„Það er aldrei of seint að byrja að læra að dansa. Hjá okkur finna allir eitthvað við sitt hæfi. Við dönsum fyrir gleðina,“ segir Lizy Steinsdóttir danskennari. Þetta er sjötti veturinn sem Lizy kennir dans hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík. Sjálf er hún búin að dansa í þrjá áratugi, er fyrrverandi keppniskona í dansi og hefur kennt í mörg ár. Í vetur verða kenndir samkvæmisdansar, svo sem Enskur vals, Tangó og Quick step og suður-amerísku dansarnir Rumba, Cha cha cha, Samba og Jive. Þá er það línudansinn og svo er framhaldsflokkur í samkvæmisdönsum.
Sumir eru að stíga sín fyrstu spor
„Það er fólk sem komið er yfir miðjan aldur sem sækir tímana hjá okkur, fólk á aldrinum 65 til 92 ára. Sumir eru að stíga sín fyrstu spor á dansgólfinu en kennslan er miðuð við að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Lizy. Hún segir að dansinn sé góð hreyfing, þol, þrek og jafnvægi batni. Þeir sem ekki hafa dansfélaga geta mætt í línudansinn. „Hann hentar öllum,“ segir Lizy. Danskennslan í Reykjavík verður í Stangarhyl 4 og hefst 14. september. Kennt verður á fjögurra vikna námskeiðum. Hvert námskeið kostar 3000 krónur fyrir félagsmenn en 3.200 krónur fyrir utanfélagsmenn. Svo er að drífa sig af stað og dansa inn í veturinn.