Salzburg er helst þekkt fyrir trúrækni íbúanna og ást þeirra á tónlist. Mozart fæddist og ólst upp í þessari borg og prinsarnir sem réðu henni voru flestir þekktir fyrir örlæti sitt við tónlistarmenn. Hún er fjórða stærsta borg Austuríkis og gamli bærinn þar er á heimsminjaskrá UNESCO.
Nafn borgarinn þýðir saltkastali og þarna er að finna mannvistarleifar frá nýsteinöld. Borgin afmarkast af háum fjöllum á tvo vegu og í gegnum hana rennur Salzach-áin sem setur enn frekari svip á umhverfið. Á sjöundu öld kom munkurinn Rupert auga á hversu frábærir staðhættir voru þarna. Hann stofnsetti klaustur og fljótlega byggðist upp þorp á staðnum en íbúarnir stunduðu einnig saltvinnslu og urðu vellauðugir fyrir vikið því á þessum tíma var salt gulls ígildi.
Öldum saman voru æðstu yfirmenn í Salzburg prestar sem höfðu titilinn prinsar af hinu heilaga rómverska keisaradæmi eða það sem í raun var Páfadæmið. Þeir voru flestir miklir menningarfrömuðir og höfðu tónlistarmenn við hirð sína. Þetta voru snjallir stjórnmálamenn sem gerðu sér grein fyrir hversu viðkvæmur friðurinn var í Evrópu. Þeir byggðu því virki sem varði borgina bæði í þrjátíu ára stríðinu og gegn yfirráðum Hapsborgaranna. Framsýni þeirra gerði það að verkum að hér hafa varðveist bæði byggingar og list frá miðöldum sem á fáa sína líka annars staðar.
Tökustaður Sound of Music
Í dómkirkjunni var Mozart skírður með vígðu vatni úr skírnarfonti frá þrettándu öld. Húsið þar sem hann fæddist og ólst upp er nú safn en skammt þar frá er torgið þar sem Julie Andrews dansaði og söng I Have Confidence in Me í kvikmyndinni Sound of Music. Nonnberg-klaustrið sem gnæfir yfir Salzburg er nefnilega klaustrið þar sem Maria Augusta Kutchera var lærlingur og stúlkan sú er fyrirmyndin að persónunni sem Julie Andrews lék í myndinni. Maria var send til að gæta barna barónsins Georges von Trapp. Hún sagði seinna í ævisögu sinni að hún hefði orðið ástfangin af börnunum og gifst föður þeirra þess vegna. Skynsemishjónabönd eru greinilega ekki alslæm því í bókinni segist Maria von Trapp hafa lært að elska eiginmann sinn.
Börnin níu og Maria mynduðu lítinn söngflokk og þegar fjölskyldan varð að flýja undan nasistum til Bandaríkjanna gátu þau séð fyrir sér með söngnum. Flóttinn var ekki nærri því eins dramatískur og lýst er í kvikmyndinni því þau fóru frá Salzburg með lest um miðjan dag og enginn gerði tilraun til að stöðva þau. Ferðalagið yfir fjöllin sem er svo dramatískt í myndinni er sprottið úr hugarfylgsnum handritshöfunda í Hollywood. Hefði fjölskyldan lagt á fjöllin er hætta á að hún hefði alls ekki komist í öruggt skjól því frá Salzburg liggja fjallaleiðir aðeins til Þýskalands og beint í fang Hitlers.
Heims um ból
Enn annar tónlistarmaður sem sett hefur mark sitt á heiminn fæddist og ól allan sinn aldur í Salzburg. Það var faðir Joseph Mohr, sá sem samdi sálminn Stille Nacht sem heitir í íslensku þýðingunni Heims um ból. Sagan segir að hann hafi verið á leið heim seint á aðfangadagskvöld og litið upp í stjörnubjartan himininn. Vetrarfegurðin hrærði hann svo að sálmurinn varð til á þessu augnabliki og þegar heim kom þurfti hann ekki annað en að skrifa hann niður. Það var síðan Franz Xavier Gruber sem samdi lagið og í lítilli kapellu í Oberndorf, skammt utan við Salzburg, var sálmurinn fluttur í fyrsta sinn.
Þótt menn hafi engan sérstakan áhuga á tónlist eða kvikmyndinni Sound of Music er ótalmargt að sjá í Salzburg. Fyrst og fremst er kyrrð borgarinnar og fegurð áhrifamikil. Gamli bærinn með þröngum götum og fallegum handunnum, járnskiltum yfir hverri búð, er einstakur í sinni röð. Margir handverksmenn bjóða vörur sínar til sölu í þessum litlu búðum og árlega er haldinn jólamarkaður í borginni sem er vel þess virði að skoða.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.