Það er fátt eins óþægilegt í löngum flugferðum og þröng föt eða óþægilegir skór. Það sem passar kannski ágætlega þegar lagt er í hann er farið að meiða og særa eftir eins til tveggja tíma setu í þröngu flugvélasæti. Á vefnum Fabulous after 40 er að finna nokkur góð ráð um hvernig best sé að klæða sig áður en haldið er af stað í ferðalagið. Lifðu núna endursagði og stytti greinina.
Vertu í þægilegum nærbuxum úr mjúku og teygjanlegu efni. Það er fátt eins óþægilegt og þröngar nærbuxur sem sitja illa og skerast inn í holdið. Það sama gildir um brjóstahaldarann. Ef fólk ætlar að vera í gallabuxum ætti það að velja gallabuxur sem eru rúmar til dæmis „boyfriend buxur“. Þeir sem vilja vera í þröngum gallabuxum ættu að gæta þess að það þær séu vel teygjanlegar. Buxur sem eru of þröngar yfir læri og kálfa geta orðið til þess að fólk fái blóðtappa. Flugsokkar eru góðir ferðafélagar því þeir viðhalda blóðflæði í fótum.
Í löngum flugferðum eru leggings afar þægilegur klæðanur. Þær eru mjúkar teygjast vel og það er jafnvel hægt að fá leggings úr efni sem andar vel. Gætið þess bara að þær séu ekki úr of þunnu efni. Við buxurnar er fallegt að klæðast víðri túnikku eða stórum bol. Túnikkur og stórir bolir eru þægilegur fatnaður að ferðast í, sérstaklega ef fötin eru úr silki, eða góðri bómull. Það getur verið kalt um borð í flugvélum og því ætti fólk að klæðast langerma. Næst sér er svo gott að vera í góðum hlírabol úr náttúrlegu efni. Aldrei að fara í flug nema taka með þér sjal eða trefil, jakka eða peysu. Hitabreytingar í flugi geta verið miklar. Það getur verið sjóðandi heitt þegar gengið er um borð, en þegar loftræstikerfið í vélinni hrekkur í gang getur snögg kólnað um borð og þá er gott að geta brugðið sér í jakka eða peysu. Stórt sjal getur þjónað margþættum tilgangi það er hægt að breiða það yfir sig, setja það um hálsinn, nota það til breiða yfir höfuðið ef fólk vill fá sér blund að eða rúlla því upp og nota sem kodda.
Á flugvöllum er gjarnan að finna langa ganga, oft þarf að þramma upp og niður tröppur og svo framvegis. Á stórum flugvöllum þarf stundum að ganga nokkra kílómetra áður en fólk kemst inn í vél og þá er eins gott að vanda valið á skóm með því móti er hægt að koma í veg fyrir auma hæla eða blöðrur. Góðir flatbotna skór, íþróttaskór eða skór með lágum fylltum hælum geta hentað vel það þarf þó að hafa í huga að það sé auðvelt að komast úr og í skóna og þeir séu vel rúmir því fæturnir þrútna í flugi. Það er líka bráðsniðugt að vera með þægilega inniskó í handfarangrinum og bregða sér í þá á leiðinni. Svo skiptir máli hvernig fötin eru á litinn. Ljósir litir á ferðalögum eru ekki heppilegir. Dökkir og jarðarlitir henta betur því blettir og skítur sést ekki jafnmikið á slíkum klæðnaði. Flugvélar eru þröngar og sætin oft lítil margir eiga því í stökustu vandræðum með að fá ekki bletti í fötin sín þegar þeir neyta matar eða drykkjar.
Að lokum þá er að handtaskan. Velja góða stóra tösku, sem rúmar allt sem þarf í flugferðinni. Gætið þess þó að velja tösku sem er létt, töskur með stórum rennilásum og keðjum eru oft óþarflega þungar og fólk fær verki í axlir og bak við að burðast með þær.