálin fyrir þér vöku?

Elín Sigrún Jónsdóttir

„Heimilislæknirinn sagði mér að ég ætti að fara til þín!“ sagði kona þegar hún kom í viðtal. Mér þótti merkilegt að heyra að læknir vísaði á lögfræðing, varð forvitin og spurði um ástæður. Þá sagði hún mér að hún hefði farið til læknisins og beðið hann um svefnlyf. Hann skoðaði sjúkraskrána, hún væri búin að vera hjá honum í áratugi og hann hefði aldrei ávísað til hennar svefnlyfjum. Þetta væri orðinn langur tími og hún komin á níræðisaldur. Hvað væri það sem spillti svefninum. Hún sagðist þá hafa trúað honum fyrir því að það væri erfðamálin. Og læknirinn taldi að lögfræðingur væri betri en lyf.

Við fórum svo yfir ýmsa möguleika og lausnin kom konunni á óvart. Ég skrifaði erfðaskrána fyrir hana. Hún fór með hana til sýslumanns, undirritaði þar og lögbókandi vottaði og tók erfðaskrána til varðveislu. Hálfum mánuði síðar hringdi hún til mín og tjáði mér að hún svæfi eins og engill. Ráð læknisins hefði reynst henni hið besta svefnmeðal.

Ég átti leið á heilsugæslustöðina og sagði hjúkrunarfræðingi söguna og að ég kynni að meta lækni sem skoðaði alla þætti, ávísaði ekki hugsunarlaust svefnlyfjum og vísaði jafnvel til lögfræðings.

Það er reynsla mín að saga konunnar sé ekki einsdæmi. Mörg sem koma á minn fund til að ræða erfðamál sín hafa hugsað málin lengi, haft jafnvel haft áhyggjur og óttast að mismuna börnum sínum og erfingjum, styggja þau og valda jafnvel ósætti ef ósk viðkomandi næði fram að ganga. En leiðirnar eru oftast fleiri en fólk áttar sig á og hægt að finna lausn sem léttir hyggjubyrðum af fólki.

Flest sem huga að erfðamálunum eru 60+. Erfðalögin eru líka 60+ og eru að stofni til frá árinu 1962. Þrátt fyrir aldurinn hafa þau staðist vel tímans tönn, þrátt fyrir breytingar á fjölskyldumynstrum. Löggjafinn hefur byggt upp kerfi sem hentar flestum en einnig veitt heimildir til að fara sérleiðir. Það er því mikilvægt að fólk gefi sér tíma til að kynnast erfðalögunum og spyrja sig hvort þær henti eða hvort nýta ætti heimildir til að erfðamálin séu í samræmi við óskir og aðstæður.

Elín Sigrún Jónsdóttir lögfræðingur, lögmaður, kennari og markþjálfi skrifar.

Ritstjórn mars 2, 2025 07:00