Meistari óvæntra endaloka

Bandaríski smásagnahöfundurinn O’Henry er ekki vel þekktur hér á landi. Hann hefur þrátt fyrir það mörg skemmtileg rithöfundareinkenni sem höfða mjög til Íslendinga. Má þar á meðal nefna kaldhæðni, ofurlítið kaldranalega kímnigáfu í bland við rómantík, spennu og mannlega hlýju. Sögurnar hans eru flestar bráðsnjallar en þær eiga það allar sameiginlegt að endalokin eru sérdeilis óvænt og oft og tíðum þvert á væntingar lesandans.

O’Henry hét réttu nafni William Sydney Porter.

Sagt er að O’Henry hafi hatað öll tímamörk og sú óbeit hafi aukist með árunum. Þegar hann skrifaði hina frægu jólasögu sína Gjöf  galdramannsins eða The Gift of the Magi sat hann á kránni hans Pete (Pete’s Tavern) sem staðsett er örlítið suður af Gramercy Park í New York og velti fyrir sér hvað hann ætti að setja á autt blaðið. Ritstjóri New York World hafði beðið hann um sögu og var þegar búinn að greiða honum fyrir viðvikið en nú þjáðist O’Henry af ritstíflu. Ritstjórinn var örvæntingarfullur en einn blaðamanna hans kunni ráðið. Hann sagði að best væri að fara með karlinn á þessa uppáhaldskrá sína og færa honum viskí á milli þess að hann fengi uppörvun og sjá hvað úr yrði. Á þremur klukkustundum varð sagan til þarna í básnum á kránni hans Peters.

The Gift of the Magi fjallar um ung hjón sem langar hvoru um sig óskaplega að gefa hinu góða jólagjöf. Dýrmætasta eign hans er úr sem hann erfði eftir föður sinn en hennar er hárið mikla og síða sem er hennar helsta skart. Við fylgjumst með þeim meðan hún selur hárkollumeistaranum hárið sitt til að geta keypt handa honum úrkeðju en hann selur úrið til að geta keypt dýrindiskamba í hárið hennar. Á þennan veg eru flestar sögur O’Henrys. The Cop and the Anthem fjallar um róna sem býr í Maidson Square Park og reynir í örvæntingu að fá löggurnar til að handtaka sig svo hann geti notið hlýjunnar og matarins í fangelsinu allan veturinn. Það er sama hvað hann reynir ekkert gengur. Hann á leið fram hjá kirkju og tónlistin ljúfa sem berst út á götu til hans frá messugjörðinni verður til að breyta viðhorfi hans. Róninn ákveður að snúa af hinum breiða vegi sem liggur til glötunar, fá sér vinnu og byrja nýtt líf. Um leið og hann ákveður þetta með sjálfum sér kemur til hans lögregluþjónn og handtekur hann fyrir slæpingjahátt.

Enn ein saga O’Henrys segir af mannræningjum nokkrum sem ræna syni auðkýfings og krefjast lausnargjalds. Krakkinn er hins vegar óþolandi og mannræningjarnir enda með að borga föðurnum fyrir að taka við króga sínum aftur. Veröld O’Henrys er þannig full af óvæntum uppákomum, dramatískum augnablikum og tilfinningavellu. En þannig var allt hans líf einnig svo segja má að hann hafi skrifað út frá eigin reynslu fyrst og fremst.

The Gift of the Magi er í hugum Bandaríkjamanna klassísk jólasaga á borð við Jólaævintýri Charles Dickens.

Drykkfelldur og sérvitur faðir

O’Henry hét réttu nafni William Sydney Porter og fæddist 11. september árið 1862 í Greensboro í Norður-Karólínu. Hann var annar þriggja bræðra. Þeir bræðurnir nutu móður sinnar ekki lengi við því hún dó úr berklum skömmu eftir að William náði þriggja ára aldri. Eftir lát móðurinnar voru William og elsti bróðir hans sendir til föðurömmu sinnar sem var ákaflega sérstök kona. Hún reykti pípu og lærði til læknis eftir að eiginmaður hennar, sem var farandsölumaður, dó. Pabbi Williams, Algernon, var læknir líka og var vinsæll af sjúklingum sínum þar til að hann tók upp á ákaflega sérviskulegri hegðun eftir að eiginkona hans lést. Hann vildi þá finna upp eilífðarvél og helgaði nánast allan tíma sinn þeirri viðleitni. Við vísindastörfin sótti hans sér einnig innblástur í æ ríkari mæli í viskíflöskur.

