Siggi póstur

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur

Ég flutti í Grænuhlíðina árið 1957, sem þá var ný byggð gata. Pósturinn í götunni okkar hét fullu nafni Sigurður Þór Friðriksson, en hann var aldrei kallaður annað en Siggi póstur.

Siggi byrjaði daginn á því að bera bréfin út í efri hlíðum, Stigahlíð, Grænuhlíð og Hamrahlíð og þegar hann kom fyrir hornið á Grænuhlíðinni um tíu leytið heyrðust hróp og köll í okkur krökkunum “Siggi póstur er kominn” “Siggi póstur er kominn” og  þyrptust  við að honum spennt og spurðum ákaft hvort bréf eða póstkort frá útlöndum leyndust í pósttöskunni hans.

Siggi var alltaf glaður að sjá okkur, og tók umleitan okkar vel og drjúgur á svip, dró hann upp sendibréf frá útlöndum og sýndi okkur frímerkin og útskýrði fyrir okkur hvaðan þau voru og hvað þau sýndu.  Flest bréfanna voru frá Danmörku, Englandi og Þýskalandi, sum voru frá Frakklandi og Ítalíu og nokkur frá Bandaríkjunum og ég þykist muna alla vega eftir einu bréfi frá Kína.

Það voru hátíðardagar þegar póstkort frá útlöndum leyndust í póst töskunni hans Sigga. Póstkortin gáfu okkur smá innsýn inn í stórborgir heimsins, borgir eins og  Kaupmannahöfn, London, París, Róm og New York. Stundum tókst okkur, með því að biðja fallega, að fá Sigga til lesa það sem stóð á póstkortunum. Við urðum þó oftast fyrir vonbrigðum, því flest voru þessi kort frá fátækum íslenskum námsmönnum, sem voru í fjárhags þröng, og óskuðu eftir fjárstyrk frá foreldrum sínum heima á Íslandi.

Siggi póstur var fríður sýnum, hár, grannur og spengilegur og bar hinn glæsilega póstbúning sinn vel.  Búningurinn var úr blágrárri ull, sem hentaði vel fyrir hið síbreytilega veður á Íslandi, jakkinn var tvíhnepptur, með gylltum hnöppum en minni hnappar af sömu gerð prýddu ermarnar.  Búningnum fylgdi kaskeiti sem var prýtt að framan gylltum borða og koparlituðu danskættuðu skjaldarmerki með póstlúðri. – Þegar góðborgari varð á vegi Sigga tók hann gjarnan kaskeitið ofan í virðingarskyni.

Siggi var ákaflega stoltur af búningnum sínum, en sögur fóru að því, að hann hefði frekar viljað vera klæddur herbúningi en póstbúningi, en Siggi hafði alla tíð einlægan áhuga á hertækni og stríðsrekstri. – En enginn var herinn í landinu, svo í stað þess að verja landið gegn óvinaher, þá gekk Siggi póstur í einkennisbúningum sínum um hinar friðasömu götur í Hlíðarhverfinu og bar íbúum þess bréf og kort frá vinum og ættingjum í öðrum landshlutum eða í útlöndum.

Ég varð fljótt einkavinkona Sigga pósts, og eitt sumarið var ég aðstoðarkona hans og bar reglulega út póstinn með honum í vestari hluta Hlíðahverfisins, Blönduhlíðinni, Drápuhlíðinni, Mávahlíðinni og Barmahlíðinni.  Við Siggi skiptum með okkur verkum: Hann bar póstinn í póst töskunni góðu, en ég sá um að koma bréfunum til skila til réttra eigenda.

Við garðhlið húsanna rétti Siggi mér póstinn, sem þangað áttu að fara, og gaf mér nákvæmar leiðbeiningar um í hvaða póstlúgu hvert og eitt bréf ætti að fara.  Ég hljóp léttfætt upp og niður tröppur og stakk bréfunum samviskusamlega inn um bréfalúgurnar. Húsin í Hlíðunum voru nær öll klædd gráum skeljasandi, en þessi litlausu og líflausu hús lifnuðu við í huga mér, þegar ég las nöfnin á íbúum þeirra á bréfunum.

Það var aðeins eitt sem ég óttaðist í starfi mínu, sem aðstoðarkona Sigga pósts, en það var það að ein af hinum einmana húsmæðrum í þessum gráu húsum byði Sigga inn í kaffi.  Ég gerði mitt besta til að koma í veg fyrir að það gerðist. Ég fór eins hljóðlega um tröppurnar eins og ég gat og passaði mig á því að skella ekki bréfalúgunum aftur. En þessar konur höfðu næmt eyra, og ef svo bar undir, komu þær umsvifalaust út á tröppur, þegar þær heyrðu þruskið í bréfalúgunni.  Þær voru góðar vinkonur Sigga og hann hafnaði aldrei boði þeirra, en þær höfðu engan áhuga á mínum félagsskap og varð ég fyrir vikið að fara heim og bíða komu Sigga næsta dags.

Ég slapp þó oftar en ekki með skrekkinn og þá endaði vinnudagurinn alla jafnan í Árnabúð á horni Miklubrautar og Lönguhlíðar, en þar verðlaunaði Siggi mig fyrir vel unnin störf með kókosbollu eða köldum svaladrykk.

Á hinum fáu heitu sumardögum fékk ég annað og meira starf en að bera út póstinn með Sigga.  Siggi gerði mig að heiðursverði, en það starf fólst í því að gæta póstjakka hans og kaskeitis.  Siggi naut þess að vera léttklæddur í sumar hlýjunni og  lagði jakkann sinn vandlega samanbrotin á brún girðingarinnar fyrir framan húsið okkar og rétti mér síðan kaskeitið til varðveislu. Ég hélt samviskusamlega á því allan tímann, en ég verð þó að viðurkenna, að ég mátaði það oftar en einu sinni og náði það mér niður fyrir augu. – Ég stóð ávallt mína plikt og þegar hann sneri aftur, oft sveittur á hvítri skyrtu, rétti ég honum stolt jakkann og kaskeitið og fékk lof fyrir.

Það lék lengi mikill ljómi yfir póst starfinu í huga mér og ein jólin þegar ég var í menntaskóla, fékk ég mér vinnu við að bera út jólapóst. Þá komst ég að því að það var ekkert rómantískt við að bera út póst á myrkum og snjóþungum vetrarmorgnum. Ég þurfti að vaða í gegnum slyddu og snjó og klifra upp og niður snjóþungar, hálar og oft óupplýstar tröppur, með þungan póstpokann, til að koma jólakveðjum landsmanna til skila.  – Og enginn viðtakandi þeirra bauð mér inn í kaffi!

Ég frétti síðan að Siggi póstur hafði fyrir löngu verið orðinn þreyttur og lúinn af því að bera út póst og væri kominn með innanhús starf hjá póstinum. Hann starfaði nú við taka á móti og flokka póst, sem fór í gegnum Umferðamiðstöðina í Vatnsmýrinni. – Og þar hitti ég minn gamla vin Sigga póst í síðasta sinn, en hann lést óvænt úr hjartaáfalli í byrjun sumars árið 1983, aðeins 55 ára að aldri.

 

 

 

 

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir mars 7, 2022 07:00