Að missa forræði yfir líkamssjálfinu

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.

 

Tími jóladagatala er í algleymingi hjá ungu kynslóðinni. Þau eru flest keypt í búð og eru ýmist með súkkulaðimola eða án. Ég er of gömul til að eiga æskuminningar um jóladagatöl en ég hef einu sinni búið mér til jóladagatal. Það var þegar ég var í Íþróttakennaraskólanum á Laugavatni. Mér leiddist óendanlega og límdi upp á vegg blað með 19 boxum sem ég krossaði í á hverjum morgni. Jólafríið byrjaði 19. des eftir síðasta kross. Núna er ég með huglægt dagatal. Í því eru bara 16 box eða frá því að ég fékk nýjan mjaðmalið um mánaðamótin og þar til saumurinn verður tekinn úr afturpartinum þann 16. des. Það verður settur stór kross þann dag.

Biðlistakonan er komin norður eftir vel heppnaða mjaðmaskiptaaðgerð á sjúkrahúsinu á Akranesi. Sólahring eftir aðgerð upphófst ferðalag norður yfir heiðar, heim þar sem öll þægindin biðu mín. Fyrsta morgunin heima langaði mig bara til þess að henda mér í ruslið vegna verkja en fjórum dögum síðar gengur undirrituð hækjulaus um stofurnar. Þvílíkt undur sem hægt er að gera á líkamanum á innan við klukkutíma á skurðarborðinu. Ég er strax farin að hlakka til næsta árs með kvalalausum gönguferðum og eðlilegu lífi.

En nóg um mig. Það sem mig langar til þess að tala um að þessu sinni er hversu mörg kraftaverk heilbrigðisstarfsfólk er að vinna á hverjum degi oft við erfiðar aðstæður. Heilbrigðiskerfið er endalaust umræðuefni. Í fréttum sjáum við heilbrigðisstarfsfólk á hlaupum eftir göngum, með léleg laun, mistök og kulnun. Þetta er myndin sem er dregin upp. Ég mætti því á tröppurnar á sjúkrahúsinu áhyggjufull og tortryggin síðasta daginn í nóvember. Ég hef enga reynslu af þessu kerfi. Það hefur aldrei verið krukkað neitt í mig. Hvað bíður mín? Ég var lítil og aum og langaði til þess að gráta og hætta við þetta allt.

En áhyggjur mínar reyndust ástæðulausar. Um leið og ég kom inn á handlækningaganginn var tekið á móti mér með hlýju brosi. Ég fékk skáp til þess að setja fötin mín í og smá hressingu. Uppbúið rúm beið og mér gefið tækifæri til þess að spyrja og fá útskýringar. Svo byrjaði ballið, sem ég fer ekki nánar út í. Nokkrum klukkutímum eftir aðgerð var mér boðið í gönguferð um ganginn og mér sagt að ég gengi eins og herforingi. Um miðjan næsta dag fékk ég lambalæri í hádegismat og yndislega sturtu. Svo var farið yfir öll atriði um lyf, hjálpartæki, sjúkraþjálfun og hvað tæki við. Mér var óskað góðs gengis og ákveðið hvenær ég ætti að koma í eftirlit á nýju ári. Nú er ég búin að fá upphringingu frá sjúkrahúsinu. Þau vildu vita hvernig gengi.

Þegar ég lít yfir þessa reynslu mína fyllist ég þakklæti og virðingu fyrir því fólki sem vinnur í heilbrigðisgeiranum. Þegar maður liggur aumur í framandi rúmi skiptir allt viðmót ótrúlega miklu máli. Tilboð um að þurrka manni með blautum klút um andlitið er gulls virði. Áhugi fyrir bókinni sem maður er að lesa. Kalt vatn í glasið. Smá glens og spjall um úrslit kosninga.

Sjúkrahúsið á Akranesi er lítið sjúkrahús og kannski léttara að veita þar persónulega þjónustu en á stærri sjúkrahúsum. Ég veit það ekki því ég hef ekki samanburð. En ég mun alltaf hugsa með hlýju til starfsfólksins þar sem gaf mér alla þá þjónustu og stuðning sem ég þurfti þegar mér leið eins og ég hefði misst forræði yfir líkamssjálfinu mínu eins og Salman Rushdie orðar það svo vel í bókinni Hnífurinn, sem kom út fyrir skömmu.

Sigrún Stefánsdóttir desember 5, 2024 13:06