Aldurinn flæktist ekki fyrir skólafélögunum

Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar

Þuríður Sigurðardóttir, söngkona og listmálari, er fædd í húsinu sem Laugarneshverfið dregur nafn sitt af árið 1949. Hún ólst upp í stórum systkinahópi, pabbi hennar var dægurlagasöngvari og mamma heimavinnandi lengst af en fór í sjúkraliðanám þegar krakkarnir voru á barnsaldri og starfaði á Kleppsspítala eftir það. Þegar Þuríður var sautján ára varð hún dægurlagasöngkona í fullu starfi með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar en þar var í framlínu söngvarinn geðþekki Vilhjálmur Vilhjálmsson.

„Söngurinn varð mín aðalatvinna og allt nám fór forgörðum. Ég starfaði við dægurlagasöng í þessari hljómsveit í nokkur ár en gerðist flugfreyja árið 1973 og byrjaði að vinna hjá spænsku flugfélagi. Ég hafði verið föst í tónlistinni og fannst ég hafa tapað áttum. Mig vantaði víðsýni og þá fannst mér þetta upplagt tækifæri til að auka á þá víðsýni sem ég þráði. Lengst af starfaði ég sem flugfreyja á sumrin og vann við dægurlagasöng á veturna,“ útskýrir Þuríður.

Myndlist ekki framtíðaratvinna

Hún söðlaði um árið 1997 og hóf myndlistarnám, byrjaði á að fara í kvöldskóla með annarri vinnu og starfaði þá sem þula í sjónvarpi ásamt fleiru. Hún sótti svo um í Myndlista- og handíðaskólanum og fékk höfnun til að byrja með vegna aldurs en fékk inni árið 1998 og útskrifaðist 2001 með BA-próf frá Lístaháskóla Íslands. Það segir hún ákveðin straumhvörf því það hafi verið það sem hana langaði alltaf til að gera.

„Þar sem ég var alin upp í stórum systkinahópi þá kom þetta ekki til greina sem framtíðaratvinna, það var kannski ekki fyrirséð að hægt væri að hafa tekjur af þessu og ekki möguleiki á námslánum á þeim tíma og þar með fór það fyrir bí. Ég hef stundum sagt að ég hafi sungið í svefn þessa löngun mína til að búa til myndlist því að í sjálfu sér eru þetta líkar greinar. Margir myndlistarmenn spila á hljóðfæri eða syngja meðfram og öfugt þannig að sennilega eru þarna sömu heilastöðvarnar að verki,“ segir hún.

Aldurinn réði óháð frammistöðu

„Þegar ég komst ekki inn í skólann á sínum tíma þá fannst mér það erfitt. Ég hafði lagt hart að mér og fengið 10 í einkunn úr fornáminu og verið sú eina í hópnum sem fékk svo háa einkunn en komst samt ekki inn. Ég treysti því að fagnefndin sem valdi inn í skólann hefði rétt fyrir sér en mér var ráðlagt að spyrjast fyrir um af hverju ég hefði ekki komist inn og fékk þau svör að þegar valið hefði staðið milli tveggja einstaklinga þá hefði aldurinn ráðið hvor færi inn óháð einkunnum og frammistöðu,“ segir Þuríður og lýsir því að hún hafi farið að skæla þegar hún vissi ástæðuna en þetta hafi allt endað vel og hún komist inn.

Þuríður fékk ég stuðning frá fjölskyldunni og fór á bólakaf í námið. Hún hefur verið starfandi myndlistarmaður alla tíð síðan og kennir nú olíumálun meðfram eigin listsköpun. Hún hefur ekki sagt skilið við sönginn nema að því leyti að hún er hætt að hafa hann sem lífsviðurværi. Hún var með tónleika í Salnum síðast liðið vor,  í þriðja sinn á sex ára tímabili.

„Mér finnst gaman að sinna tónlistinni því líf listamannsins er einmanalegt. Hann er aleinn dag eftir dag meðan í söngnum er samvinna við aðra tónlistarmenn og síðan við áhorfendur eða áheyrendur. Mér finnst þetta stundum ótrúlega ólíkir heimar sem ég hef valið að vinna í, annars vegar einangrun í myndlistinni sem hentar mér ágætlega því að ég er að upplagi frekar feimin en þegar ég dett inn í tónlistina þá eru áherslurnar allt aðrar,“ segir hún.

Vildi taka u-beygju

Hún lýsir því þegar hún var á leiðinni í skólann fyrsta daginn og segist aldrei hafa fengið eins mikla löngun til að taka u-beygju og snúa við. „Þegar mann hefur dreymt lengi um eitthvað og sóst fast eftir því þá er svo skrítið að horfast í augu við það, drauminn sem allt í einu verður að veruleika. Ég held að ég hafi aldrei verið eins hrædd. Mig langaði kannski bara til að eiga þennan draum áfram og án þess að taka ábyrgð á einu eða neinu, sú augnablikshugsun kom upp í mér. En þegar ég stóð með fólkinu þá fann ég strax að ég átti þarna heima þrátt fyrir aldursmun. Og ég fann aldrei neitt fyrir því að ég væri ekki á réttum stað. Aldurinn var ekki flækjast fyrir samnemendum mínum. Það eina sem aðskildi okkar var að ég nennti ekki á barrölt um helgar,“ segir Þuríður.

Hún útskýrir hvernig aldursmunurinn hafi að sínu mati verið til góðs, nemendur hafi sótt í hana sem sér eldri þegar kom að persónulegum málum og hún hafi lært helling af þeim. „Mér finnst gott að hafa fengið tækifæri til að vinna með yngra fólki. Það hefur líka reynst vel í tónlistinni þar sem ég hef teflt sjálfri mér gegn yngra fólki sem hefur hlustað á tónlistina frá því ég söng inn á vinýlplötur og fengið það til að útsetja lögin upp á nýtt, gamalt vínyl á nýjum belgjum. Ég hefði ábyggilega aldrei lagt í þá vegferð nema út af þeirri góðu reynslu sem ég hef af því að vinna með yngra fólki,“ segir hún.

Þuríði finnst fagnaðarefni að fá að eldast og fá að eldast í því umhverfi að njóta fjölskyldu og vina á ólíkum aldri. „Mér finnst rosalega gott að eldast. Ég held að ég sé miklu hamingjusamari í dag hálfsjötug en ég var hálfþrítug. Mér finnst allt gott við það að eldast,“ segir hún.

 

 

 

Ritstjórn júlí 14, 2014 14:00