Styrktarfélagið Göngum saman efnir til vorgöngu fyrir alla fjölskylduna víða um land á mæðradaginn, sem er á sunnudaginn kemur 8. Maí. Gangan hefst klukkan 11:00. Í Reykjavík verður gengið frá Háskólatorgi þar sem íslenskir vísindamenn, sem hafa þegið styrki félagsins, kynna störf sín.
Einnig verður gengið í Borgarnesi, Stykkishólmi, Patreksfirði, Ísafirði, Hvammstanga, Siglufirði, Akureyri, Vopnafirði, Egilsstöðum, Neskaupstað, Reyðarfirði, Höfn, Vestmannaeyjum, Selfossi og Reykjanesbæ. Allar göngur hefjast kl. 11 og nánari upplýsingar um hvern stað verður að finna á heimasíðunni www.gongumsaman.is
Gangan er gjaldfrjáls en göngufólki gefst kostur á að styrkja rannsóknir á brjóstakrabbameini með frjálsum framlögum eða með því að festa kaup á varningi Göngum saman. Í ár verða m. a. seldir bolir, höfuðklútar og margnota innkaupapokar sem hannaðir voru sérstaklega fyrir félagið af Lóu Hjálmtýsdóttur og vettlingar úr íslenskri ull, hannaðir af Farmers Market.
Styrktarfélagið Göngum saman nýtur góðs af samstarfi við Landssamband bakarameistara sem stendur fyrir sölu á brjóstabollum í bakaríum um allt land dagana 6. – 8. maí í tengslum við mæðradaginn. Landsmenn eru hvattir til að bjóða upp á brjóstabollur með kaffinu alla mæðradagshelgina og láta þannig gott af sér leiða, brjóstanna vegna.
Markmið Göngum saman er að afla fjár til að styrkja grunnrannsóknir á eðli og orsökum brjóstakrabbameins og flýta fyrir bættri meðferð og auknum lífslíkum. Félagið úthlutar styrkjum í október ár hvert og frá stofnun þess, haustið 2007, hefur um 60 milljónum verið úthlutað til íslenskra rannsókna á sviði brjóstakrabbameins.