Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar
Ömurlegum aðstæðum fátæklinga á Englandi á 19. öld hefur líklega hvergi verið lýst með áhrifaríkari hætti en í sögu enska rithöfundarins Charles Dickens um munaðarleysingjann Oliver Twist. Þetta á jafnt við um ritverkið sem slíkt sem og ýmsar útgáfur af því, og þar á meðal útvarpsleikgerð sem flutt var í Ríkisútvarpinu nokkru eftir miðja síðustu öld, sem margir muna eflaust eftir. Oliver Twist er sérstaklega gott dæmi um mikilvægi bókmennta og reyndar lista almennt fyrir samfélagið.
Fyrir ekki svo löngu síðan fjallaði íslenski rithöfundurinn Mikael Torfason um fátækt hér á landi í nokkrum útvarpsþáttum á Rás 1. Þetta voru vægast sagt átakanlegir þættir, ekki síður en sagan um Oliver Twist, um skammarlega hlið á samfélagi sem auðsjáanlega sinnir sumum betur en öðrum. Það er gjörsamlega óskiljanlegt hve margir þurfa að lifa undir fátæktarmörkum hér í landi velmegunarinnar nú á tímum, um 180 árum eftir að Dickens skrifaði söguna um Oliver. Af hverju ætli þetta sé svona? Því verður auðvitað ekki trúað að stjórnvöld vilji að sumir eigi ekki fyrir nauðsynjum fyrir sig og sína. Getur kannski verið að þetta sé annað dæmi um það sem maðurinn kallaði „ákveðinn ómöguleika“? Það skyldi þó ekki vera? Auðvitað væri fyrir löngu búið að laga þetta ef einhver raunverulegur vilji væri til þess.
Sjónvarpið sýnir um þessar mundir athyglisverða þáttaseríu um Viktoríu Bretadrottningu, sem varð einmitt drottning á sama ári og fyrsti hlutinn af sögu Dickens um Oliver Twist var birtur opinberlega, árið 1837. Fram kemur í einum þættinum um drottninguna að sumum úr forrréttindaliðinu í kringum hana fannst ekki mikið koma til skrifa Dickens, enda að öllum líkindum ekki mikil þekking í þeim félagsskap á því sem rithöfundurinn fjallaði um í skrifum sínum. Viðbrögð við útvarpsþáttum Mikales Torfasonar um fátæktina hér á landi voru að nokkru leyti í líkingu við viðbrögð sumra þeirra sem lifðu í hvað mestum vellystingum í kringum Viktoríu, ef eitthvað er að marka sjónvarpsseríuna um hana. Hvort þetta stafar af skilningsleysi eða einhverju öðru er ekki gott að segja til um. Sumar aðfinnslurnar voru hins vegar fáránlegar. Eins og til dæmis þegar pistlahöfundur kvartaði í dagblaði yfir því að RÚV hefði frekar átt að fá fræðimenn, sem hefðu skrifað um fátækt í ritrýnd tímarit, til að sjá um útvarpsþætti um fátækt, en rithöfund.
Hin neikvæðu viðbrögð sem sumir sýndu vegna umfjölunar Mikales Torfasonar um fátækt eru auðvitað í samræmi við það sem við er að búast af hálfu þeirra sem eru vanir að rísa upp á afturlappirnar til að verja óbreytt ástand, hvort sem það snýr að fátækt, kjörum öryrkja eða aldraðra, heilbrigðis- eða menntakerfi, fiskveiðum, eða nánast hverju öðru sem verða vill. Markmiðið er væntanlega eins og vanalega að drepa umræðunni á dreif og freista þess að kæfa hana í fæðingu. Það er ekkert nýtt í því og er algjörlega fyrirsjáanlegt.
Þó fræðimenn séu að sjálfsögðu mikilvægir þá getur þurft að horfa út fyrir hið venjubundna til að sjá skóginn fyrir trjánum. Þar koma oft listamenn til. Fyrst er auðvitað að gera sér grein fyrir verkefninu hverju sinni, eins og Mikael Torfason og Charles Dickens gerðu, hvor á sínum stað og tíma. Í framhaldinu getur svo verið heppilegt horfa til listamanna til að takast á við verkefni. Svo aftur sé litið til Englans, þá voru í maímánuði síðastliðnum liðin fimmtíu ár frá því Bítlarnir sendu frá sér Sgt. Pepperʼs Lonely Hearts Clup Band, eina áhrifaríkustu hljómplötu allra tíma. Tónlistin er auðvitað helsta ástæðan fyrir miklum áhrifum þessa verks. Þó er næsta víst að það hefur einnig haft mikið að segja hvað þetta var allt óvænt og öðruvísi og frábrugðið því sem áður hafði verið gert. Ófyrirsjáanleikinn getur nefnilega verið svo spennandi. Þar fyrir utan var enginn „ómöguleiki“ að þvælast fyrir þeim Bítlum. Þeir leituðu víst allra leiða til að geta gert það sem þeir vildu gera, til að ná fram akkúrat þeim áhrifum sem þeir vildu ná fram. Þetta eru fyrirmyndar vinnubrögð sem þeir, sem fara með valdið á hverjum tíma, ættu frekar að taka upp í staðinn fyrir að afsaka eigin vanmátt og getuleysi með því að vísa í „ákveðinn ómöguleika“, þegar öll tæki og tækifæri eru til staðar, bara ef menn hætta að vera svo ofboðslega fyrirsjáanlegir.