Í hinu vinsæla ketó-mataræði er fólk eindregið hvatt til að borða egg. Ekki er mjög langt síðan að vísindamenn töluðu um að egg væri ekki æskilegt að borða daglega og talað var um að eitt egg á viku væri nóg fyrir meðalmanninn. Nú hefur þetta gersamlega snúist við og menn keppast við að dásama kosti eggja og þau sögð besti morgunmatur sem hugsast getur. Hvað breyttist?
Egg eru mjög prótínrík og þegar niðurstöður rannsóknar á eiginleikum þeirra birtist í European Heart Journal varð mörgum um og ó. Þar var fullyrt að eitt egg á dag væri innan hættumarka en ef menn innbyrtu 20 g til viðbótar við það ykist hættan á heilaáfalli um 25%. Þegar haft er í huga að meðalegg er um það bil 44 g og stór egg um 50 g er ljóst að ekki má mikið út af bregða.
En enginn þarf að örvænta strax næsta rannsókn birtist í the American Journal of Clinical Nutrition og þar komust menn að gerólíkri niðurstöðu. Þeir töldu engin tengsl vera milli heilablæðinga og eggjaáts. Þvert á móti álitu þeir að ef menn neyttu allt að sjö eggja á viku gæti það fækkað hjartaáföllum og dregið úr líkum á heilablæðingum. Höfundar þessarar rannsóknar bentu á egg væru rík af alls konar næringarefnum og þess vegna einfaldlega meinholl.
Eggin og blóðþrýstingurinn
Nú gátu aðdáendur eggja andað léttar eða hvað? Jú, því uppfrá þessu hafa verið gerðar ótal rannsóknir á næringargildi eggja og hollustu þeirra og allar benda þær í sömu átt. Egg eru holl og ekkert sérstakt samhengi milli þess að neyta þeirra og fá heilaáfall eða hjartasjúkdóma. En hvers vegna er þessi ruglingur? Sennilega á hann rætur að rekja til þess að egg eru rík af kolesteróli og því líklega til að hafa áhrif á blóðfitu og blóðþrýsting en hvoru tveggja eru þekktir áhættuþættir hvað varðar heilaáföll og hjartasjúkdóma.
Sérstaklega er rauðan rík af þessu efni og því kusu margir að borða eingöngu hvítuna. Öðrum fannst það eins og að borða pappa og þar með hefðu eggin verið svipt öllu bragði.
Nú telja menn sig hins vegar vita að það sé ekki það magn af kolesteróli sem menn innbyrða sem veldur hjarta- og æðasjúkdómum heldur hvers konar kolestól við framleiðum í eigin líkama. Vitað er að slæma kolesterólið eykst við að borða mettaða fitu
Vísindamenn segja að þekkingu okkar á kolesteróli í matvælum og hvernig unnið er úr því í líkamanum hafi fleygt fram síðan fyrsta greinin var birt í European Heart Journal. Það er því fullkomlega óhætt að borða egg í morgunmat, um miðjan dag eða á kvöldin allt eftir því hvernær hverjum og einum hugnast best. Heilsusamleg áhrif eggja eru mun meiri en óhollusta þeirra. Þau eru rík af járni, joði, seleni, sinki, B-vítamínum, A-vítamínum og D-vítamíni fyrir utan að vera einstaklega góður prótíngjafi en það er ástæðan fyrir vinsældum þeirra meðal ketó-fólks.
Hins vegar er full ástæða til að skoða hvernig við eldum eggin. Soðin egg eru mun hollari en steikt til að mynda og menn ættu helst ekki að salta þau. Þau eru einnig saðsöm og stuðla að jafnvægi á blóðsykri. Þess vegna er talið að þeir sem borða egg í morgunverð borði almennt minna en hinir yfir daginn og finni síður fyrir sykurlöngun þegar líða tekur á eftirmiðdaginn. Það er því ekkert að því að borða allt sjö eggjum á viku og ef einnig er aukið magnið af baunum, fiski og grænmeti í mataræðinu er menn komnir ansi nálægt því að setja saman hollan og góðan matseðil.
„Það er því ekkert að því að borða allt sjö eggjum á viku og ef einnig er aukið magnið af baunum, fiski og grænmeti í mataræðinu er menn komnir ansi nálægt því að setja saman hollan og góðan matseðil.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.