„Frá mínum sjónarhóli er 67 ára ekki hið nýja 42 ára að minnsta kosti ekki ef ég miða við vinstra hnéð á mér sem ég meiddi mig á þegar ég var á skíðum fyrir 40 árum eða svo. Sannleikurinn er þó sá að mig verkjar stundum í hnéð en gleymi því þess á milli,“ segir Ann Brenhof í grein á vef Huffington Post. Lifðu núna endursagði greinina og stytti.
Ann bendir á að árið 2011 hafi 10 þúsund „baby boomers“ orðið 65 ára dag hvern í Bandaríkjunum og sama þróun verði til ársins 2019. Eftir því sem fólki fjölgi sem fari á eftirlaunaaldur sé rekinn harðvítugur áróður fyrir því að fólk eigi að forðast að eldast. „Að fólk eigi að eldast vel eða með reisn, sem feli í sér þá merkingu að fólk eigi ekki að líta út fyrr að hafa ekki elst nokkurn skapaðan hlut. Ég vil kveða þessar bábyljur í kútinn i eitt skipti fyrir öll. Af hverju eigum við að óska konunni til hamingju sem vann í genalottóinu og lítur út fyrir að vera 20 árum yngri en hún í raun og veru er. Af hverju að setja hana skör hærra í huga okkar en hinna sem líta út fyrir að vera á þeim aldri sem þeir eru. Af hverju eigum við að hampa þeim örfáu endalaust sem hlaupa maraþon, fara í fallhlífastökk og láta eins og allir geti gert þessa hluti hafi þeir vilja til þess. Hvers vegna komum við fram við fólk eins og það hafi fallið á aldursprófinu ef það sýnir merki um að það sé að eldast.“
Ann segist vera 67 ára og nýlega hafi henni verið sagt að hún liti ekki út fyrir að vera orðin svo gömul. „Þetta var sagt sem hrós en í raunveruleikanum þýðir það að það sé eitthvað slæmt við að eldast. Hugsum þetta aðeins á annan hátt. Ef ég er 67 ára þá er það þannig sem 67 ára kona lítur út. En í huga þess sem var að hrósa mér leit ég ekki út fyrir að vera á þessum aldri. Fyrir honum var slæmt að eldast. Ef ég lít út fyrir að vera 67 ára, lít ég þá út fyrir að vera gömul? Það fer eftir því hver stendur við hliðina á mér. Væri ekki betra að vera hreinskilin og viðurkenna hvað felst í hækkandi aldri. Þetta er brú sem við eigum öll eftir að fara yfir, einn góðan veðurdag. Að eldast fyrir mér er að vera nógu lengi hérna megin grafar svo ég geti gert það sem mig langar, til dæmis að hitta ófædd barnabörn mín. Í næstu framtíð þýðir þetta að ég ætla að borða rétt, hreyfa mig og viðhalda andlegri færni. Þegar lengra líður, getur það þýtt að það þurfi að skipta um ónýta liði eða eitthvað slíkt. Aðra þýðingu hefur það að eldast ekki fyrir mig,“ segir Ann.
Hún segist hafa bætt á sig nokkrum kílóum og hún sé ekki ósátt við það. „Ég ætla ekki til lýtalæknis til að láta lagfæra mig. Ég er með hrukkur og poka en það fylgir hækkandi aldri. Ég get hvorki né vil haldið mér vakandi lengur en til 11 á kvöldin. Ég á lesgleraugu og önnur sem ég nota þegar ég keyri. Ég get ekki borðað allan þann mat sem ég elskaði þegar ég var yngri til dæmis djúpsteikan mat. Hann fer illa í mig. Ég forðast líka að láta sólina skína á bert holdið, hún er orðin óvinur minn. Ég er líka búin að henda síðasta parinu af hælaháu skónum mínum auk kasmír rúllukragapeysunnar sem ég hélt einu sinni mikið uppá en hef ekki farið í síðan ég fór á breytingaskeiðið.
Í hverri viku frétti ég af einhverjum sem ég hef þekkt eða mökum þeirra sem hafa fengið alvarlega sjúkdóma eða hafa látist. Stundum stend ég sjálfa mig að því að leika þann leik að skoða dánartilkynningar og reyna að finna út, úr hverju fólk sem er yngra en ég hefur látist. Sjálf vil ég vera meðal þeirra sem þykir vænt um mig þegar hallar undan fæti hjá mér, ég vil ekki deyja ein.
Það er svo margt sem þarf að taka tillit til þegar maður eldist. Berum okkur ekki saman við íþróttamennina, þá sem unnu í genalottóinu, berum okkur heldur saman við þá sem eldast eins og við gerum flest. Fallhlífastökkvarnir, hlauparnir og þeir sem unnu í genalottóinu eru undanteknigin, við hin erum hið hefðbundna,“ segir Ann ennfremur.