Tengdar greinar

Aðdáendaklúbbur Jane Austin á Íslandi stofnaður

Næsta fimmtudagskvöld, 23. janúar 2025 klukkan 19.30, verður opin viðburður á Bókasafni Kópavogs þar sem stofnaður verður: Aðdáendaklúbbur hins heimsfræga klassíska breska rithöfundar Jane Austen.

Jane Austen hefði orðið 250 ára í ár, fædd 16. desember 1775 í Steventon í Hampshire i Englandi. Jane er í dag talin einn áhrifamesti klassíski rithöfundur Bretlands, og þó víðar væri leitað. Hún var ekki verulega þekkt utan Bretlands fyrr en í lok 19. aldar en vinsældir hennar í dag eru heill heimur út af fyrir sig og fjöldi aðdáendaklúbba starfa um heim allan.

Jane fullgerði sex bækur, þrjár þeirra hafa komið út á íslensku, Aðgát og örlyndi, Hroki og hleypidómar og Emma. Verk Jane eru töfrandi og hlý, konur eru söguhetjur og listin að lifa, samskipti og ást er rauði þráðurinn. Bækurnar eru áhugaverður spegill á hlutverk, hugarheim og viðhorf sem ríktu fyrir yfir  200 árum. Þær fjalla á margvíslegan hátt um persónuleika fólks og þroskakosti, um líðan og sálarástand, um langanir og þrár. Um að verða fyrir vonbrigðum og áföllum, að ekki geta allir draumar ræst, en líka um samkennd, sigra, sátt og ást.

Endilega mættu á Bóksafn Kópavogs til að njóta huggulegrar kvöldstundar, fræðsla um Jane Austen, veitingar og notalega samvera. Það er Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur og fararstjóri í ferðum í fótspor Jane Austen sem leiðir stundina með nokkrum Jane Austen aðdáendum og Bókasafni Kópavogs. Silja Aðalsteinsdóttir er heiðursgestur.

Ritstjórn janúar 17, 2025 17:01