Ályktanirnar virðast lenda í ruslakörfunni

Til að leiðrétta kjaragliðnun hjá eldri borgurum árin 2009-2013 og árið 2015 þarf lífeyrir að hækka um 30%. Svo segir í tillögu sem samþykkt var á aðalfundi Félags eldri borgara sem haldinn var fyrir helgina. Þess var líka krafist á fundinum, að aldraðir og öryrkjar fengju nú þegar greidda afturvirka hækkun á lífeyri sínum eins og ráðherrar, alþingimenn og embættismenn fengu. „ Það er meiri þörf á því að aldraðir fái greidda afturvirka hækkun en framangreindir hálaunamenn“, eins og segir í tillögunni.

Lífeyrir TR of naumt skammtaður

Tillögurnar um kjaramálin voru sex. Í þeim var meðal annars farið fram á að skerðingar á lífeyri aldraðra hjá almannatryggingum vegna greiðslna til þeirra úr lífeyrissjóðum, yrðu stöðvaðar og að skattleysismörk yrðu hækkuð. Í einni tillögunni segir orðrétt:

Þeir eldri borgarar, sem einungis hafa lífeyri frá almannatryggingum, geta ekki lifað af lífeyrinum. Hann er svo naumt skammtaður. Annað hvort verða þeir að fá aðstoð frá ættingjum og/eða hjálparstofnunum eða að neita sér um lyf, lækniskostnað eða jafnvel mat. Þetta ástand er óásættanlegt og brot á mannréttindum. Þeir eldri borgarar, sem hafa mjög lágar greiðslur úr lífeyrissjóði eru lítið betur settir. Sú litla hækkun, sem varð á lífeyri aldraðra um sl. Áramót breytir hér engu. Aðalfundurinn skorar á ríkisstjórnina að binda strax endi á þetta ófremdarástand með því að stórhækka lífeyrinn hjá þeim eldri borgurum, sem verst eru staddir og hlutfallslega hjá öðrum.

Þessar tillögur voru allar frá kjaranefnd FEB og voru allar samþykktar. Í skýrslu nefndarinnar fyrir 2015-2016 segir Björgvin Guðmundsson formaður hennar, að gamla aðferðin að samþykkja ályktanir og senda ráðamönnum virðist ekki duga lengur. „Ályktanir eldri borgara, sem sendar eru ráðamönnum, virðast lenda í ruslakörfunni. Það verður þess vegna að fara nýjar leiðir“, segir hann.  Björgvin Guðmundsson og Unnar Stefánsson fyrrverandi formaður félagsins voru heiðraðir á aðalfundinum fyrir störf sín í þágu eldri borgara.

 

Ritstjórn febrúar 23, 2016 11:44