Margir eiga sér þann draum að setjast að í útlöndum til lengri eða skemmri tíma. Mörgum finnst þó þegar þeir eru komnir yfir miðjan aldur að það sé orðið of seint. Það vafðist þó ekki fyrir honum Kristjáni E. Guðmundssyni, fyrrverandi kennara við Fjölbrautarskóla Vesturlands að elta drauma sína og flytjast til Berlínar, stuttu eftir að hann fór á eftirlaun. Síðast liðið haust pakkaði hann niður, yfirgaf Akranes og settist að í Berlín. „Það er ljúft að vera kominn til Berlínar. Mér líkar afskaplega vel hér,“ segir hann í símtali við Lifðu núna. Í Berlín býr Kristján í Lichtenberg hverfinu í Austur Berlín. „Það má eiginlega segja að Berlín sé samsett úr 12 sjálfstæðum borgum, ekki ólíkum sveitarfélögum á Íslandi. Hver borg hefur sína eigin stjórn og innan hvers hverfis er allt til alls, heilsugæsla, skólar, verslanir og veitingahús. „Hverfið sem ég bý í er rólegt og gott,“ segir hann ánægður og bætir við að bakaríið, slátrarinn, rakarinn og öll sú þjónusta sem þann þurfi sé í göngufjarlægð við heimili hans.
Ætlar á þýskunámskeið
Kristján hefur ekki setið aðgerðarlaus síðan hann flutti, dreif sig á leirlistarnámskeið í vetur og er að byrja á þýskunámskeiði. „Ég er slarkfær í þýsku en vantar þennan dýpri skilning á tungumálinu. Maður kemst þokkalega af með ensku hér en ef maður ætlar að setjast að verður maður að læra tungumálið almennilega,“ segir hann. Kristján segir að ástæðan fyrir því að hann valdi Berlín hafi verið sú að hann fékk eins árs námsleyfi fyrir nokkrum árum og ákvað að nota það til að nema Evrópufræði við Freie Universitat. „Mér fannst afskaplega gaman á þessu námskeiði og líkaði vel við borgina. Ástæðan fyrir því að ég lærði ekki þýsku almennilega á meðan ég var hér var sú að öll kennsla fór fram á ensku og námsefnið var á því tungumáli. Eftir að ég kom aftur heim langaði mig til að flytja út aftur.“ Hann fór á eftirlaun 2013 og hálf leiddist eftir að hann hætti að vinna. Berlín varð ágengari í huga hans. Kristján tók svo af skarið og hafði samband við vin sinn sem búið hafði í Berlín en var nú fluttur til Íslands og spurði hvort hann gæti aðstoðað sig við að leita að íbúð í Berlín. Sá hinn sami svaraði að bragði að hann gæti fengið íbúðina sem hann hafði þá enn á leigu þar. Kristján var ekki lengi að taka því kostaboði.
Mikið um að vera í Berlín
Kristján segist hafa nóg fyrir stafni í Berlín. „Hér eru mörg söfn, leiksýngar og óperusýningar. Ég er duglegur að fara á allskonar menningarviðburði,“ segir hann. Fyrir suma sem vilja flytja er félagslegi þátturinn kannski erfiður. Ég á tvö börn á
Íslandi og barnabörn. Sonur minn og fjölskylda búa í Noregi. Það er hins vegar orðið mjög auðvelt að vera í sambandi við þau öll. Nútímatækni gerir það að verkum. Fésbók, tölvupóstur, skype og svo framvegis. Svo er ekki svo dýrt að fljúga heim. Ég fór til dæmis til Íslands til að vera viðstaddur fermingu eins barnabarnsins í vor og það kostaði ekki nema 24 þúsund krónur. Ég á líka vini hér. Við erum nokkrir gamlingjar sem hittust reglulega,“ segir hann og hlær og bætir við að hann hafi fengið nokkrar heimsóknir frá vinum og ættingjum í vetur. Kristján segir að Berlínarbúar séu upp til hópa bæði vingjarnlegir og hjálpsamir. „Það hefur legið það orð á þeim að þeir séu dáldið hver fyrir sig og ekki mikið fyrir samskipti við aðra. Ég hef hins vegar ekki kynnst þeirri hlið á þeim,“ segir hann.
Þarf ekki að eiga bíl
Eins og áður sagði flutti Kristján út síðast liðið haust og hefur því orðið dágóða reynslu af því að lifa á eftirlaununum sínum í Berlín. „Það er miklu betra að komast af á eftirlaununum hér en heima. Það er allt mikið ódýrara. Það kostar lítið að kaupa í matinn, maður getur farið út að borða fyrir tíu til fimmtán evrur sem samsvarar 1400 til 2000 krónum. Svo eru almenningssamgöngur mjög góðar. Hér þarf maður ekki að eiga bíl sem er stór kostnaðarliður á Íslandi. Hér væri fáránlegt að vera á bíl. Ég er ekki nema um það bil tíu mínútur niður í miðbæ með almenningssamgöngum,“ segir hann. Kristján segir að það sama gildi um læknisþjónustu. Hún sé góð og kosti ekkert. „Lyf eru miklu ódýrari. Á Íslandi greiddi ég 7000 krónur fyrir þriggja mánaða lyfjaskammt. Hér kostar sami lyfjaskammtur 5 evrur eða 700 krónur. Grunn tannlæknaþjónusta er líka frí. Það munar verulega um þetta allt segir hann. Eftirlaunin duga miklu betur hér en heima,“ segir Kristján og bætir við að einn af kostum þess að búa í Berlín sé að borgin sé nokkuð miðsvæðis í Evrópu. „Það kostar lítið að ferðast til nágrannalandanna. Ég er nýkominn úr ferð til Póllands og fargjaldið fram og til baka kostaði um 15 evrur sem samsvarar um 2000 krónum. Þetta er mikill kostur í mínum huga enda hef ég ákaflega gaman að því að ferðast,“ segir hann að lokum.