Tengdar greinar

Beitir sér gegn kynbundnu ofbeldi

Breski leikarinn Sir Patrick Stewart er talinn meðal bestu dramatísku leikara Bretlands og er flestum minnistæður í hlutverkum kafteins Jean-Luc Picard í Star Trek: The Next Generation og  prófessors Charles Xavier í X-Men. Hann hefur lengi notað krafta sína og frægð til að berjast gegn heimilisofbeldi, enda þekkir hann þann vanda af eigin raun.

Sir Patrick er þekktastur fyrir hlutverk Jean-Luc Picard í Star Wars.

Sir Patrick fæddist 13. júlí árið 1940 í Mirfield í Yorkshire á Englandi. Hann ólst upp hjá ofbeldisfullum föður og kúgaðri móður. Móðir hans, Gladys, var vefari og vann í textílverksmiðju en faðir hans Allan Stewart var foringi í breska hernum. Hann barðist í seinni heimstyrjjöldinni og síðar komust Patrick og bróðir hans að því að hann hafði verið greindur með „shell shock“ eða „battle fatique“ sem voru heiti notuð yfir það sem við þekkjum núna sem áfallstreitu. Menn þekktu ekki þetta vandamál en hermenn voru fluttir frá vígstöðvunum í geðrofi og fá úrræði voru til að hjálpa þeim önnur en að senda þá heim í þeirri von að öryggi og ró myndi um síðir lækna sjúka huga þeirra.

Allan Stewart læknaðist aldrei og árið 2008 sagði Patrick um föður sinn: „Pabbi minn var mjög sterkur einstaklingur, mjög ákveðinn og fylginn sér og hann fékk yfirleitt sínu framgengt. Um hann var sagt að þegar hann stikaði inn á göngusvæði herdeildarinn hafi fulgarnir hætt að syngja. Það liðu mörg, mörg ár þar til ég gerði mér grein fyrr hversu mjög faðir minn hafði haft mikil áhrif á starf mitt. Ég hafði látið mér vaxa yfirskegt þegar ég lék Macbeth og þegar ég leit í spegilinn áður en ég gekk af stað inn á sviðið sá ég andlit hans. “

Sir Patrick hefur leikið í fjölmörgum Shakespeare verkum og er mikill aðdáandi þjóðskáldsins.

Hætti fimmtán ára í skóla

Kannski var það tilviljun en líklega þó ekki að svip föður síns sá Patrick í speglinum þegar hann var í hlutverki eins valdasjúkasta morðingja leikbókmenntanna. Hann leið  alla tíð vegna ástandsins á æskuheimilinu og hann segir að hann eigi enskukennara sínum, Cecil Dormand það að þakka að hann varð leikari. Dag nokkurn í skólanum rétti hann honum eintak af leikriitum Shakespeares og sagði honum að standa upp og leika. Þá var Patrick ellefu ára og áhuginn var kviknaður. Hann lærði leiklist í gagnfræðaskóla og fimmtán ára hætti hann í skóla og réði sig í vinnu hjá leikhúsi í heimabæ sínum. Hann vann einnig við blaðamennsku á þessum árum en eftir ár setti ritstjóri hans honum stólinn fyrir dyrnar og sagði að hann yrði að velja milli leiklistar og blaðamennsku.

Á þessum tíma æfði Patrick hnefaleika  og aðeins átján ára byrjaði hann að missa hárið. Seinna hefur hann tengt hármissinn við streituna sem hann upplifði í æsku og hafði alls ekki tekist að vinna sig frá. Hann segir þó að hnefaleikarnir  hafi kennt honum aga og verið góð leið til að fá útrás. Leiklistin var honum nauðsynlegt form tjáningar og þess vegna kaus hann að gefa blaðamennskuna upp á bátinn.

Árið 1966 varð hann meðlimur í The Royal Shakespeare Company og vann með þeim til ársins 1982. Hann þykir einstaklega fær í að túlka dramatísk hlutverk og hefur leikið allar helstu hetjur Shakespeares á sviði. Patrick kom einnig fram í sjónvarpsþáttum en þótt hann nyti velgengni var hann ekki á háum launum. Þess vegna freistaði það óneitanlega að taka hlutverkið þegar honum bauðst hlutverk í amerískum sjónvarpsþætti árið 1987. Hann var tregur til að skrifa undir sex ára samning en þegar umboðsmaður hans fullvissaði hann um að hugmyndin að baki þáttunum væri svo vitlaus að hann yrði komin aftur á svið í London innan sex mánaða samþykkti hann. Þættirnir voru Star Trek og Patrick neyddist til að vinna út samningstímann.

