Það eru fjölmörg fyrirtæki sem veita eldri borgurum afslátt, gegn framvísun skírteinis frá Félögum eldri borgara. Þá fá þeir sem eru orðnir sjötugir fá frítt í sundlaugar Reykjavíkur, en allir sem hafa náð 67 ára aldri fá frítt í sund í Hafnarfirði, Garðabæ, á Álftanesi, Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ. Strætó býður sérstakt fargjald fyrir eftirlaunafólk og þeir sem eru orðnir 67 ára fá frítt inn í Húsdýragarðinn með barnabörnin.
Ókeypis í skíðalyftur fyrir 67 ára og eldri
Skíðasvæðin bjóða ókeypis aðgang að lyftum fyrir eftirlaunafólk og leikhúsin, Íslenska óperan og SAM bíóin veita afslátt af miðaverði. Ýmis kaffi og veitingahús veita félögum í FEB afslátt, svo sem eins og Café Mílanó í Skeifunni, Reykjavík og Nauthóll í Nauthólsvík, sem er með afslátt frá mánudegi til fimmtudags. Tapas barinn á Vesturgötu í Reykjavík veitir afslátt frá sunnudegi til fimmtudags. Þessar upplýsingar er að finna í afsláttarbók Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík. Þar eru upplýsingar um öll fyrirtæki á landinu sem veita eldri borgurum afslátt, þeirra á meðal er Bílaleigan Höldur á Akureyri sem veitir 10% afslátt.
Styðja eldri borgara dyggilega
Í nýjasta tölublaði Félagstíðinda FEB segir að áður fyrr hafi mun fleiri matvöruverslanir veitt eldri borgara afslátt, en mörg fyrirtæki hafi átt samstarf við Félagið í áratugi og staðið dyggan vörð um hag eldri borgara. Þar eru nefnd til sögunnar fyrirtæki eins og Blómaval, Hjólbarðaverkstæði Sigurjóns, Hans Petersen, Litaver, Snögg, Fálkinn, Verðlistinn, Vinnufatabúðin og Skóvinnustaofa Halldórs. „Þessi stuðningur sem æði mörg fyrirtæki hafa veitt eldri bogurum er mikilsverður þegar á efri árin er komið þar sem flestir lækka verulega í tekjum við starfslok“, segir í blaðinu.
Fleiri og fleiri veita afslátt
Það hefur fjölgað verulega þeim fyrirtækjum sem eru með í afsláttarbókinni, þannig að hún er orðin ein vinsælasta bók félagsmanna að sögn Félagstíðinda. Og nýir aðilar bætast í hópinn, til dæmis Fiskbúðin Sundlaugavegi sem veitir 10% afslátt og KATLA lögmenn Borgartúni, en þar er 30% afsláttur af allri þjónustu við eldri borgara. Nýherji í Borgartúni er með sértilboð fyrir eldri borgara, og veita rúmlega 37% afslátt af sjónvrpum og hljóðbúnaði frá Sony. Olís býður einni sérkjör fyrir félagsmenn í FEB.