„Ég hef oft lýst því yfir að þann dag sem ég færi að kenna barnabarni fyrrverandi nemanda ætlaði ég að hætta að kenna, bara ganga út úr skólanum,“ segir Þórunn Björnsdóttir, tónmenntakennari og kórstjóri í Kársnesskóla síðastliðin 39 ár, eða frá því hún var 21árs nemi í kennaradeildinni í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Svo dramatísk varð útgangan þó ekki, því hún hafði ekki hugmynd um hver væri amma lítillar stúlku í fyrsta bekk fyrr en í lok skólaársins. Þá var Þórunn búin að skrá sig í nám í menningarstjórnun við Háskólanum á Bifröst.
Bréfið varð til að ýta við mér
Samanlagður lífaldur og starfsaldur Þórunnar var 95 ár sl. haust og um svipað leyti barst henni bréf frá lífeyrissjóðnum um að hún gæti farið á eftirlaun þegar hún yrði sextug. Þeim áfanga náði hún svo í mars. „Ég hafði auðvitað gert mér grein fyrir þessum tímamótum, en bréfið varð til að ýta við mér og ég fór að velta fyrir mér ýmsum tækifærum til að breyta til, gera eitthvað nýtt, til dæmis að fara í nám eða ferðast,” segir Þórunn, sem – þá enn allsendis óráðin um hvað hún tæki sér fyrir hendur- sótti um eins árs námsleyfi.
Menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst var það fyrsta sem henni datt í hug og tveimur dögum áður en umsóknarfrestur rann út lét hún til skarar skríða. „Ég er full tilhlökkunnar, en líka kvíðin og dauðsmeyk um að ég geti ekkert lært, enda hef ég ekki setið á skólabekk síðan ég var 23 ára.“
Alltaf á sömu þúfunni
Óttinn virðist þó ástæðulaus í ljósi þess að Þórunn hefur í áratugi ekki einungs kennt tónmennt og stjórnað stórum barnakórum heldur líka verið á kafi í félagsstörfum. Hún hefur setið í stjórn Tónmenntakennarafélagsins, í stjórn norrænna tónlistarkennara og skipulagt fjölda kóramóta og tónlistarviðburða. Hún hefur jafnframt farið með kórinn sinn á ótal kóramót innanlands og í útlöndum og tekið á móti tugum erlendra kóra. Samt segist hún í rauninni alla sína ævi hafa verið á sömu þúfunni; í vesturbæ Kópavogs. Þar í bæ eru ábyggilega sárafáir sem ekki þekkja Tótu kórstjóra, enda hefur tónlistaruppeldi tveggja kynslóða verið í hennar höndum. Sú þriðja mun væntanlega einnig njóta starfskrafta hennar að einhverju leyti, því ef að líkum lætur verður hún eins og grár köttur í skólanum þar til yfir lýkur, svo notuð séu hennar eigin orð. Þeir sem þekkja Þórunni þekktu líka manninn hennar, Martein H. Friðriksson, dómorganista og tónmenntakennara, því þrátt fyrir annir í sínu starfi var hann undirleikari kórsins.
Fyrsta árið var martröð
„Ég eignaðist mitt fyrsta barn þegar ég var 19 ára og strax eftir útskrift frá Tónlistarskólanum fékk ég fastráðningu í Kársnesskóla. Líf mitt hefur alla tíð snúist um fjölskyldu mína, tónlistina, kórastarfið og þennan dásamlega vinnustað sem Kársnesskóli er. Ég hef alltaf haft gaman af að stússast í mörgu. Við Marteinn vorum bæði á kafi í tónlist og gátum sjaldan tekið frí, allar helgar og hátíðir voru undirlagðar af tónlistarstarfi hvors okkar um sig og sameiginlegu. Þótt alltaf stæði til að ferðast og búa tímabundið erlendis, vorum við svo upptekin af vinnu að við gáfum okkur aldrei tíma til þess.” segir Þórunn. En svo lést Marteinn um aldur fram eftir stutt og hastarleg veikindi og þá urðu eðlilega mikil umskipti í lífi Þórunnar. “Fyrsta árið var martröð og ég átti erfitt að fóta mig í þessu nýja lífi og sjá til sólar. Það var ekki fyrr en vinkona mín fór að draga mig í fjallgöngur að landið fór að rísa á ný.”
