Minningar bjarga menningarverðmætum

Stúlka með fálka – er önnur sjálfsævisaga Þórunnar Valdimarsdóttur en jafnframt hennar 31. bók. Þórunn er mjög fjölhæfur rithöfundur, er jafnvíg á skáldssögur og sagnfræðilegar bækur enda sagnfræðingur að mennt. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, 14 tilnefningar, 8 verðlaun og fálkaorðu. Stúlka með fálka fjallar um ævi Þórunnar frá 9. áratugnum, fullorðinsárin, skrif hennar og líf og segir Þórunn að það hafi verið heilandi að skrifa endurminningarnar og vill að fólk hugi að því að skrifa minningar sínar áður en það verði of seint.

Minningarskrif eru heilandi

Þórunn hvetur fólk til að byrja, bæði fyrir afkomendur og það sjálft, og segir að minningaskrif séu „mikilvæg aðferð til færa töfra lífsins fram til lesenda. Það er svo heilandi að skrifa, stafsetning skiptir engu máli og það er núna hægt að tala inn á tölvu sem breytir töluðu orði í texta. Það er heilandi líka að taka til í höfðinu á sér, með því að skrifa sjálfsævisögu. Ég var orðin leið á að skrifa um alla þessa karla, Matthías Jochumsson, Snorra á Húsafelli, Jakob Frímann, Skúla fógeta og Natan Ketilsson, þannig að það var kominn tími á mig. Þetta er önnur sjálfsævisaga mín en fyrri bókin hét Stúlka með höfuð og var þroskasaga.

Mig langar að segja jafnöldrum mínum þær góðu fréttir að ég las nýlega að áhyggju heilafrumurnar deyja fyrstar í höfðinu á okkur. Gullnu árin taka við eftir sjötugt og dásamlegt er þá að lifa ef maður er frískur. Afar mikilvægt er að hafa eitthvað fyrir stafni. Fólk verður á efri árum markvisst að finna sér viðfangsefni og eitthvað að gera. Maður getur ekki horft á sjónvarpið allan daginn.“

Fékk hugmyndina fyrir rúmum 40 árum

„Það er langt síðan mig langaði að verða rithöfundur. Ég var í tvítyngdum listaháskóla í Mexíkó 1977-1978. Þar var boðið upp á námskeið í ritlist, svo snemma beygðist krókurinn, þarna fann ég hvað ég þráði að skrifa skáldskap. Sjálfsævisögur eru ein mikilvægasta bókmenntagreinin. Þær bjarga miklum menningarverðmætum frá glötun. Mig langaði fyrir löngu að halda námskeið fyrir eldra fólk þar sem það myndi skrifa minningar sínar. Ingibjörg Sólrún var þá borgarstjóri og henni leist vel á. En eitt er að fá hugmynd en annað að framkvæma þær,“ segir hún og hlær. „Það varð ekkert úr þessu, ég hafði alltaf svo mikið að gera. Fólk er í alls konar klúbbum og margir eiga góð stofuborð eða borðstofuborð og fólk gæti sameinast í hópa með fólki á öllum aldri sem hefur áhuga á að skrifa minningar. Ritlist er kennd uppi í Háskóla og víðar, þar hafa margir höfundar tekið fyrstu skrefin. Fólk gæti líka sjálft hist og skrifað, hvatt hvert annað og lesið yfir texta hinna. Annað sem mér datt í hug væri að hafa sérstök merkt „Opin borð“ á kaffihúsum þar sem einmana fólk gæti hist og spjallað. Einmanaleiki er hryllileg meinsemd í samfélaginu, láttu mig þekkja það, ég hef verið ekkja í 11 ár. Þá gætu menn sest þar og spjallað og kynnst fólki, eignast nýja vini.“

 Það er ferli fyrirgefningar að skrifa sjálfsævisögu

„Allt er stórt sem ég geri,“ segir Þórunn þegar blaðamaður imprar á hve stór bókin hennar sé. „Bækurnar mínar eru langar. Það sem kom þessum skrifum í gang var það að ég flutti vinnustofuna mína í ReykjavíkurAkademíunni tímabundið heim. Þá áttaði ég mig á því hvað ég átti fínt efni í minningabók, því sagnfræðingurinn í mér setti öll bréf og skjöl í umslög og geymdi. Það hristi líka upp í mér að tvö systkini mín eru með heilabilun sem þau hafa erft frá Þórunni móðurömmu okkar. Það er eins gott að skrifa minningabók áður en ég ruglast líka, hugsaði ég.“

Þórunn segist vera hrifin af ævisögum og segir að skáldskapur sé ekkert annað er minningar fólks sem er færður í skáldlegan búning. „Allt sem fólk gerir og upplifir er mögulegur efniviður í ævisögu eða skáldskap. Mér finnst að það eigi að hafa sérstakan flokk í Bókmenntaverðlaununum fyrir ævisögur. Sjálfsævisögur fá sjaldan verðlaun en ævisögur sem eru sagnfræðilegar lenda í flokki fræðilegra bóka. Þannig bækur færa töfra tilverunnar til lesenda og lesendur draga heilmikinn lærdóm af lestri slíkra bóka. Þau sem eru af sömu kynslóð geta baðað sig í sínum eigin minningum um leið og þau lesa.“

Aðspurð segist Þórunn hafa verið fljót að skrifa þessa minningasögu. „Ég hefði getað skrifað miklu meira, 5-10 sinnum lengri bók, en allt er best í hófi. Það er líka fullt af myndum í bókinni, bæði ljósmyndir og mínar eigin teikningar.“

Segðu mér aðeins frá bókinni þinni. „Ég læt alls ekki allt flakka í henni. Ég er pínu viðkvæm að hún sé auglýst þannig, en ég er bara einlæg. Ég segi frá kostum mínum og göllum, einlæglega. Bókin er í raun bautasteinn, ég segi í stuttu máli frá öllum helstu ritverkum mínum, þannig að þetta er flott egóflipp,“ segir hún og hlær.

