Ástarþríhyrningur í Sæluvímu eftir Lily King

Sæluvíma eftir Lily King er athyglisverð og óvenjuleg saga, sem Bókaútgáfan Angústúra gefur út. Hún er um þrjá unga mannfræðinga sem fara til Nýju-Gíneu, sem er norður af Ástralíu, til að rannsaka  líf frumbyggja þar. Þetta er á fjórða áratug síðustu aldar. Á þeim tíma var mannfræðin ung fræðigrein,en ein þeirra þriggja sem sagan fjallar um, hin bandaríska Nell Stone hafði þegar getið sér nafn í greininni fyrir rannsókn sem hún gerði á Salómonseyjum um kynlíf barna og unglinga,en bókin um hana og vakti mikla athygli og hneykslan.

Hún var þarna í Nýju-Gíneu í rannsóknarvinnu ásamt eiginmanni sínum, Ástralanum Schuyler Fenwick. Þeim hafði ekki gengið neitt of vel að finna ættflokk til að rannsaka, voru frekar illa til reika og farin að hugsa sér til heimferðar. Þau tóku sér far með vélbát og hitta þar fjóra vesturlandabúa sem eru á sömu leið og þau. Nell hugsar sitt á leiðinni niður fljótið.

Hún  reyndi að leiða hugann frá þorpunum sem þau fóru framhjá, húsunum á stólpunum og eldstæðunum og börnum með spjót að veiða snáka í sefinu, öllu fólkinu sem hún myndi frara á mis við, ættbálkunum sem hún fengi aldrei að kynnast og orðunum sem hún myndi aldrei heyra, áhyggjunum af því að einmitt núna kynnu þau að vera að fara framhjá eina fólkinu sem forlögin hefðu í raun ætlað henni að rannsaka, fólki sem byggi yfir afburðahæfileikum sem hún myndi leysa úr læðingi, á sama hátt og það myndi leiða í ljós snilligáfu hennar sjálfrar, fólki sem hefði mótað lífshætti sem hún gæti fengið einhvern botn í.

Það voru margir mannfræðingar um hituna í Nýju Gíneu og fleiri en þau sem vildu rannsaka líf frumbyggjanna á þessu svæði. Þeirra á meðal Bretinn Andrew Bankson, sem hafði sett strik í áform þeirra á sínum tíma, með því að „helga“ sér svæði Kiona ættbálksins. Þau hitta hann fyrir tilviljun og eiginmaður Nell kynnir hann fyrir henni.  Það er Bankson sem segir þannig frá þeirra fundi.

 „Þetta er Bankson,“ sagði hann, eins og þau töluðu ekki um annað en mig, dag og nótt.

„Nell Stone,“ kynnti hún sig.

„Nell Stone? Hafði Fen kvænst Nell Stone? Hann var bragðarefur en í þessu virtist hann vera einlægur.

Aldrei hafði neinn minnst á það, þótt margt væri sagt um Nell Stone, að hún væri svona fíngerð, eða veikluleg. Hún rétti mér höndina og þvert yfir lófann lá lítt gróið svöðusár. Að taka í hönd mína myndi án efa valda henni óþægindum. Bros hennar birtist eðlilega, en að öðru leyti var andlitið guggið og yfir augunum virtist vera sársaukaslikja. Andlit hennar var smágert og stór augun voru reyklituð, eins og litla pokadýrið sem Kiona-börnin höfðu fyrir gæludýr.

„Þú hefur meiðst.“ Það munaði engu að ég segði veikst. Ég snerti hönd hennar lauslega, sem snöggvast.

„Særð en ekki fallin.“ Henni tókst næstum því að hlæja. Varir hennar voru dásamlega fallegar á þreyttu og þjáðu andlitinu.

Ég mun leggja mig svo mér blæði un stund, hljómaði framhaldið af þjóðkvæðnu í huga mér. Svo rís ég upp og berst með ykkur á ný.

„Það er alveg stórkostlegt að þú skulir enn vera hér,“ sagði Fen. „Við héldum að þú værir kannski farinn.“

„Ég hefði átt að vera farinn. Ég hugsa að Kiona-fólkið mitt myndi fagna því linnulaust í heila viku ef ég hypjaði mig. En maður á alltaf eftir að koma síðasta bitanum í púslinu á sinn stað, jafnvel þótt myndin sé öll skökk og kolröng.“

Þau hlógu mæðulega, til marks um innilegan, samúðarfuillan skilning sem var sem sálarbalsam fyrir tætingslegar taugar mínar.

„Maður hefur þetta alltaf á tilfinningunni þegar maður er á vettvangi, ekki satt?“ sagði Nell. „Svo snýr maður til baka og þá stemmir allt.“

„Gerist það?“ spurði ég.

„Ef þú hefur unnið vinnuna þína , þá gerir það það“.

Þetta varð upphafið að samvinnu þeirra í milli og flókins sambands milli þeirra þriggja. Nell leggur áherslu á að rannsaka líf kvenna og barna meðal frumbyggjanna, sem var nýtt. Persóna hennar er að hluta byggð á ævi hins þekkta bandaríska mannfræðings Margareth Mead, sem varð brautryðjandi í mannfræðinni einmitt fyrir rannsóknir sínar á hlutskipti kvenna. Bókin gerist í afar framandi umhverfi og er virkilega áhugaverð. Hún er líka mjög vel þýdd, en það var Uggi Jónsson sem íslenskaði. Sagan er margverðlaunuð, hefur komið út í 15 löndum og kvikmynd byggð á bókinni er í bígerð.

Ritstjórn júní 11, 2019 11:56