Verður á heimavistinni á Bifröst
Þótt aðstæður hafi breyst hyggst hún gera drauminn um ferðalög að veruleika; nota tækifærið. „Ég fór í fimm vikna ferðalag með vinkonum mínum um SA– Asíu í fyrra og það var ólýsanleg upplifun. Við ferðuðumst frá Kína til Burma og þaðan til Taílands, Kambódíu og Víetnam. Með IPadinn í fanginu skipulögðum við ferðalagið frá degi til dags og ég öðlaðist mikið sjálfstraust þessar vikur.“ Þórunn er þegar flutt út úr húsinu sínu á Kópavogsbraut, þar sem hún á þó vísan samastað hjá syni sínum og fjölskyldu. „Námið skiptist í fimm staðarlotur og þá verð ég á heimavistinni á Bifröst, en þess á milli er fjarnám og þá ætla ég að flakka um og dvelja í útlöndum. Þetta er meðvituð ákvörðun því annars héldi ég trúlega áfram að skipta mér af öllu í Kársnesskóla og svo veit ég bara að ég get ég aldrei sagt nei þegar ég er beðin um að gera eitthvað. Minn stærsti galli,“ segir Þórunn. „Eða kostur kannski,“ bætir hún hugsi við.
Gleymdi mér og hundinum
Eitt af því erfiðasta við að láta drauminn um nám og ferðalög rætast segir hún vera viðskilnaðinn við hundinn sinn, Tinna, sem hefur fylgt henni í fjögur ár. „Sonur minn fékk hvolpinn eftir lát föður síns, en svo eignaðist hann kærustu og gleymdi mér og hundinum,” útskýrir Þórunn brosandi. „Ég sat uppi með Tinna, sem er alveg dásamlegur og mér þykir svo vænt um að ég var næstum hætt við allt saman. En ég er vonandi búin af finna honum afskaplega góða fjölskyldu þannig að nú er mér ekkert að vanbúnaði.“
Þá þótti Þórunni ekki síður erfitt að kveðja nemendur sína. Hún viðurkennir að hafa ekki treyst sér til þess, stungið af í skólaslitunum og falið sig inn í tónmenntastofu. „En ég á örugglega eftir að fara nokkrum sinnum í heimsókn í vetur. Mér þykir náttúrlega óendanlega mikið vænt um þessi börn.“
Skólakórar gufa upp
Þegar námsleyfinu lýkur hyggst Þórunn taka sér tíma að skrifa meistararitgerðina, en vera jafnframt, eftir því sem tími gefst til, viðloðandi tónlistarstarfið í Kársnesskóla.
„Mér svíður sárt að skólakórar hafa nánast gufað upp síðasta áratuginn, sérstaklega eftir að kreppan skall á með tilheyrandi sparnaði í skólastarfinu. Markmið mitt með náminu er fyrst og fremst að láta gott af mér leiða í þágu tónmenntakennslu og kórastarfs, sem eru ótrúlega mikilvægir þættir í grunnskólastarfinu. Mig langar til að miðla reynslu minni og þekkingu og þeim tengslum sem ég hef aflað mér í áranna rás til ungra tónmenntakennara. Sjálf hef ég slampast í gegnum þetta tiltölulega áfallalaust og þakka það tilfinningagreind minni og bjartsýni, sem er kannski ekki alveg nógu traustur grunnur. Ég er bara mjög spennt að vita hvað ég kem til með að læra og síðan með hvaða hætti ég kem þekkingu minni til skila.”
Þórunni finnst skrýtin tilfinning að vera komin á eftirlaunaaldur, að vissu leyti svolítið eins og kjaftshögg. Eftir námið er hennar vænst í Kársnesskóla. „Síðan langar mig að gufa upp hægt og rólega og vera eftirmanni mínum til halds og trausts og vonandi koma að einhverju gagni,“ segir þessi verðandi meistari í menningarstjórnun.