Listamannsspjall við Þórir Gunnarsson

Laugardaginn 1. nóvember kl. 14 mun listamaðurinn Þórir Gunnarsson taka á móti gestum á sýningunni Eldingu, sem stendur nú yfir í safninu í tengslum við List án landamæra en Þórir var fyrr á árinu útnefndur listamanneskja hátíðarinnar í ár. Þá munu Þórir og Unnur Mjöll S. Leifsdóttir, sýningarstjóri, ræða efnistök og áherslur í verkum hans.

Á sýningunni leiðir Þórir Gunnarsson, sem gengur einnig undir listamannsnafninu Listapúkinn, gesti inn í myndheim sem er jafnt persónulegur og býr yfir mikilli leikgleði. Þórir sækir innblástur hvaðanæva úr nærumhverfi sínu – svo sem úr strætó- og hlaupaferðum eða náttúrunni – og áhugi hans á mannlífi og íþróttum endurspeglast í krafti verkanna. Þá vinnur hann einkum með teikningu og vatnsliti og í verkunum renna saman athugun og upplifun þar sem lag eftir lag af efni og hugmyndum skapar nýjan veruleika.

Þórir starfar hjá Listvinnzlunni sem listamaður, ráðgjafi og aðstoðarkennari og hefur lagt áherslu á að auka aðgengi fatlaðs fólks að menningu og listnámi. Fyrir það frumkvöðlastarf hlaut hann Múrbrjót Þroskahjálpar árið 2021. Verk hans hafa verið sýnd víða, meðal annars í Norræna húsinu, Gerðarsafni og Listasafni Reykjavíkur, auk þess sem hann hefur verið útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.

Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.