Jón Björnsson sálfræðingur og rithöfundur ákvað að hætta í góðu og vel launuðu embætti þegar hann var 53ja ára og snúa sér að öðrum verkefnum. „Ég hélt að ég myndi fá efasemdir um þessa ákvörðun síðar, jafnvel fyllast söknuði og eftirsjá“, segir Jón „En þetta hefur allt gengið vel og ég hef ekki séð eftir þessu í eina mínútu“.
Vildi ekki láta vinnuna gleypa sig
Jón var framkvæmdastjóri menningar-, uppeldis- og félagsmála hjá Reykjavíkurborg þegar hann hætti en hafði áður verið félagsmálastjóri á Akureyri. „Á meðan ég var á Akureyri hafði ég bæði orku og tíma til að sinna hugðarefnum fyrir utan starfið og fjölskylduna, en það voru aðallega skriftir. Þegar ég flutti til Reykjavíkur var meira að gera, ég var orðinn miðaldra og hafði minni umframorku. Ég sá fyrir að vinnan myndi gleypa mig alveg og myndi ég vilja verða bara vinnan og hætta að sinna sjálfum mér og öðrum? Það vildi ég ekki og ákvað að hætta“, segir Jón.
Skemmtilegu verkefnin fyrirferðarmeiri
Hann hélt að hann myndi fyllast sorg og ákvað að veita sjálfum sér verðlaun, þau að fara í hjólreiðarferð til Santiago de Compostela á Spáni. Ferðin reyndist hins vegar upphaf að nýrri tilveru, þar sem Jón ferðaðist og skrifaði bækur, sem nú eru orðnar þrjár. Hann segist upphaflega hafa skipt verkefnunum sínum í tvennt. Annars vegar skemmtileg verkefni sem gáfu ekki miklar tekjur, en hins vegar aukavinnu sem hann hafði tekjur af. Með tímanum hafi skemmtilegu verkefnin orðið fyrirferðarmeiri og tekjurnar af þeim líka.
Staldrað við á miðri ævi
Jón segir að það hafi skipt máli að hann var skuldlaus þegar hann hætti að vinna. Tekjurnar hafi minnkað en hann hafi alveg getað lifað af þeim, enda sé ódýrara að lifa þegar menn hafi meiri tíma. Þá hafi hann líka getað haft samband við barnabörnin fjögur sem nú eru á aldrinum 5-17 ára. „Ég var svo heppinn að gera það sem allir ættu að gera“, segir hann „að staldra við á miðri ævi og velta fyrir sér hvort þeir eigi að halda áfram því sem þeir eru að gera, eða breyta einhverju. Ég gerði það, en sumum finnst ekki taka því að breyta, finnst það skapa óöryggi. En ef engin áhætta er tekin gerist heldur ekki neitt“.
Hefði getað haldið áfram
Jón var á ákveðinni framabraut þegar hann ákvað að hætta. Honum fannst hún ekki vera þess virði og reynslan hafi staðfest að svo var. „Ég hefði getað haldið áfram að harka á framabrautinni og svo hefði farið að halla undan fæti. Flestir á þeirri braut enda óvinsælir og allir bíða eftir að þeir fari, en brautin sú er ekki ýkja löng“ segir hann. Hann segir að þegar hann hætti 53ja ára hefði hann getað vænst þess að lifa í 40 ár til viðbótar, en það er mikið langlífi í hans ætt.
Ferðin til Santiago afdrifarík
Ritstörf og fyrirlestrahald eru nú aðalverkefni Jóns. Ferðina til Santiago de Compostela fór hann vorið 2001 og óraði ekki fyrir að hún myndi leiða til bókarskrifa og frekari ferðalaga. En lífði hefur haldið áfram eins og lækur og fært hann í ófyrirsjáanlegar áttir. Jón er í stjórn Háskóla þriðja æviskeiðsins en félagið á aðild að verkefni sem miðar að því að skipuleggja þetta margumtalaða æviskeið, þannig að það verði gefandi tími fyrir fólk. Hann segir að það sé ekki nóg að fara á starfslokanámskeið, tveimur mánuðum fyrir starfslok. Þá sé oft orðið of seint að byrja á nýjum verkefnum.
Þarf góða atrennu í gott langstökk
Jón segir að eftir starfslok séu menn ef til vill að fara inní 20-30 ára tímabil og það þurfi að leggja drög að því sem þeir ætli að gera. „Gott langstökk þarf langa atrennu“, segir hann. „Það er ekki gott að menn hætti skyndilega og viti ekkert hvað þeir ætla að gera eða hverjir þeir eru. Það þarf tíma til að byggja upp nýja sjálfsmynd“.