Barnæska Williams var engu að síður ánægjuleg. Hann lék sér í kúrekaleikjum með vinum sínum og stundaði riddaraleiki af kappi. Hann las mjög mikið og nánast allar bækur sem hann náði í. Smátt og smátt hættu sjúklingar að leita til Algernons og William var því neyddur til að fara að vinna í lyfjabúð frænda síns til að leggja aura til heimilisins. Þá var William nítján ára gamall. Í búðinni vann líka fjórtán ára stúlka að nafni Sara Lindsay og drengurinn varð yfir sig ástfanginn. Hann þorði alls ekki að yrða á draumadísina en fékk vin sinn til að koma með sér heim til hennar og spjalla við hana meðan William sjálfur spilaði rómantísk lög á gítar fyrir hana. Hann laumaði líka ástarljóðum í póstkassann hennar en ekkert varð frekar úr sambandi þeirra.

William leiddist ákaflega starfið í lyfjabúðinni og dreymdi um að fara í burtu. Tækifærið kom þegar læknir nokkur í Greensboro bauð William með sér í ferðalag til Texas. Í þá daga var Texas enn Villta vestrið og þar riðu kúrekar og indíánar um héruð og skiptust á skotum ef því var að skipta. William naut sín sem aldrei fyrr innan um skuggalegar persónur, sérvitringa og hetjur Villta vestursins. Hann lærði að sitja hest, snara kálfa, skjóta í mark í fyrsta skoti og tala spænsku. Á þessum árum byrjaði hann að skrifa smásögur sem gerðust í Villta vestrinu en hann þverneitaði að láta birta þær.

Með eiginkonu sinni Athol og Margaret dóttur sinni.

Fann ástina í Austin í Texas

Eftir nokkurn flæking settist William að í Austin sem þá þegar var orðin höfuðborg Texas og þar kynntist hann sautján ára stúlku Athol Estes að nafni sem sagt er að hafi verið fyrirmynd ungu konunnar í The Gift of the Magi. William fékk vinnu sem bankagjaldkeri og vildi gjarnan gifta sig. Foreldrar hennar voru hins vegar á móti sambandi þeirra svo unga parið hljópst á brott og gifti sig. Þau reyndust eiga afskaplega vel saman. Athol fyllti William sjálfstrausti og hann hóf að skrifa fyrir alvöru. Hann seldi sína fyrstu sögu til tímaritsins Truth en komst síðan á samning hjá Detroit Free Press sem vildi fá vikulega efni frá honum. Fljótlega eignuðust þau son sem dó skömmu eftir fæðingu og ári síðar fæddist dóttir þeirra Margaret Worth Porter.

Athol var ekki heilsuhraust og að eignast tvö börn á tveggja ára tímabili reyndist henni um megn. Hún var með berkla á byrjunarstigi. William drakk meira á þessum árum en nokkru sinni fyrr og hann hóf að brugga eigið vín úr hreinu alkóhóli og trjáberki og sagt er að það hafi líkst mjög franska vínið absinthe. Hann varð fljótt leiður á að vera bankagjaldkeri og stofnaði þess í stað eigið skoptímarit sem hann kallaði The Rolling Stone. Tímaritið náði þó nokkrum vinsældum en William var ekki kaupsýslumaður. Blaðið fór á hausinn eftir ár en hann virtist ekki taka það nærri sér. „Steinninn rúllaði í ár en þá var augljóst að hann var að verða ansi mosavaxinn,“ sagði hann síðar um þetta ævintýri.

