Áfengisvandi meðal eldri borgara

Þótt máltækið segi að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta benda rannsóknir til að betra sé að mæla drykkjuna í fingurbjörgum fremur en glösum. Landlæknisembættið hefur vaxandi áhyggjur af drykkju eldra fólks og nýlega var fjallað um þær í Þetta helst … á RÚV. Eftir því sem við eldumst hefur ethanól, virka efnið í áfengi, verri áhrif á heilsuna og álag á heilbrigðiskerfið eykst vegna afleiðinga drykkjunnar.

Nánast alls staðar í heiminum jókst áfengisneysla meðan á Covid-faraldrinum stóð. Aukin einangrun, efnahagslegt óöryggi, alvarleg veikindi og dauðsföll urðu til þess streitustigið í samfélaginu náði nýjum hæðum og þá er alþekkt að fólk leitar slökunar í aukinni drykkju.

Áfengisneyslu fylgja timburmenn, höfuðverkir, ógleði, þreyta og andleg vanlíðan eru helstu einkennin. Margir finna einnig fyrir auknum kvíða eftir drykkju en það er eðlilegt því ethanól örvar framleiðslu gleðiboðefna í líkamanum og daginn eftir verður neytandinn var við svokallaða þurrð eða depletion. Vegna þess hve óeðlilega mikil gleðiboðefni fóru á kreik daginn eftir hefur jafnvægið raskast og það tekur tíma að ná því aftur

Af hverju edrú?

Þeir sem kjósa líf án áfengis telja að það gefi þeim tækifæri til að lifa fyllra lífi og njóta alls til fulls. Þeir telja forvitni uppsprettu lífsþorstans og þeir eru jú aldrei hífaðir eða drukknir og þess vegna ávallt fyllilega til staðar í núinu. Þeir finna heldur aldrei fyrir timburmönnum og missa þess vegna aldrei dag úr. Áfengi er dýrt og með því að spara þá peninga sem annars færu í vín má  spara njóta einhvers annars, til dæmis fleiri ferðalaga.

Er ekki eitt og eitt glas í lagi?

En hvers vegna kjósa æ fleiri að hætta alveg að drekka? Margir tala um að peningar séu ein ástæða þess að það kýs að drekka ekki. Einnig er æ oftar talað um tímann sem tapast þegar menn eru að drekka og glíma við þynnkuna. Hinir eldri tala um að ævin sé einfaldlega of stutt til að sóa kvöldi og deginum eftir í glímuna við eitrunaráhrif alkóhóls. Þeir kjósa að vera með en drekka áfengislausa drykki og vera tilbúnir að hlaupa upp á Esjuna næsta morgun.

Fleiri og betri valkostir

Áfengislaus lífsstíll verður sífellt auðveldari. Nú er varla haldin nokkur veisla án þess að boðið sé upp á áfengislausa drykki líka. Áður var lítið í boði annað en gos en núna leggja flestir gestgjafar metnað í að vera með spennandi valkosti fyrir þá sem ekki drekka, til dæmis áfengislausa kokteila, heimagert límonaði, ferska ávaxtadrykki eða úrval gosdrykkja.

Hvernig stekkur maður á vagninn?

Því að hætta að drekka fylgir ekki einangrun eða lítið félagslíf. Sumir sjá það fyrir sér að ekki sé hægt að mæta í partí eða á pöbbinn án þess að drekka en það er lítið mál. Til að byrja með væri kannski skynsamlegt að stinga upp á að hittast á stöðum þar sem þú veist að boðið er upp á spennandi valkosti fyrir þá sem ekki drekka. Skoðaðu úrvalið á þeim stöðum sem þér finnst skemmtilegast að sækja og veldu stað út frá því. Ef farið er út að borða skoðaðu vínseðilinn til að athuga hvað þar er af óáfengu. Ef þú ert á leið í veislu taktu með góðan óáfengan drykk og færðu gestgjafanum. Það er alveg jafn kærkomið og flaska af víni. Næsta skref er svo að njóta lífsins og finna skemmtilegar leiðir til að nýta allan þann tíma sem þú færð þegar timburmennirnir eru algerlega úr sögunni.

