
Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar.
Allt frá því ég man fyrst eftir mér var íslenskan talin vera í hættu, hættu sem kom jafnt að utan sem innan. Á mínum æskuárum var danskan, tungumál ríkisins, sem réði yfir Ísland í 500 ár, aðal óvinur íslenskunnar. Dönsk orð, sem voru sómasamleg, þegar þau komu úr munnum Dana, urðu að slettum, þegar þeim var skotið inn í íslenska setningu, slettum, sem þurfti að þrífa burt tafarlaust.
Og það var önnur, og ekki síðri ógn, á þessum árum, sem stafaði að íslenskunni, en það var þágufallssýkin. Það var sýking, sem uppræta þurfti með öllu. Þeim sem varð á að segja „mér hlakkar til“, stað þess að segja„ég hlakka til“, og þeir sem sögðu, „mér langar til“, í stað „mig langar til“, fengu makleg málagjöld frá íslenska tungumálaeftirlitinu, en starfsmenn þess voru einkum og sérílagi kennarar í skólum landsins.
Nú stafar að íslenskunni önnur og meiri ógn, sem er hin enska tunga, tungumál, sem í dag er orðið að alheimsmáli, ekki síst vegna tilkomu rafrænna miðla, sem fólk á öllum aldri í flestum löndum heims, nýtir sér hvern dag til lesturs og tjáningar. Í samanburði við yfirtöku enskunnar, verða dönskuslettur og þágufallssýki, án efa léttvægar fundnar.
Mér hefur verið sagt að ungt fólk á Íslandi bregði oft fyrir sig ensku í samtölum sín á milli, og sumir unglingar segi, að enskan sé þeim vænni, því hún er einfaldari að gerð en íslenskan og að þeir fái alla jafna hærri einkunn í ensku en í íslensku!
Vonandi fer allt á besta veg, og að íslenskan fái frið fyrir enskunni til að þróast og dafna, sem aldrei fyrr.
Ég hef búið erlendis í áratugi og tala íslensku og ensku jöfnum höndum. Að lifa við tvítyngi gerir það að verkum að maður er sífellt að spá í uppruna orða og orðatiltækja, merkingu þeirra og tengsl þeirra við menningu og sögu þeirra landa, þar sem þau eru töluð.
Ég veit ekki hvort það sé aldurinn sem ræður því, en að undanförnu hafa skotist upp í huga minn alls kyns orð og orðatiltæki, málshættir, heilræðavísur og tilsvör, sem ég lærði í æsku og grófu sig í djúpminnið og sitja þar enn. Nú veit ég auðvitað ekki hvort þau séu enn á hraðbergi í íslensku talmáli, en í þeim felst mikil viska, sem enn getur nýst öllum vel.
Eitt af því, sem mín kynslóð ólst upp við, var að vera orðvar, eða eins og máltækið
„Oft má satt kyrrt liggja“ gefur til kynna. Nú annað orðatiltæki í sama dúr, sem oft heyrðist var
„Fæst orð bera minnsta ábyrgð.“
Annað orðatiltæki af svipuðum toga var: „Segðu aldrei nema satt, og þú munt hverjum manni hvimleiður verða.“
Svo voru það orðatiltæki, sem vöruðu við prjáli og fagurgala:
„Ekki er allt gull sem glóir.“
„Oft er flagð undir fögru skinni.“
„Ekki eru allir viðhlæjendur vinir.“
Okkur bar einnig að forðast að særa aðra, eða eins og Einar Ben sagði þá skyldi „aðgát höfð í nærveru sálar.“
Við áttum líka að temja okkur lítillæti, eins og segir í heilræðavísu Hallgríms Péturssonar, sem allir lærðu:
Lítillátur, ljúfur og kátur,
leik þér ei úr máta;
varast spjátur hæðni og hlátur,
heimskir menn sig státa.
Svo áttum við að varast að fella dóma um annað fólk, eins og eftirfarandi heilræðavísa sýnir:
Gakktu hægt um hvers manns dyr
og gáðu vel að þér.
Enginn veit sína ævi fyrr
en öll er.
Önnur aðvörun af sama toga:
„Gakktu hægt um gleðinnar dyr…“
Vinnusemi var mikilvæg, en hún varð að vera byggð á skynsemi, því
„Meira vinnur vit en strit.“
„Og allt má lagið hafa hér, sama af hvaða tagi er.“
Faðir minn hafði mörg tilsvör á reiðum höndum, sum voru hans eigin, önnur sennilega ættuð úr Skagafirði, eins og hann.
Þegar vinir hans urðu á vegi hans, spurðu hann þá gjarnan:
„Hvernig hefur þú það, svona yfirleitt, í aðalatriðum, í stórum dráttum og í heild?“
Ef við spurðum hann hvort hann þekkti einhvern ákveðinn mann, þá sagði hann annað hvort:
„Já, hann er einkavinur minn, velunnari og fermingabróðir.“
Við vissum auðvitað að síðasti hluti setningarinnar var ekki sannur, því hann átti engin fermingarsystkini, þar sem hann fermdist einn í Hóladómkirkju.
Ef hann þekkti ekki viðkomandi, þá svaraði hann því til:
„Nei, hann þekki ég ekki, hann hefur aldrei komið til mín.“
Þegar við krakkarnir kvörtuðum yfir því að hafa verið beitt órétti, þá sagði hann gjarnan:
„Allir eru vondir við þig alltaf, og enginn er góður við þig aldrei, svo Guð gefi frá toppi til táar og ilja.“
Eitt sinn þegar hundrað krónu seðill, sem mér hafði verið gefinn, fauk út í veður og vind, gekk faðir minn til liðs við mig til að leita að honum, því hann vissi að „betur sjá augu en auga.“
En auðvitað fannst seðillinn ekki!
Þegar hann kom heim þreyttur eftir langan vinnudag, þá lagðist hann gjarnan í sófann í stofunni til að hvíla sig. Hann hafði það fyrir sið að liggja aldrei með höfuðið á sama enda sófans tvo dag í röð:
Hann sagði, „Í gær lá ég þarna“ og benti á þá hlið, sem lá hann deginum áður, „en í dag ligg ég hérna, því tilbreytnin gleður.“
Já, tilbreytnin gleður svo sannarlega, í tungumálinu sem og öðru!







