Nýlega var viðburðurinn DJ AMMA haldinn í Gerðarsafni. Þar þeyttu skífum konur yfir 67 ára aldri og sögðu sögur tengdar lagavalinu. Margar þessara kvenna eru ömmur og þar af leiðandi mömmur svo þær hafa yfirsýn yfir vinsæla tónlist þriggja kynslóða. Allir sem sóttu viðburðinn eru sammála um að hann hafi verið mjög skemmtilegur og ömmur fyrirtaks plötusnúðar
Þær Ásrún Magnúsdóttir Halla Þórlaug Óskarsdóttir skipulögðu þennan skemmtilega viðburð og sögðu að meiningin væri að brjóta niður staðalmyndir og að gefa eldri kynslóðinni sviðið. Á þessu er sannarlega ekki vanþörf því margir eldri borgarar hafa talað um að þegar settir eru upp tónleikar eða tónlistarviðburðir á heimilum fyrir aldraða eða félagsmiðstöðum er eins og gengið sé út frá því að allir hafi smekk fyrir harmonikkutónlist eða klassík.
DJ Gloria besti plötusnúður Svíþjóðar
Áslaug Jóhannesdóttir og Elísabet Jökulsdóttir voru meðal þeirra sem þeyttu skífum í Gerðarsafni þann 4. september og það voru svo hvorki harmonikkur né sekkjarpípur sem hljómuðu í lögunum sem þær völdu. Hluti af upplifuninni var svo að heyra frásagnir af viðburðum í lífi þeirra tengdum tónlistinni sem þær völdu. Þetta frábæra framtak verður vonandi endurtekið og kannski á þessi tilraun í Gerðarsafni að leiða til þess að einhver þeirra sem þar stigu á svið eftir að halda áfram og skapa sér nýjan starfsferil. Það er nefnilega svo að einn eftirsóttasti plötusnúður Svíþjóðar er 81 árs gömul kona.
Hún tók sér listamannsnafnið DJ Gloria og hefur verið plötusnúður í 16 ár, byrjaði sem sé 65 ára að þeyta skífum. Það var í kjölfar þess að hún missti mann sinn. Hann hafði verið veikur lengi og hún annast hann í veikindunum. Þegar hann lést var hún rétt rúmlega sextug og fannst hún hafa fátt að lifa fyrir. „Ég var þunglynd, framtakslaus og döpur,“ segir hún í viðtalinu við AFP. Í þrjú ár var hún framtakslaus og döpur. Henni fannst hún ólík sjálfri sér. Í kjölfarið gerðist hún þolfimikennari en hluti af því starfi er að setja saman lagalista til að drífa nemendur áfram og örva þá til að hreyfa sig. „Kvöld nokkurt var ég í úti að borða með vinum. Við sátum úti, það var sumar og við vorum með vín með matnum, og ég heyrði sjálfa mig segja: „Ég held ég ætli að verða plötusnúður.“
DJ Gloria heitir Madelein Mansson og er búsett á dvalarheimili fyrir aldraða en það er nóg að gera hjá henni, ekki bara á eigin heimili heldur öðrum búsetuúrræðum fyrir fólk yfir 55 ára aldri og á vinsælustu næturklúbbum landsins eða bara hvar sem fólk kemur saman til að dans og skemmta sér. Eitt af því sem sagt hefur verið um DJ Gloriu er að hún gefi frá sér mikla orku og ást. Hún sé frábær fyrirmynd og efli eldri konur til dáða hvort sem það sé í lífinu sjálfu eða til að stíga út á dansgólfið og skemmta sér rækilega eitt kvöld.
Sjálf segir hún að sú manneskja sé ekki til sem hún geti ekki fengið út á dansgólfið. Það eru nú ekki ónýt meðmæli með plötusnúð. Í nýlegu viðtali við AFP-fréttaveituna kom fram að lagalistar hennar samanstandi af þekktum slögurum sem auðvelt er að dansa við. En það kom ekki af sjálfri sér. Hún fór á næturklúbba til að sjá hvernig plötusnúðar störfuðu og læra af þeim. Sonur vinkonu hennar, plötusnúður var einnig tilbúinn að kenna henni á græjurnar og eftir það var bara að byrja, þjálfa sig og þróa eigin stíl. Einn aðdáenda hennar fullyrðir meira að segja að hún sé besti plötusnúður Svíþjóðar.
Hún áttaði sig líka á að staðir þar sem hægt var að dansa hentuðu ekki endilega fólki á hennar aldri. Þeir opna seint og eru opnir langt fram eftir nóttum. Ekki hagkvæmt fyrir fólk sem helst vill vera komið í rúmið um klukkan ellefu á kvöldin. Hún fékk þess vegna vinkonu í lið með sér og þær stofnuðu diskó fyrir fólk eldra en fimmtugt og reka það saman. DJ Gloria hefur alveg yfrið nóg að gera en böllin hennar byrja klukkan sex á kvöldin og eru yfirleitt búin klukkan ellefu.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.