Jóhanna Margrét Einarsdóttir blaðamaður skrifar
Það var um mitt sumar sem ég vaknaði og ætlaði að drífa mig fram úr og koma mér til vinnu. Þar sem ég var sest fram á mundi ég allt í einu eftir því að það var laugardagur og mér lá ekkert á. Mér fannst það frábært. Ég hallaði mér smástund á koddann og skipulagði daginn í huganum. Ákvað að byrja á því að ryksuga yfir gólfin og taka lauslega til, svo myndi ég bruna til Hafnarfjarðar til fundar við sambýlismann minn. Ég stóð letilega upp hellti á könnuna drakk kaffið mitt í miklum rólegheitum úti á svölum og náði svo í ryksuguna. Þegar ég var búin að ryksuga kveikti ég á útvarpinu og heyrði að það var verið að endurflytja þátt með Veru Illugadóttur. Ég stirðnaði eitt andartak, svo hoppaði ég eins hátt og ég gat og nokkur blótsyrði hrutu af vörum mér.
Það var sem sagt föstudagsmorgunn og ég hafði gleymt að mæta í vinnuna. Ég hringdi í skyndi og lét vita að ég væri á leiðinni. Svo skoppaði ég um íbúðina eins og hauslaus hæna í leit að einhverjum fötum sem ég gæti troðið mér í. Þaut út eins og eldibrandur og keyrði eins hratt og ég þorði úr Grafarvogi og niður í bæ. Vissi sem var að það myndi kannski enginn trúa því að ég hefði gleymt að mæta. Ég kom klukkutíma of seint og stamaði út úr mér afsökunarbeiðni og sagði hvað hafði gerst. Fólk horfði á mig eins og naut á nývirki enda var ég tiltölulega nýbyrjuð að vinna á þessum vinnustað. Sumir hlógu vandræðalega, aðrir sögðu ekki neitt. Síðan hef ég ekki gleymt að mæta en ég hef oft velt því fyrir mér hvernig ég gat farið svona dagavillt.
Mín skýring er sú að veðrið í sumar er búið að vera með eindæmum gott. Sólin hefur skinið í heiði og þó það hafi ekki alltaf verið sólskin hefur verið hlýtt. Maður verður eitthvað svo afslappaður og rólegur þegar viðrar svona. Dagleg vandamál verða auðleystari og maður hættir að stressa sig í tíma og ótíma. Veðurfar hefur nefnilega ótrúleg áhrif á sálarlífið. En nú styttist óðfluga í jafndægur á hausti og eftir það dimmir hratt næstu vikurnar. Eins og áður sagði hefur sumarið verið það besta í manna minnum og það er eins og birtan, sólin og hlýjan sitji í sálinni. Eða hvað? Mér finnst ég hafa heyrt það óþægilega oft að haustið hljóti að verða blautt og kalt og veturinn snjóþungur og illviðrasamur. Okkur hljóti að verða refsað með einhverjum hætti fyrir þetta frábæra sumar. Ég ætla hins vegar að reyna að halda í bjartsýnina og þegar illa viðrar og ég nenni ekki að mæta í vinnuna ætla ég að rifja upp góðviðrisdaga sumarsins í huganum.