Allir í strætó, allir í strætó, enginn með Steindóri …því hann er svo mikill svindlari!

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar. 

 

Svona hljómaði söngur krakka af minni kynslóð, sem við sungum í tíma og ótíma, en Steindór var eitt af þrem leigubílafyrirtækjum, sem voru starfandi í Reykjavík á mínum æskuárum, hin tvö voru Hreyfill og Bæjarleiðir.

Að undanförnu hafa verið umræður í íslensku fjölmiðlum um einmanaleika, einsemd og félagslega einangrun fólks á Íslandi. Það dvelur langdvölum heima hjá sér, eitt og einangrað við tölvuskjái og þegar það fer úr húsi fer það allra sinna ferða á einkabíl. Nær eina fólkið, sem það sér þegar það er á ferð, eru aðrir bílstjórar á bílum, sem sitja pikkfastir eins og þeir sjálfir í umferðarþvögu, þar sem hver og einn bílstjóri bölsótast út í hina bílastjórana fyrir að tefja þeirra för.

Í þesssari umræðu benti einn spekingurinn á að það væri hollara fyrir sálartetrið þessara einangruðu og æstu bílstjóra taka strætó, slaka á og taka ókunnugt fólk að tali.

Þegar ég var að vaxa úr grasi á fimmta áratug síðusta aldar, var tíðin önnur. Miklabrautin var enn malarvegur og þó ég hafi ekki áreiðanlegar heimildir fyrir því, þá leyfi ég mér að halda því fram, að á þeim árum hafi meirihluti Reykvíkinga farið flestra sinna ferða í strætó. Það gerði ég og allir vinir  mínir.

Á þessum árum voru farþegar strætó þverskurður af íslensku borgarsamfélagi:

Þar mátti sjá ráðnuneytisstjóra, bankamenn, skrifstofumenn og hafnarverkarmenn. Þar voru líka á mæður á ferð með börnin sín, eldri borgarar, svo ekki sé talað um allan barna og unglingaskarann, sem var  á í leið í skólann, í tónlistartíma, í danstíma, í sund, á íþróttaræfingu eða var bara að fara til að slæpast niður í bæ.

Í strætó var okkur unga fólkinu kennt að bera virðingu fyrir þeim sem eldri voru.

Margir af minni kynslóð muna án efa eftir skiltinu í strætó, sem sýndi þóttafullan, pattarlegan unglingsstrák, blístrandi með glott á vör, sem sat sem fastast í sætinu sínu, meðan eldri farþegi stóð og hélt sér fast í stöngina í strætó. Undir skiltinu stóð með stóru letri:

„Kurteis börn bjóða fullorðnum sæti.“

Strætó var félagsheimili á hjólum, en það var staður þar sem ungt fólk átti stefnumót við vini sína sína, og það bar við að það eignaðist nýjan kunningja í strætó. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að einhverjir af minni kynslóð hafi kynnst stóru ástinni í lífi sínu í strætó. Í strætó hitti maður líka oft vini sína í þeim eina tilgangi að fara hringinn, eins og kallað var. Að fara hringinn fólst í því að hópur vina safnaðist saman í stæðinu aftast í strætó og skemmti sér saman, meðan strætó ók um önnur hverfi borgarinnar. Þegar strætó var kominn hringinn steig hópurinn út úr vagningum og hélt á önnur mið.

Annað sem gerðist gjarnan í strætó, var að maður týndi lausamunum, eins og vettlingum og hönskum, treflum og húfum og jafnvel töskum og veskjum. Þegar þetta gerðist, leitað maður til skrifstofu skilamuna Strætisvagna Reykjavíkur og oftar en ekki, höfðu munirnir ratað þangað inn. Enn svo var það þó ekki alltaf. Systir mín gleymdi eitt sinn mjög fallegri húfu, sem hún hafði nýlokið við að prjóna, í strætó. Hún grennslaðist eftir henni án árangurs og taldi fyrir vikið að húfan fína væri að henni eilífu glötuð.

En svo reyndist ekki vera. Skömmu eftir að hún glataði húfunni góðu, fór hún í strætó og viti menn: þar sat stúlka stolt, með fínu húfuna hennar á höfði. Systir mín gekk til hennar og spurði hana kurteisislega, hvort hún hefði fundið húfuna í strætó. Stúlkan játti því, og þegar systir mín sagði henni að hún ætti húfuna, tók hún hana ofan í snatri og rétti systur minni. – Eftir þetta gætti hún húfunnar sem sjáaldurs augna sinna.

Eitt sem skapaði spennu við strætisvagnaferðir voru tilraunir okkar krakkana að svindla okkur í strætó. Ein leið til þess var að fara inn að aftan, önnur var að þykjast setja strætómiða í baukinn, og enn önnur var að skjótast sem hraðast fram hjá bauknum án þess að borga í von um að bílstjórinn tæki ekki eftir því. – Ég hef alla tíð verið hrædd við svindla, því í þau fáu skipti sem ég reyndi, komst upp um mig um leið. Fyrir vikið reyndi ég aldrei að svindla mér í strætó, en þrátt fyrir það, þá komst ég eitt sinni í bobba vegna greiðslu í strætó.

Á þessum tíma greiddu börn með hvítum miðum í strætó, en fullorðnir með gulum.

Dag einn, þegar ég var að bíða eftir strætó, fann ég röð af  þrem bláum miðum merkta SVR á stoppustöðinni. Ég taldi mig aldeilis hafa dottið í lukkupottinn og gaf vinkonum mínum, sem voru með mér, sitt hvorn miðann og tók síðan þann þriðja sjálf.

Ég var fyrst upp í vagninn og bláköld stakk ég bláa miðanum í baukinn.- Þegar ég var rétt búin að því, leit vagnstjórinn á mig með spyrjandi augum og sagði, „Vina mín, hvað ertu eiginlega gömul?“ Ég leit á hann hváði við „átta ára.“ „Já, vinan,“ svaraði hann um hæl, „bláu miðarnir eru ætlaðir áttræðum farþegunum, en ekki átta ára farþegum.“  – Ég stokkroðnaði og skömmustuleg sótti ég barnamiðann minn í vasann og stakk honum í baukinn og vinkonur mínar gerðu hið snarasta það sama.

Á þessu augnabliki uppgötvaði ég að eldri borgurum var boðið upp á að ferðast með strætó á lægri verði en börnum og fullorðnum. Og nú er ég svo lánsöm að búa við góðar strætisvagna-samgöngur og nýti ég mér þær óspart: Og nú get ég kinnroðalaust borgað með miða fyrir eldri borgara, hann er að vísu ekki blár, heldur rauður og hvítur, en hver ferð kostar 80 cent.

Inga Dóra Björnsdóttir október 7, 2024 07:00