Virkniþing fyrir eldra fólk verður haldið í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur á morgun föstudaginn 19. september frá klukkan 10.00 til klukkan 13.00. Á Virkniþinginu verða haldin áhugaverð erindi auk þess verður boðið upp á kynningu á þeirri fjölbreyttu heilsueflandi þjónustu og afþreyingu sem eldra fólki í Reykjavík stendur til boða.
Íþróttavika Evrópu
Dagana 23.-30. september er Íþróttavika Evrópu eða „#BeActive“, sem er alþjóðlegt hvatningarátak um hreyfingu og bætta heilsu. Það er því vel við hæfi að halda Virkniþing og stuðla á þann hátt að félagslegri virkni eldra fólks í Reykjavík og bættum lífsgæðum þeirra. Nánari upplýsingar á Beactive Ísland.
Dagskrá:
Fundarstjóri: Harpa Þorsteinsdóttir, lýðheilsufulltrúi Reykjavíkurborgar
Að eldast í Reykjavík
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri
Verum virk
Willum Þór Þórsson, forseti íþrótta- og ólympíusambands Íslands
Það er pláss – Erindi um einmanaleika
Líney Úlfarsdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri Tölum saman hjá Félags- og húsnæðismálaráðuneyti
Gleðidans
Auður Harpa danskennari stýrir gleðidansi
Heimsóknavinir með hund
Heimsóknavinir með hund mæta í Ráðhúsið. Verkefnið er á vegum Rauða krossins og felst í að heimsóknavinir fara ásamt eigin hundi og hitta einstaklinga eða hópa á heimilum þeirra, á hjúkrunarheimilum eða öðrum stöðum þar sem óskað er eftir hundaheimsóknum. Hlutverk heimsóknavina með hund er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju.
Kynningar á afþreyingu og virkni sem eldra fólki stendur til boða í Reykjavík
Meðal þeirra sem munu kynna fjölbreytta vetrardagskrá eru: Samfélagshús, félagsmiðstöðvar, íþróttafélög, bókasöfn, sundlaugar, heilsugæslan og fleiri aðilar.
Gestum gefst meðal annars tækifæri á að prófa farþegahjól sem verða á staðnum.
Hvetjum fólk til að fjölmenna. Boðið verður upp á kaffi og bakkelsi.
Öll velkomin!