
Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.
Einhver klók manneskja sagði mér að það væri hollt að hlæja. Ef það er rétt þá hef ég byrjað árið vel. Við skötuhjúin erum búin að hlæja síðan á nýjárskvöld yfir okkar eigin óförum með hátíðarkvöldverðinn þann fyrsta janúar.
Við erum tímabundið í elskulegri borg á Spáni og vorum búin að koma auga á veitingastað með útsýni yfir borgina. Þar ætluðum við að gera vel við okkur á þessu fyrsta kvöldi ársins. Við klæddumst okkar fínasta pússi og gengum upp hæðina í tunglskininu og tókum myndir.
Okkur var vel tekið og við fengum borð við glugga. Á næsta borði voru gráhærð hjón frá Danmörku. Við pöntum og þau panta. Ég er illa haldin af óþoli fyrir matarofgnótt og þriggja rétta máltíðir eru því ekki minn tebolli. Þar byrjaði vandamálið. Við ákváðum að slá til í tilefni kvöldsins og pöntuðum bæði nautasteikur. Svo ætlaði minn maður að skoða eftirréttatilboðið seinna. Ég drekk hvítvín og minn maður rauðvín. Við fengum botnfylli í sitt hvort glasið. Þau dönsku pöntuðu hvítvínsflösku og fengu hana með tilheyrandi smakki og kælifötu með.
Innan skamms fengu þau dönsku bornar fram risaskálar með forrétti sem átti alla þeirra athygli. Við biðum. Svo byrjaði ballið. Þjónustustúlkan kom með risavaxið bein á diski. Öðrum megin voru nokkrar þunnar kjötsneiðar með fitu og brjóski. Handan beinsins voru vesældarlegir kartöflubitar sem hefðu sennilega jafnast á við þrjár litlar kartöflur úr garðinum heima.
Við litlum hvort á annað og tókum sína sneiðina hvort og borðherrann minn veiddi nokkra kartöflubita og bætti á diskana. Við horfðumst í augu og sögðum með líkamstjáningunni að það hefði nú verið gott að fá salt og smá sósu. Á meðan þurrkuðu Danirnir salatskálarnar að innan með brauðinu sem þeir fengu með forréttinum.
Kjötátið tók fljótt af enda ekki af miklu að taka. Ég veit ekki hvaðan af skepnunni það var. Danirnir höfðu líka pantað nautakjöt í aðalrétt. Þegar beinið mikla var að hverfa úr augsýn kom þjónn með tvo diska til þeirra dönsku. Stórar, þykkar ferkantaðar nautasteikur fljótandi í sósu og sama magn af kartöflum á hvorum diski og við höfðum fengið saman.
Maðurinn minn var enn svangur og bað um matseðil og pantaði nýja umferð af víni. Matseðlinum var skellt á borði og rauðvín slettist á hvíta dúkinn þegar fyllt var á. Stúlkan kom og eftirrétturinn pantaður. Hún skellti tveimur skeiðum á borðið og spurði hvasst – To share? Hann játti því enda orðinn því vanur að ég vilji ekki eftirrétt en bragði gjarnan á réttinum hans.
Um leið og eftirrétturinn var horfinn, báðum við um reikning, borguðum og fórum út. Danirnir voru enn á að gæða sér á nautasteikunum enda vel við vöxt.
Þegar út var komið skoðaði ég reikninginn. Þar sá ég að við höfðum bara borgað fyrir einn aðalrétt. Þar lá hundurinn grafinn. Einhvern veginn hafði þjónustustúlkan tekið það í sig að við værum að panta einn kjötrétt og ætluðum að deila honum á þessu hátíðarkvöldi. Stóra beinið var greinilega svar eldhússins við því.
Ég vona að þriggja rétta máltíðin hafi farið vel í Danina en við hlógum alla leiðina heim. Ég sagði manninum frá tveimur amerískum konum sem ég ferðaðist með í sumar. Þær pöntuðu alltaf saman og deildu. Þær sögðust græða á þessu. Yfirleitt fengju þær jafn mikið og aðrir fyrir hálfvirði. Veitingastaðurinn okkar var greinilega búinn að finna svar við þess háttar ferðamönnum.
Áramótaheitið mitt í ár er þess vegna að panta aldrei sama aðalrétt og maðurinn minn bara til þess að fá ekki aftur risabein á borðið.
Myndatexti:
Maturinn var ekki upp á marga fiska en útsýnið þetta kvöld var óborganlegt