 „Þar sem meirihluti þeirra sem beita ofbeldi inni á heimilum eru karlmenn er það er í okkar höndum að stöðva það.“

Sir Patrick giftist Sunny Ozell árið 2013. Vinur hans Sir Ian McKellen gaf þau saman. Þetta er þriðja hjónaband Sir Patricks.

Hollywood opnar sínar dyr

Þetta hlutverk varð hins vegar til þess að Hollywood-framleiðendur tóku að veita honum athygli. Hann fékk ýmis aukahlutverk í myndum en var svo boðið að taka þátt í X-Men ævintýrinu. Patrick þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af peningum og stöðu sína kýs hann að nota til að styrkja og efla málefni sem brenna á honum. Rödd hans er djúp, skýr og áhrifamikil, enda er hann margoft beðinn að vera þulur og tala inn á ýmsa þætti og myndir.

Árið 2006 steig hann fram í heimildamynd sem gerð var fyrir Amnesty International og lýsti því hvernig heimilsofbeldið sem hann upplifði í æsku hafði mótað líf hans. Sama ár stofnaði hann styrktarsjóð við Háskólann í Huddersfield sem ætlað er að efla rannsóknir doktorsnema á heimilisofbeldi og afleiðingum þess. Hann hefur einnig lagt sig eftir að efla rannsóknir á áfallastreitu og leiðum til að veita meðferð við henni.

Í fyrra fór myndband sem eldur í sinu um Netið en það var tekið upp á samkomu þar sem Patrick Stewart kom og talaði við unga aðdáendur sína. „Þar sem meirihluti þeirra sem beita ofbeldi inni á heimilum eru karlmenn er það er í okkar höndum að stöðva það,“ segir Patrick Stewart í svari til einnar stúlkunnar sem spurði hann hvað sæti eftir í huga hans þegar hann hugsaði til baka til þess ofbeldis sem hann upplifði á æskuheimili sínu.  Við sama tilefni sagði hann einnig: „Ég hlustaði á ótal lögreglumenn, starfsmenn sjúkrabifreiða og fulltrúa barnaverndaryfirvalda segja við móður mína: „Frú Stewart, þú hlýtur að hafa gert eitthvað til æsa hann upp.“ En móðir mín gerði ekkert, aldrei neitt til að ögra honum eða æsa hann upp og þótt hún hefði gert það er ofbeldi aldrei svar sem karlmenn mega leyfa sér. “

Patrick styður með ráðum og dáð samtök sem heita Refuge. Þessi bresku samtök reka athvörf fyrir konur og börn sem búa við heimilisofbeldi. Patrick leggur áherslu á að hús samtakanna séu raunverulega örugg. Það hafa nefnilega verið brögð að því í Bretlandi að ofbeldismenn hafi haft upp á konum sínum og sótt að þeim í ríkisreknum athvörfum. Hann er bæði talsmaður samtakanna og þeirra helsti stuðningsmaður fjárhagslega

Árið 1966 giftist hann Stellu Falconer en þau skildu árið 1990.  Þau eiga tvö börn saman, Daniel og Sophiu.  Daniel er leikari og hefur tvisvar leikið á móti föður sínum. Í fyrra sinnið í sjónvarpsmyndinni Death Train og í það síðara í Star Trek þættinum The Inner Light en þar lék hann son Jean-Lucs.  Árið 2000 kvæntist hann Wendy Neuss en þau höfðu þá verið trúlofuð í þrjú ár. Hjónabandið entist ekki en þau skildu þremur árum síðar. Um tíma var hann í sambandi við mótleikkonu sína Lisu Dillon. Eftir að upp úr því slitnaði hóf hann samband við Sunny Ozell en þau giftu sig árið 2013 en það var vinur Patricks, Sir Ian McKellen sem gaf þau saman.  Þessi mikli hugsjónamaður er einnig baráttumaður fyrir jafnrétti og mannréttindum á öllum sviðum. Hann segist vera sósíalisti og trúa því að mannkynið muni aldrei ná árangri fyrr misrétti hefur verið útrýmt. Hann er friðarsinni og berst einnig fyrir því að ungt fólk fái tækifæri til menntunar og til að stunda þau störf sem þau hafi löngun til.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 19, 2024 07:00