Tengdar greinar

Áttu rabarbara í frystinum?

Hefurðu lent í því að setja rabarbara í frystinn að vori og hent honum að ári þegar ný uppskera er tilbúin úr garðinum. Hér er uppskrift að nýstárlegri rabbabarasultu sem hægt er að nota við ýmis tækifæri og í hana er notaður frystur rabbabari. Sykur hefur verið minnkaður til muna frá því hlutföllin áttu að vera jöfn á milli berja eða rabbabara og sykurs. Síðan er chilialdin soðið með og kemur þá skemmtilegt bit í sultuna. Þessi sulta er tilvalin með eftirréttum en til að einfalda lífið er ráð að kaupa tilbúnar litlar kökur, t.d. Poppies „mini brownies“ sem fást frystar í Stórkaup í Skeifunni. Þær eru í liltum bitum og tilvalið að nota sem eftirrétt með nýju rabarbarasultunni ofan á. Þetta slær í gegn og er ótrúlega einfaldur og ljúffengur eftirréttur og lítið fyrir honum haft. Sultuna má líka nota út á hreint skyr eða jógúrt sem er ótrúlega ljúffengt og örugglega minni sykur en fæst í tilbúnu vörunni í verslunum. Það þarf enginn að vita að þið keyptuð súkkulaði brownies bitana tilbúna. Segið bara fjálglega frá sultunni sem er heimatilbúin.

500 g frystur rabarbari í bitum

150 g sykur

1-2 chilialdin, smátt söxuð og fræin höfð með

200 – 300 g jarðarber (helst íslensk)

salt ef vill

Látið rabbabarabitana í pott á miðlungshita. Í frystum rabbabara er nægur vökvi svo ekki er nauðsynlegt að bæta vatni við. Látið rabbabarann sjóða í 30 mínútur og bætið þá jarðarberjunum og smátt söxuðu chilialdininu saman við. Látið sjóða áfram í 20 mínútur eða þar til allt allt hefur mýkst vel. Stappið þá allt saman, fremur gróft, og farið með eins og aðra sultu. Sætan í jarðarberjunum gerir sultuna  líka sæta. Og af því gott er gera sultuna úr frystum rabbabara er gott að búa til lítið í einu og nota það áður en búið er til meira. Þá er ekki hætt á að sultan mygli.

Ritstjórn október 2, 2020 10:31