Bann við mismunun vegna aldurs ætti að vera í stjórnarskrá

Eygló Harðardóttir velferðarráðherra greinir frá því í Fréttablaðinu í dag að frumvarp sé í smíðum þar sem meðal annars verði bannað að mismuna fólki á vinnumarkaði vegna aldurs. Slík löggjöf hefur tíðkast í öðrum löndum, til að mynda í Bandaríkjunum.  Tölur Vinnumálastofnunar sýna að langtímaatvinnuleysi er mest meðal kvenna sem eru komnar yfir fimmtugt.  Ráðherra segist í blaðinu ætla að óska eftir samstarfi við Landssamband eldri borgara um vinnumarkaðsmálin.  Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambandsins segir gott að fá umræðu eins og þessa uppá borðið og Landssambandið vilji  að sjálfsögðu taka þátt í verkefni eins og þessu og vinna að því að finna lausnir.  „Ég held að mismunun vegna aldurs hafi verið viðvarandi lengi þrátt fyrir lög og reglur um jafnrétti.  Þar er ýmsu ábótavant svo sem eins og tölur um atvinnuleysi eldri kvenna sýna“, segir hún.

Eldra fólki var sagt upp í fjármálastofnunum

Hún segir að fyrir hrun hafi verið dæmi um það í fjármálastofnunum, að eldra fólki hafi verið sagt upp störfum til að rýma fyrir yngra fólki.  Gjarnan eldri konum sem áttu 5-10 ár eftir í að komast á eftirlaun. Á sama tíma og það er til umræðu að hækka aldursmörk fyrir starfslok til að mynda í opinbera geiranum upp í 75 ár virðist tilhneiging til að ýta eldri starfsmönnum út af vinnumarkaðinum.   Það er einnig rætt um að fólk geti tekið hálfan lífeyri og verið í hálfu starfi á móti þar til það fer af vinnumarkaði „Hvernig ætli það muni þá ganga fyrir konurnar?“ spyr Jóna Valgerður.  Hún segir að Landssambandið hafi viljað að það yrði tekið inní nýja stjórnarskrá að ekki mætti mismuna fólki eftir aldri.  Í núgildandi stjórnarskrá eru ákvæði um að ekki megi mismuna fólki eftir kynferði, þjóðerni, trúarbrögðum, skoðunum og fleiru, en ekki er sérstaklega tekið fram að ekki megi mismuna fólki eftir aldri.  Í tillögu að nýrri stjórnarskrá frá 30.ágúst 2012, er heldur ekkki tekið fram að ekki megi mismuna mönnum eftir aldri.

 

 

Ritstjórn júlí 23, 2014 16:55