Öll þekkjum við sjálfsagt dæmi um slítandi erfðadeilur innan fjölskyldna. Togast er á um hver vilji hins látna hafi verið, hvort öll formsatriði séu uppfyllt í erfðaskránni, hver síðasta erfðaskrá hafi verið, hvort erfðaskránni hafi verið breytt o.s.frv.
Þó hér á landi gildi skýrar reglur um hvernig erfðaskrár skuli vera úr garði gerðar til að þær séu gildar, er engin samræmd rafræn skráning sem heldur utan um gildar erfðaskrár. Þær eiga annað hvort að vera geymdar hjá sýslumanni eða lögmönnum. Þeir sem ekki vita þetta eiga á hættu að erfðaskrá þeirra týnist eða fullnægi ekki formsatriðum þegar kemur að arfsskiptum og deilur geta orðið meðal eftirlifandi ættingja. Þessi staða er ekki bara hér á landi, heldur vaxandi vandamál í nágrannalöndum okkar.
Í Svíþjóð hefur undanfarið mikil vinna farið fram til að gera erfðaskrár öruggari – nokkuð sem við gætum tekið til fyrirmyndar. Þar í landi er verið að þróa miðlæga, rafræna skráningu erfðaskráa til að koma í veg fyrir glötun, tvímæli eða fölsun.
Þessi miðlæga skráning erfðaskráa verður hýst hjá skattyfirvöldum. Með því eru erfðaskráir í öruggum höndum og ekki hægt að fela eða breyta þeim eftir á. Jafnframt er verið að skoða möguleikann á rafrænum erfðaskrám, sem undirritaðar eru stafrænt og þar með nánast ómögulegt að falsa.
Einnig er lögð áhersla á að auka ábyrgð vitna, með skýrum upplýsingum um hver þau eru, svo auðveldara sé að staðfesta erfðaskrána síðar. Þá er rætt um að þeir sem beita arfleifanda sínum ofbeldi eða alvarlegum hótunum geti verið sviptir arfi, og að neyðarerfðaskrár megi í framtíðinni gera með einfaldari hætti, t.d. í tölvupósti eða myndbandi.
Með þessum breytingum er reynt að tryggja að erfðaskrár séu traust skjöl sem ekki verði véfengd. Fyrir eldri borgara þýðir þetta aukið öryggi um að síðustu óskir standi óhaggaðar – og að fjölskyldur verði síður dregnar inn í langar og þungar deilur eftir fráfall ástvinar.
Emil B. Karlsson skrifar fyrir Lifðu núna.







