Árna Pétur Guðjónsson leikara þekkja allir Íslendingar enda er hann búinn að leika fyrir okkur í bæði gamanleikjum og drama allt frá því hann var ungur maður. Nú er Árni orðinn 67 ára og kemur sannarlega auga á kímnina í því. Hann hefur mætt breytingum í lífi sínu með opnum hug og grínið að vopni. Honum var sagt upp föstu starfi í Borgarleikhúsinu aldamótaárið og segist þá hafa fundið fyrir afkomuhræðslu. 2003 tók hann sig til og fór í leiðsögumannaskólann í Kópavogi sem hann segir að hafi verið ótrúlega skemmtilegt og happadrjúgt skref og hann ráðleggi öllum að gera slíkt hið sama. Hann þekki ótrúlega marga úr leikarastétt á hans aldri sem séu kvíðnir af því hlutverkum fækki þegar leikarar eldist. Ég finn fyrir miklum létti að vera meira sama um hvað öðrum finnst um það sem ég geri á leiklistarsviðinu eftir því sem ég eldist,” segir Árni. Þörfin fyrir að leika er enn mjög sterk en nú er Árni í leiklistinni algerlega á eigin forsendum. Hann tók leiklistarkennaramenntun þegar hann bjó í Danmörku í nokkur ár. Síðan hefur hann bæði leikið og kennt mjög mikið en hætti kennslunni árið 2000 vegna kulnunar en þá urðu fyrrnefnd kaflaskil í lífi Árna.
Skemmtilegasta vinnan
Árni Pétur segir að óhætt sé að halda því fram að leiðsögumannastarfið sé skemmtilegasta vinnan fyrir þá sem kunna að njóta hennar. “Ferðamennirnir eru komnir hingað til lands til að skemmta sér og eru alltaf að sýna sínar bestu hliðar. Þetta er yfirleitt fólk sem hefur ferðast mikið og langar í öðruvísi ævintýri. Þeir eru ekki hingað komnir til að fara í sólbað og láta vont veður ekki slá sig út af laginu. Hér er mikill fjölbreytileiki í náttúrunni og allt er nýtt fyrir þeim.”
Kosturinn að geta tekið upp þráðinn eftir hlé
Árni segist hafa notið þess að vera stundum fróðari en yngri skólasystkini sín sem spurðu hann gjarnan “hva… hvernig veistu allt þetta Árni. Ég sagði þeim þá að ég hefði þurft að vera bæði blindur og heyrnarlaus, kominn yfir fimmtugt, ef ég vissi ekki eitthvað um land og þjóð. Leiðsögumannaámið er stutt, bara kvöldskóli í eitt ár og að því loknu sendi ég netpóst á allar ferðaskrifstofurnar og bókaðist upp í hvelli,” segir Árni sem nýtur sín á stóru sviði leiðsögumannsins. “Ég er oftast að ferðast með 16 manna hópar og þá er ég með 16 manna áhorfendahóp í marga daga á ágætum launum,” segir Árni hlæjandi.
Fullkomið starf fyrir leikara
Starf leiðsögumanns er fullkomlega sniðið fyrir leikara því eins og Árni segir er starfið svolítið eins og að vera á sviði. Hann er búinn að komast að því að það sem ferðamönnum finnst skemmtilegast að heyra eru sögur af heimamönnum. Hann er duglegur að sýna þeim bóndabæinn þar sem bróðir hans var í sveit og þar sem mamma hans var í skóla vitandi að þeir munu aldrei komast að hinu sanna. Bróðir hans var kannski ekki nákvæmlega á bænum sem hann bendir á en gæti alveg hafa verið það og þá finnst ferðamönnunum þeir hafa grætt nokkuð. Hann segir líka að það sé munur á þjóðum því á meðan Ameríkaninn sé kominn til að láta segja sér sögur hafi Þjóðverjarnir lesið sér til og eigi það gjarnan til að leiðrétta leiðsögumanninn, sem geti verið afskaplega óþægilegt. Þess vegna reynir Árni að afgreiða það í upphafi ferðar og grínast gjarnan með að það sé bara ekkert að marka sem hann segi.
Gott að vita að næga vinnu er að hafa
Leiklistin er alltaf ofarlega hjá Árna en hann tekur yfirleitt að sér eitt leiklistarverkefni á ári. Hann fór reyndar með Vesturport leiklistarhópnum um heiminn fyrir nokkrum árum og datt þá út úr ferðamennskunni tímabundið. “En það er kosturinn við leiðsögumennskuna að maður getur alltaf tekið upp þráðinn aftur þótt maður taki hlé. Og með fjölgun ferðamanna er nú vöntun á góðum leiðsögumönnum,” segir Árni.