Hvers vegna sjálfsævisaga, er einhver ákveðinn tilgangur með því? „Þetta er á vissan hátt ferli fyrirgefningar, bæði gagnvart öðrum og sjálfri mér. Þannig verða skriftirnar einskonar þerapía. Ég er hreinskilin en passa mig að tala ekki illa um aðra í bókinni, ég hatast ekki út í neinn. Það eina sem gerir manneskjuna hamingjusama er að hafa afrekað eitthvað eða lokið einhverju, hvað sem það er en ánægjan varir í allt of stuttan tíma af því við viljum strax fara að sinna næsta afreki. Ég er svo hamingjusöm, og mér finnst frábært að vera komin á „sjöuna“,“ segir Þórunn, „ég keyrði þetta hugtak fyrst inn í bókinni um Jakob Frímann, mér fannst svo ómögulegt að segja alltaf á 8. áratug síðustu aldar.

Ég er búin að skrifa 31 bók og fæ mikið þakklæti fyrir á förnum vegi. Ég sé að fólk sem hefur notið þeirrar blessunar að gefa mikið af sér verður oft hundgamalt. Það er hluti af því að nenna lifa að einhver kunni að meta mann.

Ég er glöð að hafa komið þessari bók frá mér og finnst ég hafa skilað mínu, á nokkrar óskrifaðar bækur á borðinu, ef tilverunni þóknast að spara mig til þess.“

Vöntun á kvenfyrirmyndum

Þórunni er þakklát fyrir að hafa lifað það að sjá kvenfrelsi blómstra á Íslandi. „Mín kynslóð hafði ekki marga innlenda kvenhöfunda sem fyrirmyndir. Það var helst Svava Jakobsdóttir sem naut virðingar. Talað var hæðnislega um kerlingabækur, en þegar ég las bækur Guðrúnar frá Lundi varð ég heilluð. Bragð er af er þjóðin finnur. Engin leið var að gera lítið úr Svövu Jakobs, hún var menntuð í Ameríku og af sterku fólki, dóttir dómkirkjuprests. Ég tilbað Svövu, ekki síst Gunnlaðarsögu. Þegar Eggert Þór Bernharðsson, eiginmaður minn heitinn var að skrifa Reykjavíkurbækur sínar sá hann hve bækur Þórunnar Elvu Magnúsdóttur, móður Megasar, voru góðar. Ég er afar þakklát fyrir að hafa fæðst á þessu landi þar sem fólk er styrkt til að skrifa. Ég hefði ekki skrifað neitt ef ég hefði ekki fengið styrki, maður varð að eiga í sig og á og maður vinnur ekki við skriftir á kvöldin. Listamenn segja að það séu um fjórar klukkustundir á dag sem maður er skapandi, en það er hægt að dúlla í allskonar léttari vinnu það sem lifir dags. Þórunn amma lét mömmu skrifa bernskuminningar sínar úr Reykjavík, Bernsku í byrjun aldar kornunga, og seinna gaf mamma út ljóðabók. Amma mín í föðurætt var náskyld skáldinu góða, Guðmundi Inga á Kirkjubóli í Önundarfirði. Þannig að bóklistum var haldið að mér þegar ég var barn, eplið og eikin og allt það.“

Teikning eftir Þórunni.

Breyttir  tímar

„Áður fyrr þegar bækur komu út voru ritdómar birtir í öllum dagblöðum um allar bækur sem komu út. Fólk var á launum við að skrifa dóma en nú eru birtir einungis Morgunblaðið stöku dóma. Þetta er hættuleg þróun.  Bækur hafa lækningamátt, þær eru lífselexír. Bóklestur er róandi. Rannsóknir sýna að við öndum helmingi hraðar en við gerðum árið 1900, þetta er mælikvarði á spennuna í fólki sem er alltaf á spani að keyra og sækja börnin, klára verkefni í tíma o.s.frv. Það eru ekki allir jafn heppnir og ég að geta gengið og þurfa ekki bíl, ég tek svo bara leigubíl þegar ég vil og þarf. Þetta er mjög gott fyrir heilsuna og budduna.“

Það hlýtur að vera sitthvað að skrifa skáldsögu eða sagnfræðirit, gerir þú eitthvað upp á milli? „Nei, það er ekkert svo ólíkt að skrifa skáldsögu og sagnfræðilegar bækur, sagnfræðin gætir þess að slúðrið verður ekki ofan á, heldur sannleikurinn. Ég elska öll vísindi og fræði og það sem þau hafa gert fyrir okkur.Ω“

Þórunni er margt til lista lagt, fyrir utan að skrifa og teikna þá söng hún sem barn einsöng með Kór Hlíðaskóla „Guð gaf mér eyra“ og jafnframt með sama kór tvö lög í sænska sjónvarpinu, í þætti sem var gerður um íslenska æsku.

Hér má heyra Þórunni unga syngja Guð gaf mér eyra:

https://thorvald.is/wp-content/uploads/2015/01/Guð-gaf-mér-eyra1.m4a

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna