Vitglöp Bruce Willis draga fram í dagsljósið matarvenjur sem læknar segja gætu verið fyrstu merki um þau

Fréttin af því að bandaríski leikarinn Bruce Willis hafi verið fluttur að heiman vegna framheilabilunar hefur vakið mikla athygli vestan hafs og hefur um leið varpað nýju ljósi á sjúkdóminn og hvernig hann hefur áhrif á matarvenjur.

Emma Hemming, eiginkona hins sjötuga Willis, tilkynnti nýlega að hún hefði ákveðið að flytja hann í annað fjölskylduhús, þar sem núverandi heimili, sem hann deildi með henni og tveimur ungum dætrum sínum, væri ekki hentugt fyrir uppeldi þeirra og þroskaskilyrði á sama tíma og andlegu ástandi hans hrakaði.

Framheilaheilabilun einkennist af hrörnun og rýrnun á framhlið og hliðum heilans, sem síðan leiðir til breytinga á hegðun og persónuleika – og eins og í tilfelli Willis hefur það áhrif á minni og  getu til að hugsa og tala.

Fæða er annar þáttur í lífi sjúklingsins sem sjúkdómurinn hefur áhrif á

Dæmi um að matarvenjur breytist og hafa um leið áhrif á vitglöp er hin svokallaða „Bananakona“ sem International School of Advanced Studies skoðaði árið 2006. Á einhverjum tímapunkti fékk þessi kona ástríðu fyrir banönum og drakk lítra af mjólk daglega.

„Eftir að hún lést staðfesti heilagreining sjúkdómsgreiningu læknisins: konan þjáðist af framheilabilun, algengri tegund vitglapa sem er næst algengust á eftir Alzheimerssjúkdómnum,“ greindi Science Daily frá.

Í rannsókninni kom fram að konan neytti ekki neins annars en banana, hegðun sem vísindamaðurinn Marilena Aiello benti á gæti valdið því að einstaklingar léttist „vegna þess að þeir borða einhæfa fæðu á þráhyggjukenndan hátt.“ Livewell, samtök sem sérhæfa sig í umönnun Alzheimerssjúklinga og annarra með vitglöp, benda á að þyngdartap hjá sjúklingum geti stafað af fjöltengdum vandamálum, þar á meðal vanhæfni þeirra til að nærast sjálfir, tjá sig um hungur og í alvarlegum tilfellum gætu þeir ekki einu sinni áttað sig á því að þeir séu svangir. „Sannleikurinn er sá að mikil breyting á matarlyst er oft eðlilegur hluti af sjúkdómnum,“ segir á vefsíðu samtakanna. Það sem flækir enn frekar erfiðar aðstæður er að þessi venja magnast upp í áráttu fyrir því að borða óætar vörur.

Kona greip eiginmann sinn við að reyna að borða glerkúlu

Dr. Elaine Eshbaugh, prófessor í öldrunarfræði og fjölskyldufræði við Háskólann í Norður-Iowa, rifjar upp þegar eiginmaður vinkonu hennar reyndi að borða glerkúlu. Þetta leiddi til þess að sjúklingurinn var færður á minnisdeild, enda benti þetta til þess að þörf væri á „nákvæmu eftirliti“.

„Það er vitað að einstaklingar með vitglöp hafa drukkið hreinsiefni og borðað uppþvottaefnispúða [Tide Pot],“ skrifar Eshbaugh á vefsíðu sinni, When Dementia Knocks. „Augljóslega þarf fólk sem hefur myndað með sér tilhneigingu að borða óætar vörur, náið eftirlit og vera í vandlega stýrðu umhverfi til að tryggja öryggi sitt.“

Á hinn bóginn er einnig vitað að heilasjúkdómurinn getur líka haft þveröfug áhrif á mataræði. Sjúklingar með framheilabilun hafa einnig orðið uppvísir að stela mat af diskum annarra. „Þessi hegðun er vandamál, auðvitað félagslega, en einnig hvað varðar heilsu sjúklinga þar sem þeir hafa þá tilhneigingu til að þyngjast,“ sagði Aiello í viðtali við Science Daily. Í öðrum tilfellum gæti sjúklingurinn gleymt að hafa borðað, haft áhyggjur af næstu máltíð eða jafnvel ruglað þorsta saman við hungur. Þetta gerist þegar undirstúkan er skemmd. Þessi röskun gæti þó tengst beint framheilavitglöpum þar sem hún hefur áhrif á undirstúkuna (framhluti milliheila, liggur milli framstúku og þriðja heilahólfs. Tekur þátt í samhæfingu milli sjálfvirka taugakerfis og heiladinguls), sem stjórnar meðal annars matarlyst.

„Þetta gæti falið í sér breytingu á sjálfvirka taugakerfinu, sem einkennist af breyttu mati á merkjum líkamans, svo sem hungri, mettunartilfinningu og matarlyst,“ sagði Aiello. „Þessar skemmdir á framheila geta valdið tapi á hömlunarmerkjum, sem leiðir til hegðunar eins og ofáts.“ Í viðtali á dögunum gaf Emma, eiginkona Bruce Willis, til kynna að hann hefði misst minnið og talgetuna. „Bruce er við mjög góða heilsu almennt, veistu. Það er bara heilinn sem er að bregðast honum,“ sagði hún í viðtalinu. „Tungumálið er að breytast og, þú veist, við höfum lært að aðlagast,“ sagði hún áður en hún bætti við: „Og við höfum leið til að eiga samskipti við hann, sem er bara öðruvísi leið, öðruvísi.“ Emma talaði ekki um matarvenjur leikarans, þó að það væri nefnt að hann yrði í umönnun sérstaks teymis allan sólarhringinn á nýjum dvalarstað, öðru fjölskylduheimili þeirra. En engu að síður hefur fréttin um veikindi svo frægs leikara orðið til þess að fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa beint  kastljósi sínu meira að vitglöpum og öðrum heilabilunarsjúkdómum og keppst við að fræða almenning um þá. Það er þá alltént til einhvers ef slíkur harmleikur sem Willis fjölskyldan glímir nú við verði til vitundarvakningar meðal þjóðarinnar um alvarlega sjúkdóma.

Viðar Eggertsson, leikari og leikstjóri, skrifar fyrir Lifðu núna