William fékk næst vinnu hjá The Houston Daily Post og fékk þar sinn eigin dálk sem hann bæði skrifaði og myndskreytti. Vinnan átti vel við hann og í fyrsta sinn var hann ánægður með starf sitt. En þá dró ský fyrir sólu. Hann var kallaður fyrir rétt í Austin sakaður um fjárdrátt úr bankanum þar sem hann var gjaldkeri. William lagði af stað til Austin þess albúinn að standa fyrir máli sínu en einhvers staðar á leiðinni snerist honum hugur. Sennilega hefur tilhugsunin um að hann kynni að lenda í fangelsi ekki freistað hans. Hann fór úr lestinni í Hempstead og tók þaðan lest til New Orleans og þar fékk hann far með bananabát til Hondúras.

Boðskapurinn í The Gift of the Magi er fallegur þótt sagan sé vissulega kaldhæðnisleg.

Vingaðist við bankaræningja

Þar tókst fljótlega vinátta með honum og lestarræningjanum Al Jennings. Al og bróðir hans Frank voru á flótta undan bandarísku réttvísinni rétt eins og William. Síðar lýstu þeir bræður fjálglega upptækjum þeirra félaga í Hondúras og Al skrifaði bók um kynni þeirra af skáldinu. Þeir buðu William að taka þátt í bankaráni en hann neitaði og kvaðst ekki einu sinni mundi geta haldið í hestana fyrir þá bræður en það bendir tæplega til þess að hann hafi verið líklegur til að hafa dregið sér fé.

Athol var trú og trygg bónda sínum og pakkaði meðal annars eitt sinn saman jólapakka handa honum þegar hún var fárveik og með háan hita. Þegar William gerði sér grein fyrir hversu veik hún var kaus hann að snúa til baka þótt hann vissi að það þýddi fangelsisvist. Hann var handtekinn um leið og hann kom en sleppt gegn tryggingu og meðan hann beið réttarhalda horfði hann á eiginkonu sína deyja. Við réttarhöldin sat William áhugalaus og lét lögfræðingi sínum eingöngu eftir vörnina. Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi sem hann sat af sér og meðan hann var þar skrifaði hann til tengdamóður sinnar og sagði henni að hann væri alsaklaus og hann vonaði að nokkrir vinir hans tryðu enn á hið góða í honum. Fangelsisvistin varð honum hins vegar til góðs því innan múranna byrjaði hann að skrifa smásögur undir höfundarnafninu O’Henry.  Þegar honum var sleppt þremur árum síðar var hann frægur um gervöll Bandaríkin.

Þrátt fyrir ömurlegar aðstæður í fangelsinu, menn dóu nánast daglega ýmist úr berklum eða styttu sér aldur, hélt hann áfram að skrifa. Hann hélt til New York um leið og honum var sleppt og þar fékk hann vinnu sem blaðamaður við tímaritið Ainslee’s. Fyrsta bók hans Cabbages and Kings kom út 1904 og byggir hún á Hondúrasævintýrinu. Bókin varð mjög vinsæl og þýdd á ótal tungumál O’Henry var orðinn ríkur maður. Hann var þó heldur ófélagslyndur og hélt sig mest á krám þar sem hann drakk ómælt viskí. Hann pantaði gjarnan einn drykk handa sér og annan handa hinum ósýnilega félaga sínum. Hann þvældist um með lágstétta- og utangarðsfólki í New York þess á milli og meðal þeirra gerast margar af sögum hans.

Um tíma leit þó út fyrir að hann ætti eftir að fá nýtt tækifæri til hamingju í lífinu þegar Sara æskuástin hans skrifaði honum. Hún hafði heyrt að O’Henry væri enginn annar en Will Porter og leitaði hann uppi. Þau hittust og vel á fór með þeim en hann var of illa farinn af drykkjuskap til að eiga sér viðreisnarvon. Hún sneri heim aftur og hann lokaði sig af í herbergi sínu og drakk ómælt. Fárveikur sendi hann að lokum eftir hjálp eins af ritstjórum sínum sem kom honum á spítala þar sem hann dó tveimur dögum seinna. Hann var fjörutíu og sjö ára gamall og aleiga þessa vinsæla rithöfundar var 23 sent á dánardægrinu.

 

%MT: MYND 1:

%MT. Mynd 2:

%Mt: Mynd 3: Tímaritið The Rolling Stone sem O’Henry stofnaði og ritstýrði.

%MT: Mynd 4: Snilli O’Henry’s í smásagnagerð mótaðist meðan hann sat í fangelsi.