„Stóri dagurinn er á morgun“

Aðalmeðferðin í skerðingamáli Gráa hersins gegn ríkinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun og hefst klukkan 9:15. Eftir hádegi verður svo útifundur á Austurvelli þar sem meðal annars verður farið yfir stöðu málsins. Wilhelm W.G. Wessman hefur barist fyrir því lengi að málið færi fyrir dómstóla og er einn þremenninganna sem stefnir ríkinu fyrir hönd Gráa hersins. Verslunarmannafélag Reykjavíkur er aðalstyrktaraðili málssóknarsjóðsins sem safnar fé til málaferlanna.

Ríkið settist niður með eldri borgurum til að ræða kjaramál

„Nú er stóri dagurinn á morgun“, sagði Wilhelm þegar Lifðu núna hafði samband við hann í dag. „Við ætlum okkur að vinna þetta mál, en það gæti orðið  til þess að ríkið settist  niður með eldri borgurum til að ræða við þá í alvöru um kjaramálin. Ég er mjög ánægður með að við séum loksins að komast af stað með málið á fyrsta dómstigi. Hugsanlega eigum við eftir að fara næstu dómstig, jafnvel út fyrir landssteinana“, segir hann.

Lífeyrissjóðirnir áttu að vera viðbót við greiðslur TR

„Ég er alfarið á móti þessum skerðingum, sem rekja má til þess að ég var í stjórn Félags framreiðslumanna þegar ákveðið var að stofna lífeyirssjóðinn þar árið 1968“, heldur Wilhelm áfram. „Það var alveg ljóst að lífeyrissjóðirnir áttu að verða viðbót við það sem Tryggingastofnun ríkisins greiddi eldra fólki. Sú upphæð var það lág að hún dugði engan veginn. Það var heldur aldrei spurning um að iðgjöldin voru hluti af launum starfsmanna. Ef launin hækkuðu um 10%, fóru kannski 3% í að greiða í sjóði eins og sjúkrasjóð og fleira, en sjálf launin sem fólk fékk í vasann hækkuðu um 7%“.

Lífeyrissjóðirnir ekki fullþroska fyrr en eftir 30-40 ár

„Margir halda því fram að lífeyrissjóðirnir hafi verið hugsaðir til að taka við af TR og vera fyrsta stoðin í tryggingakerfinu, en það er ekki satt. Greiðslur frá ríkinu voru fyrsta stoðin í kerfinu, lífeyrssjóðirnir önnur stoðin og almennur sparnaður sú þriðja. Þannig var það og þannig er kerfið á Norðurlöndunum.   En þegar almannatryggingalögunum var breytt árið 2017, var þessu breytt án nokkurrar almennrar umræðu og lífeyrissjóðirnir gerðir að fyrstu stoð kerfisins.  Ef sú á að vera raunin verður að gæta að því að lífeyriskerfið verður ekki fullþroskað fyrr en 2050-60. Þá fyrst geta lífeyrissjóðirnir tekið við þessu hlutverki“, segir Wilhelm.

Sá að þetta var hvorki fugl né fiskur

„Ég er alfarið á móti þessum skerðingum og hef barist gegn þeim alla tíð“, segir Wilhelm. Hann starfaði erlendis um skeið, en greiddi í lifeyrissjóð VR í 45 ár. „Þegar ég ætla að fara að taka út mína peninga árið 2012, sé ég að þetta er hvorki fugl né fiskur og þá vaknaði áhuginn á að skoða þessi mál. Hvernig stóð á því að ég fékk svona lítið í eftirlaun? Í ljós kom að ástæðan var að skerðingin í almannatryggingakerfinu var svona mikil“, segir hann. Þegar Grái herinn kom til skjalanna fannst Wilhelm hann eiga samleið með baráttumálum hans. Hann gekk í það ásamt Ingibjörgu H. Sverrisdóttur og Finni Birgissyni að stofna málssóknarsjóðinn sem kostar málaferlin, en það sem gerði útslagið að farið var í mál, var að VR gerðist aðalstyrktaraðili málaferlanna. Wilhelm er ekki í nokkrum vafa um sterkan málsstað eldri borgara. „Við getum litið á tölurnar. Íslenska ríkið greiðir 2,6% af tekjum sínum í eftirlaun, en meðalgreiðslur í OECD ríkjunum eru 7%. Af því að við miðum okur oft við Dani, þá borga þeir 8% til sinna eldri borgara“, segir Wilhelm að lokum.

Ritstjórn október 28, 2021 15:37