Margréti Eir Hönnudóttur þekkjum við helst sem eina af okkar allra bestu söngkonum. Hún er líka menntaður leikari frá Bandaríkjunum og útskrifaðist úr leiklistarnámi í Boston 1998. Þrátt fyrir að vera aðeins á miðjum aldri hefur Margrét 37 ára reynslu af sönghlutverkum í leikhúsum bæði hér á landi og í Bandaríkjunum. Hún hefur auk þess kennt söng í árafjöld og kennir nú í tónlistarskóla FIH. Margrét segist hafa gefið sjálfri sér loforð þegar hún fór með hlutverk í söngleiknum Chicago á Akureyri fyrir þremur árum að hún skyldi framvegis taka hlé frá kennslu þegar hún tæki að sér hlutverk í leikhúsum. Hún er því núna búin að taka þetta leyfi og ætlar að njóta þess að vera bara fastráðin á einum stað næsta vetur sem er í Borgarleikhúsinu í söngleiknum Moulin Rouge.
Moulin Rouge

Mynd frá tónleikum Margrétar í apríl síðastliðnum.
Margrét hefur gjarnan verið valin í hlutverk í söngleikjum sem settir hafa verið upp hér á landi og nú er verið að segja upp einn slíkan ,,Moulin Rouge“ í Borgarleikhúsinu en sýningar hefjast 27. september. Þar fer hún með hlutverk ,,La Chockolat“ sem vinnur á Rauðu Myllunni. Þessi uppsetning á Moulin Rouge er fengin tilbúin að utan en er aðlöguð þeim stað sem hún er sett upp á.
Sagan á að gerast um aldamótin 1900 í París en borgin var þá sannarlega tengd ást og rómantík og er enn í hugum margra. Þá var Moulin Rouge eitt allsherjar ,,gleðihús“ og getur hver lagt sinn skilning í það orð. París var ólgandi gleðiborg og þangað fóru listamennirnir til að drekka rauðvín og yrkja rómantísk ljóð. Þegar leikritið var sett fyrst á svið í París voru viðsjárverðir tímar þar sem peningar og völd réðu oft mestu og hæfileikar dugðu ekki til þegar átti að láta fjárhagshlið slíkra húsa ganga upp. Það bauð hættunni heim og ungar sálir gátu skaðast. Í sögunni er því bæði gleði og dramatík.
Átakanlegt ástarsaga
Í sýningunni Moulin Rouge er eitt stórt kvenhlutverk en það er Satine sem leikin er af Hildi Völu Baldursdóttur. Á móti henni leikur ungur leikari Mikael Kaaber sem verður máttlaust ástfanginn af hinni fögru Satine. Önnur kvenhlutverk eru í höndum Írisar Tönju Flygering og Estherar Talíu Casey – ásamt Margréti er Pétur Ernir Svavarsson partur af ,,Moulin Rouge showgirls“.
Í stórum hlutverkum eru Halldór Gylfason en hann leikur sirkusstjórann, Valur Freyr Einarsson er vondi karlinn, eða ,,the duke“ og Björn Stefánsson og Haraldur Ari Stefánsson eru í ,,genginu“. Danshópur gegnir stóru hlutverki þar sem valinn dansari er í hverju rúmi og Margrét segir að úr verði stórkostlegt sjónarspil.
Þegar Margrét sá bíómyndina Moulin Rouge fyrst heillaðist hún og tók strax eftir því að sagan var sterk. Hún veit sem er að til þess að sýning megi heppnast þurfi allt að fara saman, bæði sagan og tónlistin og að hlutverkaskipan sé vel heppnuð. Í tilfelli Moulin Rouge segir Margrét að allt þetta sé til staðar en Brynhildur Guðjónsdóttir er leikstjóri íslensku uppfærslunnar og tónlistarstjóri er Jón Ólafsson. Í þessari uppfærslu er í fyrsta sinn allur texti þýddur á tungumál landsins, bæði talaður texti og sunginn og þýðingin er í höndum Braga Valdimars Skúlasonar. Áhorfendur eiga því von á góðu bæði í söng og leik en tónlistin er frá 1970 til nútímans og mikið er lagt upp úr allri umgjörð.
Heilsan minnti á sig
Margrét hefur alla tíð notið góðrar heilsu og kynntist sjúkrahúslegu í fyrsta sinn á ævinni fyrr á þessu ári. Hún fór

Frá síðasta afmæli Margrétar.
að finna fyrir verkjum sem reyndust sem betur fer vera gallsteinar sem læknar höfðu ráð við. ,,Þessi heilsubrestur kom mjög óvænt upp á og ég var sannarlega ekki búin að gera neinar ráðstafanir,“ segir Margrét sem var þá búin að taka að sér hlutverkið í Moulin Rouge sem á setja á svið í haust í Borgarleikhúsinu svo ekki var langt í að æfingar hæfust. ,,Ég var búin að fá verkjaköst nokkrum sinnum í kennslu og það var verulega óþægilegt. Ég náði að fara í aðgerðina, kom heim á laugardegi og mætti á fyrstu æfingu á Moulin Rouge á mánudegi. Ég vissi þá að sjúkdómurinn var ekki mjög alvarlegur en þetta var samt ágætis áminning um að við getum ekki gengið að heilsunni vísri. Það tók mig nokkrar vikur að ná fullum styrk og nú held ég áfram að hugsa vel um heilsuna því hún er auðvitað forsenda þess að geta tekið þátt í lífinu,“ segir Margrét og brosir.
Nóg við að vera fyrir utan listina

Á fallegum sumardegi.
Eiginmaður Margrétar heitir Jökull Jörgensen, hárskeri og tónlistarmaður, og með honum fékk hún þrjár dætur og nú sjö barnabörn sem þau njóta ríkulega samvista við. Margrét og Jökull hafa verið saman í hljómsveitinni Thin Jim í 18 ár, jafn lengi og samband þeirra hefur staðið.
Margrét er orkubolti og eins og aðrir listamenn tekur hún að sér ýmis störf tengd listinni eins og talsetningu og kórstjórn og kemur þannig að listsköpun á ýmsa vegu. Lífið leikur við þessa kraftmiklu konu sem við fáum að sjá á sviði Borgarleikhússins í gervi ,,La Chockolat“ í haust.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.