Það er ekki svo langt síðan að stórfjölskyldur á Íslandi bjuggu undir sama þaki og öllum þótti það sjálfsagt mál. Afi og amma, pabbi og mamma og börn þeirra deildu lífinu saman. En þjóðfélagið breyttist og aðskilnaður kynslóðanna þótti til bóta. Það sama gerðist í öðrum löndum en nú eru vísbendingar um að það sé að breytast. Í Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum fjölgar heimilum þar sem stórfjölskyldan deilir sama húsi. Tvær eða þrjár kynslóðir búa þá saman og hjálpast að.
Á vef breska blaðsins The Guardian var nýlega rætt við fjölskyldu í Bristol þar sem þrjár kynslóðir deildu saman sætu og súru. Hjónin Nick Brigth og Kathryn Whitehead , tvær dætur þeirra deila þriggja hæða húsi með móður Kathryn, Ritu Whitehead og hafa gert undan farin fjögur ár. Rita áttræð ekkja býr á jarðhæðinni en hjónin sem eru á fimmtugsaldri og dætur þeirra tvær 9 ára og 11 ára búa á hæðunum fyrir ofan.
Við skutum þessari hugmynd að mömmu að við myndum deila húsi, segir Kathryn. Rita segir að þær hafi rætt hugmyndina ítarlega við Nick vegna þess að henni hafi fundist það stór ákvörðun fyrir hann að fara að deila húsi með tengdamóður sinni.Nick segir á hinn bóginn að frá hans sjónarhorni hafi sambúðin gengið vel og hann myndi hiklaust mæla með þessu búsetuformi fyrir aðrar fjölskyldur.
Heimilum sem kynslóðir deila húsi saman fer fjölgandi í Bretlandi. Samkvæmt upplýsingum frá bresku Hagstofunni fjölgaði heimilum þar sem þrjár kynslóðir deila saman húsnæði úr 325 þúsund árið 2001 í 419 þúsund árið 2013. Heimilum þar sem tvær kynslóðir búa saman fer fjölgandi. Sumt fólk býr með öldruðum foreldrum sínum og fullorðin börn flytja aftur til foreldra sinns, hafi þau á anna borð flutt að heiman. Í dag er talið að fimmtungur allra þeirra sem eru á aldrinum 25 til 34 ára búi hjá foreldrum sínum samanborið við 16 prósent árið 1991.
Þau Nick og Kathryn segja að það geti verið þrautin þyngri að finna hús sem hentaði þremur kynslóðum þau séu ekki á hverju strái. Eftir nokkra leit fannst rétta húsið þó í Bristol. Kathryn segir að það hafi tekið tíma að venjast sambúðinni. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera þegar mamma sat ein niðri hjá sér að horfa á sjónvarpið. Í dag höfum við komið okkur upp ákveðnum venjum. Ef Nick langar að horfa á uppáhaldsþáttinn sinn í sjónvarpinu fer ég niður til mömmu og horfi á eitthvað með henni. Dæturnar Betsy og Lila fara oft til ömmu sinnar og horfa með henni á sjónvarpið. En þær hafa grætt fleira á sambúðinni með ömmu því hún hefur kennt þeim að prjóna, tala spænsku og sagt þeim sögur af lífinu sem hún lifði sem ung kona. Amman Rita segir að sambúðin gangi vel, því þeim semji vel. Þau borða saman tvisvar í viku og hjálpast að með ýmis verk. Rita segist geta náð í stelpurnar í skólann, þvegið og straujað þvott. „Mér finnst gott að búa í húsi þar sem er líf og fjör,“ segir hún og bætir við að félagsskapurinn skipti hana máli og henni þyki gott að vera ekki ein á báti.
Dr. Gemma Burgess stjórnandi hjá Cambridge Center for Housing and Planning Research segist hafa rætt við tugi fjölskyldna sem hafi ákveðið að flytja saman. Hún segir að það sem henni finnist einkennandi fyrir þessar fjölskyldur er traustið sem ríkir á milli foreldra og uppkominna barna þeirra. Fólk kemur sér saman um hvernig það vilji hafa hlutina og hvernig peningamálum skuli háttað.
En þó að sambýlið hjá fjölskyldunni í Bristol gangi vel þá eru líka til sorgleg dæmi þar sem sambúðin er slæm. Gemma segist hafa rætt við rúmlega fertuga konu. Maðurinn hennar tilkynnti henni einn góðan veðurdag að móðir hans væri að flytja til þeirra sem sú gamla gerði. Konunum kom illa saman frá upphafi. Maðurinn dó stuttu eftir að móðir hans flutti inn. Í erfðaskrá hans var ákvæði sem kvað á um rétt móðurinnar til að búa á heimilinu ef hann félli frá. Ekkjan sagðist ekki hafa efni á að kaupa sér nýtt hús hún sæti því uppi með tengdamóður sína nema hún tæki ákvörðun um að flytja.
Það er ekki bara í Bretlandi þar sem heimilum fjölgar þar sem stórfjölskyldan býr saman. Að sögn The Guardian fer slíkum heimilum í fjölgandi í Bandaríkjunum og Kanada. Á síðustu árum hefur þeim fjölgað um 40 prósent í Kanada og svipuð fjölgun er í Bandaríkjunum.
Arkitektar hafa líka velt því fyrir sér hvernig sé hægt að byggja hús sem séu hentug fyrir stórfjölskyldur. Arkitektin Manisha Patel segir að það verði að taka mið af því þegar borgir séu skipulagðar að það sé þörf fyrir húsnæði af þessu tagi. Hún segir að hún hafi nýlega verið að teikna hús sem ætlað sé fyrir stórfjölskyldu. Í húsinu eru tvær íbúðir með sérinngangi. Á milli þeirra er eldhús sem íbúarnir deila. „Það er hjarta hússins þar sem afi og amma, foreldrarnir og börnin hittast,“ segir hún og bætir við að allir hafi sitt einkapláss og það sé mikilvægt þegar stórfjölskyldan búi saman undir einu þaki. „Við eigum að forðast það í lengstu lög að borgir verði aldursskiptar. Fólk á öllum aldri á að búa í sérhverju hverfi og að byggja hús sem henta stórfjölskyldum er leið til þess,“ segir Manisha.