Ævintýragjarnir ferðalangar fara til Austurlanda

 

Halldór B. Runólfsson

Halldór B. Runólfsson var forstöðumaður Listasafns Íslands til 10 ára en ráðningasamningi hans við safnið lauk nú í mars. Það kom heim og saman við eftirlaunaaldurinn því Halldór varð 67 ára þann 4.október. Halldór er hæstánægður með að vera kominn á þennan aldur eins og margir á hans reki. Það er ekki síst þegar hann ber þetta æviskeið saman við unglingsaldurinn, sem oftast er stútfullur af allskonar tilfinningaflækjum og getur verið mjög erfiður. “Mér finnst aldurinn sem ég er á núna mun ánægjulegri,” segir hann og brosir. Halldór er nú kominn í leiðsögumennsku aftur og nýtir sér nú nám sem hann bætti við sig fyrir rúmum 20 árum þegar hann settist í leiðsöguskólann. Hann hefur í gegnum tíðina tekið að sér leiðsögn hér á landi og hefur alltaf haft mikla ánægju af því starfi. Halldór hætti að leiðsegja þegar hann gerðist lektor við Listaháskólann og síðan var hann ráðinn forstöðumaður Listasafns Íslands 2007. Fljótlega skall á með kreppu og Halldór fór af fullum krafti inn í þann tíma með safnið sem hann segir að hafi verið frekar niðurdrepandi og erfitt vegna fjárskorts þótt starfið hafi auðvitað verið mjög spennandi faglega.

Hópur ferðalanga um ólíka menningarheima

Nú horfir Halldór hins vegar fram á skemmtilega tíma í leiðsögumennsku aftur, nú orðinn eldri borgari. Halldór og eiginkona hans Margrét Árnadóttir Auðuns eru í ferðahópi sem var stofnaður af nokkrum sögukennurum fyrir mörgum árum og hafa farið í nokkrar ferðir til Asíu og nú síðast til Suður Ameríku. Fyrst var farið til Rússlands og svo voru lönd eins og Kína, Víetnam, Indland og Íran heimsótt og Halldór segir ómetanlegt að hafa fengið að kynnast gerólíkum menningarheimum á þennan hátt.

Víetnam – Hrífandi náttúrufegurð og fegurstu strendur

Halong-flóinn í Norður-Víetnam er heimsfrægur fyrir sérstæðar eyjar sínar.

Nú er Halldór svo að fara sem fararstjóri í ferð sem verður farin í nóvember til Kína, Víetnam og Tælands en Úrval Útsýn býður upp á ferðirnar sem byggðar eru upp á svipaðan hátt og Halldór hefur áður farið með sínum ferðahópi. Hann er að fara með 30 manna hóp sem flýgur til Hong Kong í nóvember þar sem farið verður um borð í skip sem siglir til Vietnam og komið við á undurfögrum stað sem heitir Halong flói þar í landi. Ferðin tekur 19 daga og endar í Tælandi.

Af hverju er Asía svo vinsæl hjá ferðamönnum nú til dags?

Halldór segir að nefna megi nokkrar ásæður fyrir vinsældum Asíu.  Þar séu löndin og menningin framandi og forvitnileg og náttúrufegurðin engu lík. Hann nefnir Víetnam sem fáir viti mikið um utan stríðsrekstur Frakka og síðar Bandaríkjamanna sem skilaði landinu í miklum sárum. Nú séu hins vegar friðartímar í Víetnam og heimamenn einstaklega gestrisin þjóð.

Latneskt letur í skrifmáli og frönsk áhrif í matargerð

Halldór segir franska trúboða hafa troðið latneska letrinu upp á Víetnama á 18. öld sem köstuðu þar með myndletrinu. “Þess vegna er mjög þægilegt fyrir ferðamenn að fara um Víetnam,” segir hann. “Frakkar kenndu Víetnömum líka að elda mat að frönskum hætti og brugga góð vín þannig að á veitingastöðum er ferðamönnum óhætt að treysta því að fá geysilega góðan mat og góð vín með. Þeir framleiða líka mjög gott kaffi og svo er rík te-hefð í Víetnam sem komin er frá Kína. Þessi atriði skipti marga miklu máli á ferðalögum.”

Frönsk áhrif

Japanska brúin í Hoi An í Mið-Víetnam, yfirbyggð og fagurlega útskorin, frá 18. öld.

Víetnömsku borgirnar eins og Saigon eru augljóslega smitaðar af því að hafa lengi verið undir áhrifum frá Frakklandi að sögn Halldórs.  Breiðgöturnar eru t.d. frönskuskotnar með trjágöngum og skemmtilegum götukaffihúsum. Veðurfarið er mjög þægilegt, hitastigið yfirleitt á bilinu 25 – 30 °C. Stemmningin á götum úti í  Víetnam er einstaklega notaleg og síðan er mjög heillandi að þeir eru ekki komnir eins langt í ferðamennskunni og mörg önnur lönd. Í Vietnam er fólk einstaklega glaðlynt og jákvætt og laust við nokkurs konar hroka. Í borgum í Víetnam finnur maður því yfirleitt fyrir meira öryggi en í borgum eins og Hongkong og Singapúr sem eru meðal þéttbýlustu svæða í heimi. Hongkong er með 7 milljónir íbúa og Singapúr um 5 milljónir og þetta er á svæðum sem eru ekki mikið stærri en Stór-Reykjavíkursfæðið. Víetnam er á stærð við Noreg og Finnland og þar búa alls um 90 milljónir íbúa. Hættan er sú að Víetnam muni breytast hratt þegar ferðamennskan tekur yfir eins og hefur gerst svo víða. Þá segir Halldór að þar sé ódýrt að versla  og yfirleitt ódýrt að lifa.

“Förum bara til Köben eða London þegar við erum orðin gömul”

Margrét, konan Halldórs, að hverfa ofan í níðþröng leynigöng, sem skæruliðar í Víetnam-stríðinu grófu. Henni mætti sægur af leðurblökum í myrkum göngunum.

Halldór segir eiginkonu sína Margréti hafa sagt við hann á sínum tíma: “Nú skulum við nota tímann og fara á framandi slóðir. Við getum bara farið til Köben eða London þegar við erum orðin gömul,” og það er einmitt það sem þau  ætla að gera, þegar þau eru orðin gömul. Þangað til vilja þau nýta tímann og fara á framandi slóðir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn október 6, 2017 11:36