Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar
Við hjónin erum nýkomin úr fyrstu siglingu okkar á skemmtiferðaskipti, 3 vikna siglingu. Það er vonum seinna á áttræðisaldri að hefja slíkan ferðamáta. Nú skiljum betur þá miklu ánægju þeirra sem fara í slíkar siglingar hverja eftir aðra. Mikil þægindi eru um borð, dvalið er í sama klefa á skipinu alla ferðina og auðvelt að fara í skoðunarferðir í land þar sem hafnir eru í nálægð við miðborgirnar. Annað sem við fengum að reyna var að þegar hópur Íslendinga ferðast saman, en við vorum 14 í hópnum, myndast mikil samstaða ef hópurinn er góður. Hópurinn náði afar vel saman og var skemmtilegur. Ferðareyndara fólk í hópnum lét þau orð falla að þetta væri samstæðasti hópur sem þau hefðu ferðast með. Slíkt eykur á ánægju annars skemmtilegrar ferðar. Þótt samskipti séu við aðra farþega er samstaða Íslendinga á slíkri siglingu mikil því hópurinn er á vissan hátt afmörkuð eining á ferðalaginu.
Í bókinni Vertu úlfur eftir Héðinn Unnsteinsson er fjallað um samveru Íslendinga erlendis. Höfundur heldur því fram að Íslendingar vilji greina sig frá heildinni en vilji samt á sama tíma tilheyra henni. „Við erum samstæðir Íslendingar í útlöndum en um leið og við lendum í Keflavík verðum við Ísfirðingar, Reykjavíkingar, Vesturbæingar, sjálfstæðismenn, rauðhærðir, gagnkynhneigðir og svo framvegis. Við erum sandkorn sem þráum að vera Sahara. Við erum stöðugt að greina það sem gerir okkur frábrugðin öðrum en ekki það sem við eigum sameiginlegt með þeim.“
Hægt er að skrifa um marga þætti nýliðinnar ævintýra siglingar en mig langar til þess að gera einn þátt ferðarinnar að umtalsefni sem að mínum dómi sýnir góða hlið Íslendinga sem aðgreinir okkur frá mörgum öðrum þjóðum. Skipið var ekki stórt með yfir 800 farþega og um 500 manna áhöfn. Í slíkum siglingum er mikið um veitingar og þjónustufólk er á hverju strái. Þjónustufólkið var af ólíkum uppruna. Ég fylgdist með þjónustufólkinu og fátítt var að sjá farþega spjalla við þetta fólk. Það var eins og fólkið væri hluti af framreiðslubúnaðinum. Þjónustufólk er neðarlega í stjórnunarstiga áhafnarinnar. Bros sem sent var þjónustufólkinu og nokkur orð með þökkum fyrir þjónustuna var endurgoldið með hlýlegu brosi, „Thank you, Sir.“ „Komið þið ekki á þjónustusvæðið mitt í kvöld“, sagði stúlkan sem þjónustaði í kvöldverðinum oft þegar við hittum hana í morgunverðinum.
Ég tók eftir manni dökkum yfirlitum sem annaðist heita matinn við morgunverðar hlaðborðið. Hann stóð við borðið morgun eftir morgun afar dapurlegur á svip og beið eftir að bæta þyrfti á hlaðborðið. Þegar leið á ferðina fór ég að ávarpa hann og segja góðan daginn. „Góðan daginn, herra“, var viðbragðið en ekkert bros. Einn morgun ákvað ég að ræða við hann. Ég spurði hann hvernig hann hefði það og hvort þetta væri ekki góður dagur. Jú, jú þetta var góður dagur en eins og dagurinn í gær og dagurinn þar á undan. Næstu morgna ræddum við meira saman og ég spurðist fyrir um hagi hans. Hann var frá Guatemala og átti þar konu og tvær dætur. Hann spurði mig hvernig mér líkaði siglingin. Vel sagði ég en sagðist hafa eina kvörtun. Hver er hún var spurt með alvörusvip. „Þið í eldhúsinu matreiðið allt of góðan mat sem er mér áhyggjuefni því ég er hræddur um að ég borði allt of mikið“. Maðurinn skellihló og bað mig um að hafa ekki áhyggjur. Ég hefði nógan tíma til þess að borða minna þegar heim kæmi og ég myndi hreyfa mig meira. Ísinn var brotinn og við heilsuðumst með virktum á hverjum morgni. Íslendingar þekkja lítið stéttaskiptingu. Fólkið sjálft skiptir meira máli en hvað stöðu það gegnir. Íslendingarnir náðu góðu samband við nokkra starfsmenn í þjónustuliðinu.
Þjónustufólkið sem við ræddum við var frá mörgum fátækum löndum og var um borð til þess að afla sér lífsviðurværis eða safna sér fé í ákveðnum tilgangi. Fróðlegt var að heyra fyrir hverju var verið að safna. Ein ung stúlka frá Balí var m.a. að safna fyrir annarri útför móður sinnar en fyrri útförin fór ekki fram á hefðbundinn hátt. Fólkið vann 11 til 12 tíma á sólarhring 7 daga vikunnar í nokkra mánuði og fór síðan í heim í frí í nokkra mánuði, en hafði unnið á skipum í fjölda ára.
Síðasta daginn um borð var kveðjustund kunningja Íslendinganna meðal áhafnarmeðlimanna sem þeir höfðu kynnst. Ein ung stúlka kom til okkar hjóna og spurði hvort hún mætti færa okkur eitthvað: „Þið eruð svo viðkunnanleg og hafið verið svo vinsamleg við mig,“ sagði stúlkan. Eftir morgunverðinn voru kveðjufaðmlög við unga stúlku frá Vietnam sem hópurinn hafði náð góðu samband við. Þegar við gengum út úr morgunverðarsalnum sá ég stúlkuna standa tárfellandi bak við súlu. Við brottför frá borði í Dubai hafði þjónustustúlkan farið úr vinnubúningnum og fylgdi okkur í brottfararskálann við höfnina faðmaði okkur öll margoft og kvaddi með tárum. Vin minn frá Guatemala höfðum við hjónin áður kvatt. Hann margtók í hendur okkar, þakkaði fyrir samveruna og sagði heimili sitt opið fyrir okkur hjónum ef við ættum leið til Guatemala. Hann ætlaði senda okkur tölvupóst.
Okkur Íslendingunum fannst ferðin einstaklega vel heppnuð. Ekki sakar að Íslendingarnir sem bera takmarkaða virðingu fyrir stéttaskiptingu gátu veitt örlitilli gleði inn í tilbreytingarlítið líf nokkurra einstaklinga sem þjónustuðu okkur. Það veitir líka gleði að tala við sinn minnsta bróður.