Það kannast áreiðanlega margir við að barnabörnin hafa áhuga á að horfa á sjónvarp eða leika sér í tölvu þegar þau koma í heimsókn til afa og ömmu. Þá er um að gera að finna uppá einhverju öðru til að gera með þeim. Í lítilli bók sem heitir Reykjavík barnanna er bent á ýmislegt skemmtilegt sem hægt er að gera með börnum í borginni.
Eitt af því er að skipuleggja ferð í miðbæ Reykjavíkur og taka strætó í stað þess að fara á bíl. Mörgum börnum finnst skemmtilegt að fara í strætó en gera það ekki oft. Það er til dæmis hægt að skipuleggja ferð í Hallgrímskirkjuturninn, en hann er 73 metra hár og frá honum sér yfir alla borgina og fjallahringinn umhverfis. Lyftan í turninum gengur uppá 8 hæð. Hægt er að ganga frá kirkjunni niður í Kvosina og fá sér hressingu í leiðinni á kaffihúsi á Skólavörðustíg eða Laugavegi. Eftir það er hægt að fara niður í ráðhús og skoða líkanið af Íslandi sem er þar á fyrstu hæðinni, en þar er jafnan fjöldi fólks að skoða. Þannig er hægt að fá heilmikið útúr einum eftirmiðdegi með barnabörnunum.