Býr í sama húsi og barnabarnið
Aðalbjörg, dóttir Árna og fjölskylda hennar, býr í sama stigagangi og Árni Pétur. Barnabarnið Saga Sólrún, 14 mánaða stelpuhnokki, getur nú orðið hlaupið upp til afa. Árni segist í raun ekki þurfa fleiri áhorfendur en þessa litlu stelpu því það sé svo dásamlegt með börn að þeim finnist sami brandarinn alltaf skemmtilegri eftir því sem hann er sagður oftar. “Við getum því hlegið endalaust saman og lífið er svo einfalt og dásamlegt.” Þau fóru saman í húsdýragarðinn nýlega og Árni upplifði í fyrsta sinn kostinn við að vera orðinn 67 ára því hann þurfti ekki að borga fyrir aðgöngumiðann. Hann gat gert mikið leikrit úr því atriði og naut sín í botn í húsdýragarðinum með barnabarninu.
Slapp í gegnum lífið án þess að gera handtak
Árni segist hafa sloppið í gegnum lífið án þess að gera ærlegt handtak. Bara sungið og dansað og látið illa og geti nú farið á eftirlaun. “Ég er þá spurður af praktískum vinum mínum hvort ég geri mér grein fyrir því hvað eftirlaunin séu lág. Ég spyr þá á móti hvort fólk geri sér grein fyrir því á hverju ég hafi lifað í gegnum tíðna. Ég sé listamaður og þess vegna ekki vanur miklu.” Árni segist reyndar vera að drukkna í peningum núna því hann sé svo heppinn að fá listamannalaun og af því hann sé ekki svo góðu vanur sem listamaður líði honum eins og hann syndi í peningum. Hann segir hlæjandi frá því að hann hafi oft verið kallaður Árni níski af því hann hafi verið aðsjáll í peningamálum. En nú komi það sér vel og þegar hann fái peninga sem hann átti ekki von á þá viti hann ekki hvernig hann eigi að láta.
Óttaðist að verða bitur listamaður á Mokka
Þegar Árni Pétur var í MR sem ungur maður var gjarnan farið á Mokka og þar segist hann hafa kynnst mörgum bitrum listamönnum. Hann hefur alltaf leitast við að læra af reynslu annarra og hefur verið mjög meðvitaður um að falla ekki í sömu gryfju og sumir listamenn sem hann hefur verið samferða í gegnum lífið. “Í Ameríku er til nokkuð sem heitir Arts anonymus sem eru tólf spora samtök. Þangað sækja listamenn sem þjást af fullkomnunaráráttu, biturleika og höfnunartilfinningu. Þetta er sjúkdómur sem fer oft að bera á strax í leiklistaskólanum. Krakkarnir koma hamingjusamir inn í skólann eftir að hafa verið hrósað óspart af fjölskyldu og vinum. Svo hægt og rólega læðist sjúkdómurinn inn og gleðin af því að fremja listina hverfur og þá er voðinn vís.”
Áhugaleikhús atvinnumanna
Árni tók þátt í því fyrir 10 árum að stofna félagsskapinn Áhugaleikhús atvinnumanna. Hann segir að þar hafi leikarar, sem höfðu leikið árum saman, leitað aftur í ræturnar og rifjað upp hvað hafði verið svona ofboðslega gaman við að leika. Hvað var svona skemmtilegt við að fara í klæðaskápinn, koma fram í skrýtnum fötum og segja: “Sjáiði, ég er að leika leikrit” og allir klöppuðu. “Allt gekk út á að finna aftur gleðina við að leika og hópurinn sló í gegn. Þetta var algerlega skuldbindingalaust þar sem peningar komu lítið við sögu,” segir Árni. Hann bætir við að einn af draumum sínum sé að stofna framúrstefnulegt leikhús með eldgömlum leikurum. Slíkir hópar séu til víða úti í heimi og í þeim sé rosalegur kraftur. “Hér á landi eru konur 50+ búnar að stofna slíkan félagsskap og starfsemi þar er geysilega flott,” segir þessi kraftmikli “eldri borgari” sem nýtur lífsins ríkulega og finnst hann alltaf vera að vinna skemmtilegustu vinnu í heimi.