Sumar manneskjur lifa lífinu á einhvern þann hátt að það snertir ekki bara við þeirra eigin samtíma heldur senda þær öldur skilnings og meðlíðunar gegnum tíma og rúm. Ragnheiður Brynjólfsdóttir biskupsdóttir er ein þeirra. Hana þarf ekki að kynna Íslendingum svo vel er saga hennar þekkt þótt liðin séu 364 ár frá andláti hennar. Saga Guðmundar Kamban, Skálholt, var lengi ein vinsælasta skáldsaga landsins og leikgerð eftir sögunni verið sýnd víða í leikhúsum landsins og sálmurinn Allt eins og blómstrið eina er sagður hafa verið sunginn fyrst yfir moldum hennar.
Ragnheiður var í vináttu við Hallgrím Pétursson og heimildir eru fyrir því að hann hafi sent henni Passíusálmana í handritið þegar hún lá veik heima í Skálholti. Aftan við sálmana var að finna ljóðið, Um dauðans óvissu tíma. Sagt er að Ragnheiður hafi heillast af honum og beðið um að hann yrði sunginn í jarðarför sinni. Heimildir benda hins vegar til að svo hafi ekki verið. Sálmurinn er ekki tekinn inn í sálmabók fyrr en árið 1691 en þá voru tuttugu og átta ár frá láti Ragnheiðar en hann var almennt ekki sunginn við jarðarfarir fyrr en seint á átjándu öld. Í ævisögu Brynjólfs, föður hennar, er þess ekki getið að þessi nýi sálmur hafi verið sunginn við útför dótturinnar og miðað við hversu siðavandur hann var er ólíklegt að hann hafi valið annað en viðurkennda tónlist við þetta tilefni. Honum var heldur ekki sérlega vel við Hallgrím eftir að skáldið brást trausti biskups og tók saman við Guðríði Símonardóttur og lauk ekki lokaprófi í prestaskólanum í Kaupmannahöfn.
Sumir telja að uppruni sögunnar um að sálmurinn hafi verið sunginn yfir moldum Ragnheiðar sé að finna í skáldsögu Guðmundar Kamban. Það er auðvitað fögur viðbót við hádramatíska sögu. Ragnheiður var dóttir Brynjólfs Sveinsonar biskups í Skálholti frá 1639–74. Hann var stórgáfaður og mikill kennimaður. Á þeirri tíð voru siðferðiskröfur strangar og refsingar við brotum þungar. Stóridómur, siðferðisdómstóll skipaður prestum og prelátum, var numinn úr lögum árið 1638 en lengi eimdi eftir af þeim viðhorfum sem endurspegluðust í þeim lögum sem hann byggði á.
Álitlegasti kvenkostur landsins
Konur skyldu óspjallaðar þegar þær gengu í hjónaband og ströng viðurlög voru við sifjabrotum þ.e. ekki eingöngu sifjaspellum heldur einnig nákvæm ákvæði um hversu skylt parið mátti vera til að fá að ganga í hjónaband. Brynjólfur var frjálslyndur og framsækinn að mörgu leyti og var hann einn af frumkvöðlum þess að Stóridómur var lagður af. Hann var þó ákaflega strangur í siðferðismálum og lifði sjálfur flekklausu lífi. Brynjólfur gætti þess mjög að gera sömu kröfur til vina sinna og fjölskyldu eins og hann gerði til almennings ef eitthvað reyndist hann sínum nánustu oft strangari eins og saga Ragnheiðar ber vitni um.

Brynjólfur biskup var strangur bæði við sjálfan sig og kennimenn sína en margt bendir til að hann hafi verið frjálslyndari í hugsun en margir samtímamenn hans.
Ragnheiður var álitlegasti kvenkostur landsins á sinni tíð, falleg, rík og bráðvel gefin. Þeir voru allnokkrir synirnir í helstu höfðingjaættum landsins sem renndu hýru auga til Skálholtsstaðar. Skóli var í Skálholti á þessum árum, eingöngu ætlaður drengjum að sjálfsögðu og sveinar biskups nokkuð stór hópur ungra atgervismanna. Ragnheiður sýndi þó engum meiri blíðu og áhuga en öðrum. Daði Halldórsson frá Hruna var einn sveina biskups. Hann var glæsimenni, bráðgáfaður og í miklu uppáhaldi hjá Brynjólfi og Halldór faðir hans mikill vinur biskups.
Daði var fenginn til að vera einkakennari Ragnheiðar og fljótlega fara íbúar Skálholtsstaðar að pískra um samdrátt þessara tveggja ungmenna. Bara orðrómurinn var nóg til að Brynjólfur varð að bregðast við. Hann neyddi dóttur sína til að sverja þess eið fyrir altari í Skálholtskirkju að hún væri óspillt mey. Hún varð einnig að fá tólf valinkunnar konur til að sverja með sér. Þetta gerði Ragnheiður en níu mánuðum seinna fæddi hún son sem skírður var Þórður og lýsti Daða föður að barninu. Þá er hún búin að koma sér fyrir í skjóli frænku sinnar, Helgu Magnúsdóttur í Bræðratungu.
Það sem tekur þá við er til marks um harðneskju þessarar aldar og sýnir glögglega þversagnirnar í skapgerð biskups. Hann neyðir dóttur sína til að koma heim og skilja barnið sitt eftir. Hún á ekki annarra kosta völ en að hlýða en þráin eftir barninu er svo sterk að hún reynir að strjúka. Þá lætur hann vakta hana og flytja drenginn í Hruna til afa síns og ömmu svo Ragnheiður reyni síður að komast til hans. Ragnheiður þarf einnig að játa brot sitt fyrir troðfullri dómkirkjunni í Skálholti, afsala sér arfi og Daði þarf að borga háar skaðabætur fyrir sinn þátt í þessum glæp. Ragnheiður játaði hins vegar aldrei að hafa svarið rangan eið þegar hún lýsti sig óspillta mey árið áður. Enn í dag velta menn því fyrir sér hvort svo hafi verið eður ei.
Í einn tíma var jafnvel miðill, Guðrún Sigurðardóttir, í beinu sambandi við Ragnheiði og skrifaði bók um samskipti sín við hana og sagði hana hafa svarið rangt en Guðmundur Kamban hafði það hins vegar á hinn veginn. En í stóra samhenginu skiptir það nútímafólk litlu hvort hún laug fyrir altari Skálholtskirkju eða ekki, hitt vegur þyngra að hún hafði hugrekki til að bjóða siðvenjum samfélags síns í birginn og fórna öllu fyrir ástina jafnvel eilífri sáluhjálp sinni. Gunnar Þórðarson samdi óperuna Ragnheiði um ástir og örlög biskupsdótturinnar, Megas gerði um hana frægt lag og meira að segja aðfluttir Íslendingar láta heillast af persónu hennar. Alexandra Chernyshova er fædd í Úkraínu en fluttist hingað eftir að hún varð ástfangin af íslenskum manni. Alexandra hefur samið óperu um Ragnheiði, Skáldið og biskupsdóttirin.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.