Áfengisauglýsingar „normalísera“ drykkju

Áfengisauglýsingar eru bannaðar á Íslandi en menn hafa fundið ýmsar leiðir til að komast framhjá því banni, m.a. með því að auglýsa léttöl á íþróttaleikjum, í sjónvarpi og blöðum. Vínkynningar eru sömuleiðis algengar en þær þjóna sama tilgangi að „normalísera“ eða staðla drykkju.

Myndir af fólki að skála yfir góðum mat eða vínflöskum uppdekkuðu borði gefa til kynna að ekki sé hægt að njóta matarins öðruvísi en með rétta víninu. Að allt bragðist betur sé vel valið rauðvín, hvítvín eða aðrir áfengir drykkir bornir fram með.

Víða erlendis þar sem áfengisauglýsingar eru leyfðar er þetta mikið áhyggjuefni. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og vísindasamfélagið hafa sýnt fram stóraukna áfengisneyslu kvenna og æ fleiri konur leita sér hjálpar í heilbrigðiskerfinu vegna heilsuskaða af völdum drykkju. Fleiri konur neyta nú áfengis í óhófi og þar sem ethanól safnast fyrir í fituvefjum líkamans eru skaðleg áhrif þess á heilsu fólks koma mun fyrr fram í konum vegna þess. Líffræðin sér til þess að fituprósenta kvenna er hærri en karla og eituráhrifanna gætir því mjög fljótt.

En þessar staðreyndir mega sín lítils gagnvart hugmyndauðgi auglýsingastofa og markaðsmanna áfengisframleiðenda. Þeir beinlínis gera út á þau gildi sem eru konum verðmætust, valdefling, vinátta, slökun og vellíðan. Kona að skála fyrir góðum árangri í vinnunni, að slaka á yfir hvítvíns- eða freyðivínsglasi í heita pottinum með bestu vinkonunum og kona að hressa sig við á koníaki í skíðabrekkunni. Skilaboðin eru þú getur allt með hjálp áfengis og þú átt það skilið.

Eldri konur virðast vera að auka áfengisneyslu sína.

Sólsetursglösin glitra minna

Eftir því sem fólk eldist verður áfengi skaðlegra heilsunni. Þetta eru velþekkt staðreynd innan heilbrigðisvísindasamfélagsins. Áfengisframleiðendur hafa alls ekki gleymt eldri aldurshópum þótt glimmer, glit og freyðandi búbblur séu fyrst og fremst markaðssettar fyrir yngri hópinn. Eldra fólk með vín í glasi að njóta afrakstur ævistarfsins er myndin sem dregin er upp. Gjarnan af pari sitjandi á strönd með sólsetrið í baksýn. Þetta er beint upp úr bókinni hjá tóbaksframleiðendum eða hver man ekki eftir hinum fræga Marlboro-manni, með veðrað andlit og kúrekahatt og hina ómissandi sígarettu milli varanna. Andstæða hans var hin granna, fullkomlega vel til hafða og augljóslega vel stæða kona sem reykti Virginia Slims. Slagorð þeirrar herferðar var: „You’ve Come a Long Way Baby!“ Hér var beinlínis verið að vísa til kvenréttindabaráttunnar og þess hve langt konur hefðu náð í átt að því að standa jafnfætis karlmönnum á öllum sviðum.

Í raun er ekki undarlegt að áfengisframleiðendur séu farnir að gera út á konur í auknum mæli. Mun fleiri konur en áður er sjálfstæðar í efnahagslegu tilliti og viðhorf til drykkju kvenna hafa breyst mikið undanfarna áratugi. Það eru í raun ekki nema um það bil sjötíu ár síðan það þótti hneyksli ef kona sást drukkin á almannafæri. Nú kippir sér enginn upp við það og til dæmis má nefna í á alþjóðlegum degi kvenna í fyrra auglýsti vínbúð í Washington DC vodka með ferskju-, sítrónu- eða agúrkubragði sem hin fullkomna drykk fyrir spa-daginn. Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt konur drekka nú orðið nánast jafnmikið og karlmenn. Um leið margfaldast sá fjöldi kvenna sem leitar sér meðferðar vegna fíknivanda í Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum. Þetta eru afleiðingar þess að áfengisdrykkja hefur verið normalíseruð, gerð ásættanleg og eðlileg á öllum æviskeiðum og við allar félagslegar athafnir.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Hér er linkur á þáttinn hjá RÚV: https://www.ruv.is/utvarp/spila/thetta-helst/33405/9uid7g

Ritstjórn október 21, 2024 07:00